21.09.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. og hv. þm. Str. gagnrýndu í ræðum sínum allhvasslega samningsuppkast það, sent hér er til umræðu. Ég tel nú að vísu þá gagnrýni að verulegu leyti byggjast á allmiklum misskilningi, þegar athugað er, hvað raunverulega stendur í þessu uppkasti. En áður en ég vík nánar að því, vil ég byrja með því að fallast á, að orðalag 4. gr. er ekki eins og það gæti skýrast verið, eins og fram kom hjá hv. ræðumönnum, þótt þeir gengju reyndar út frá því, að tilgangurinn væri augljós. Í samningsuppkastinu stóð upphaflega, að liðið skyldi flutt burt úr Rvík svo „forthwith“ sem auðið væri, en annað lið Bandaríkjanna, sem er á Íslandi, skuli flytja burt innan 180 daga frá gildistöku samningsins. Hugsunin í þessari gr. er sú, að liðið verði strax flutt burt úr höfuðstaðnum, en burt úr landinu innan 180 daga. Það mundi taka einn, í lengsta lagi tvo mánuði að flytja liðið burt úr Rvík. Ég get hvenær sem er fengið skriflega viðurkenningu frá samningamönnum Bandaríkjastjórnar um, að þessi skilningur er lagður í gr., enda ber hún það skýrt með sér. Það þarf því ekki að hafa neinar áhyggjur út af þessu.

Varðandi gagnrýni á 3. gr. vil ég segja, að sú gr. er ekki rétt þýdd. Í enska frumtextanum er talað um víss réttindi veitt „civil aircraft“. Við eigum e.t.v. ekkert orð yfir þetta, ég veit ekki, hvað málhagir menn segja við því. Það er naumast hægt að þýða með „kaupflugvélar“, sbr. kaupskip og herskip, og því hefur verið gripið til þess ráðs að umskrifa í þýðingunni. Ég skal viðurkenna, að hinn löggilti skjalaþýðandi hafði nauman tíma til stefnu. Skjalið barst kl. 10 á fimmtudagsmorgun, og vélrituð þýðing á því barst mér í hendur tveimur til þremur tímum seinna. Ég áleit nauðsynlegt að láta hraða þýðingunni, svo að samningsuppkastið gæti farið í prentun og borizt formönnum flokkanna sem allra fyrst. En vegna þess að ekki er til íslenzkt orð yfir „civil aircraft“, notar þýðandinn það, sem kalla mætti skýringarþýðingu, „flugförum öðrum en hervélum“. En þetta veldur misskilningi, því að 3. gr. er jákvæð gr., sem fjallar ekki um nein neikvæð atriði. Bandaríkjamenn ætlast til, að Keflavíkurflugvöllurinn verði stór heimsvöllur, og vilja, að það komi skýrt fram. Ég er á móti íslenzku þýðingunni hér og beini því til hæstv. forseta, að úr henni þurfi að bæta. Samkv. samningsuppkastinu ráðum við vellinum. Ef Englendingar, Rússar eða Frakkar t.d. vildu fá að koma þar við, ef þeir væru t.d. að fara með hervélar á sýningu í Norður- eða Suður-Ameríku og bæðu um leyfi til þess, þá þyrftum við ekki að spyrja Bandaríkin um það, hvort við mættum leyfa þetta. Við megum ráðstafa flugvellinum í einu og öllu eftir eigin geðþótta, ef það skerðir ekki þau réttindi, sem Bandaríkjunum eru veitt.

Hv. þm. Str. talaði um það í ræðu sinni, að í rauninni væri óviðeigandi að taka upp í 1. gr. samningsins fyrirmæli um, að stjórnir Íslands og Bandaríkjanna féllust á, að herverndarsamningurinn frá 1941 sé úr gildi fallinn með gildistöku þessa samnings (HermJ: Skuli niður falla), Með hann sé þegar úr gildi fallinn. Ég skýrði frá því í gær, að Bandaríkin hafi viljað vefengja, að þeim bæri lagaleg skylda til að vera farnir samkv. 1. gr. herverndarsamningsins. Og þótt ég hafi mótmælt þeim skilningi þeirra, þá raskar það því ekki, að annar samningsaðilinn lítur þannig á málið. Ég tel hins vegar rétt að fá hann til að fallast á minn skilning og vil a.m.k., að viðurkennt sé, að herverndarsamningurinn sé fallinn úr gildi. Bandaríkjamenn vilja, að við viðurkennum einnig opinberlega, að sá samningur sé niður fallinn. Samkv. sjötta lið þess samnings skuldbundu Bandaríkin sig til að sjá Íslandi fyrir nægum nauðsynjavörum, tryggja nauðsynlegar siglingar til landsins og frá því og gera í öðru tilliti hagstæða verzlunar- og viðskiptasamninga við það. Ég tel þessa gr. úr gildi fallna, og það er ekki óeðlilegt, að Bandaríkjamenn krefjist þess, að viðurkennt sé, að kvaðir þeirra samkvæmt herverndarsamningnum séu niður fallnar, að sama skapi og lýst er yfir, að réttindi þeirra samkv. honum séu ekki lengur fyrir hendi.

Hv. þm. Str. spurði um, hvað kosta mundi .að gera við flugvellina, um ár legan rekstrarkostnað og hverra tekna væri von af þeim. Ég hef of litla þekkingu í þessum efnum til þess að ég geti vænzt þess, að fullyrðingar mínar þar að lútandi verði teknar trúanlegar. Ég held þó, en ekki þori ég að fullyrða það, að flugmálastjóri hafi einhver ummæli um þetta haft (ég tek það skýrt fram, að ég ber hann ekki fyrir þessu), að 20 –25 millj. kr. þyrfti að verja til þess að gera Reykjavíkurflugvöllinn að góðum flugvelli. Um rekstrarkostnaðinn veit ég ekkert greinilegt annað en það, að hæstv. fjmrh. hefur tjáð mér, að 4–5 millj. kr. hafi gengið til vallarins á fáum mánuðum. (Atvmrh.: Og það hefur mest farið til tækjakaupa). Ég vefengi ekki það, sem hæstv. atvmrh. skýtur hér inn í, hann veit þetta betur en ég, þessi upphæð hefur eflaust mest gengið til tækjakaupa. Varðandi Keflavíkurflugvöllinn hefur mér verið tjáð, að til þess að gera hann sæmilega nothæfan sem flughöfn allra þjóða, þurfi að byrja með að gera við hann fyrir 30–40 millj. kr. En ætti að gera þarna fullkomna flughöfn, mundi viðgerðin kosta um 70–80 millj. kr. Bandaríkin hafa ekki tekið á sig neinar skuldbindingar samkv. þessum samningi til þess að gera þær framkvæmdir, sem þarna er talað um, en það liggur í hlutarins eðli, að ef þau fengju að hafa þau afnot af flugvellinum, sem farið er fram á í samningsuppkastinu, þá verða þau sjálfra sín vegna að leggja a.m.k. í verulegan kostnað, og ég hygg, að ég megi fullyrða, að þau hafa í hyggju að eyða nokkrum millj. kr. í flugvöllinn til þess að hafa afnot af honum, ef úr samningum verður.

Um rekstur þessa flugvallar þori ég ekki að fullyrða, en mér er sagt, að reksturinn kosti tugi millj. kr. Um tekjur er erfitt að gera sér hugmynd, en einhverjar upplýsingar munu liggja fyrir um rekstur flugvallarins við Rvík, sem mikið er notaður á svipaðan hátt og þessi flugvöllur mundi verða. Af þessum flugvelli reiknast 2 millj. kr. tekjur miðað við, að 10 flugvélar lendi þar á dag og hver vél borgi 500 kr. fyrir að lenda.

Ég hef talið mér skylt að svara hv. þm. Str. spurningum hans, þótt nokkuð kunni það að vera gert af vanefnum hjá mér, en það er gert eftir þeim beztu heimildum, sem ég hef ráð yfir. Hv. þm. Str. sagði, að samkv. þessu samningsuppkasti réðu Bandaríkin algerlega, hversu margir Íslendingar lærðu flugtækni á flugvellinum. Það er mikill misskilningur, því að Íslendingar geta haft eins marga menn á flugvellinum og þeir vilja, en eini annmarkinn, sem þar er á, er, að Bandaríkjamenn vilja ekki borga öðrum kaup en þeim, sem þeir þurfa þar á að halda í sambandi við starfsemi sína á flugvellinum. Íslendingar geta, ef þeir vilja, haft 10 menn að baki hvers faglærðs Ameríkumanns og sagt þessum 10 mönnum að fylgja þessum lærða manni frá morgni til kvölds til þess að læra þar öll störf. En Bandaríkin segja, að þau þurfi ekki á öllum þessum 10 mönnum að halda og vilji þess vegna ekki greiða þeim öllum kaup. Getum við þá borgað þeim sjálfir og haft eins marga menn þar og við viljum. Hv. þm. Str. sagði, að óviðeigandi væri, að ég kveði ekki sterkara að ákvæði 7. gr., um það, að stj. Bandaríkjanna og Íslands skuli í samráði setja reglugerðir um rekstur, öryggi og önnur mál, er varða afnot allra flugfara af flugvellinum. Ég verð því miður að viðurkenna, að einnig þessi þýðing er ónákvæm, en það er óþarfi að fagna yfir því, því að ég hef ekki þýtt það sjálfur, heldur hafa gert það löggiltir skjalaþýðendur, og þeir hafa haft stuttan tíma. En það skiptir sama og engu máli, því að þótt þessi þýðing sé ónákvæm, er það þó heldur í okkar hag á ensku tungunni. Þetta verður að sjálfsögðu athugað í n. En ég get ekki séð neitt óviðeigandi í því, að stj. beggja landa komi sér saman um reglugerð til þess að tryggja öryggi á flugvellinum. Þó að ég sé mjög ófróður um rekstur flugvalla, þá minnir mig, að ef við ættum að hafa þennan rekstur í eigin höndum, þá yrðum við að hlíta reglum um rekstur þessa flugvallar, sem settar eru ekki af okkur einum, heldur af 50 þjóðum.

Mér fannst að öðru leyti margt af því, sem hv. þm. Str. sagði, vera byggt á misskilningi. Hann sagði, að Bandaríkin hefðu tryggt það, að vandlega væri séð fyrir nauðsynlegum fyrirmælum um það, sem varðaði þeirra hagsmuni og fríðindi, en þetta hefði alveg láðst af hendi Íslendinga, og taldi hann upp í því sambandi, að hvergi er tekið fram, að Ameríkumenn þurfi að afla sér dvalar- eða atvinnuleyfis né að hlíta íslenzkum lögum og lögsögu og greiða tolla, og þaðan af síður gætum við haft nokkurt minnsta eftirlit með því, hvað margir þessir menn væru.

Ég vil í fyrsta lagi benda á það, að að svo miklu leyti sem snertir þau atriði samningsins, sem Íslendingar hafa sótzt eftir að fá viðurkenningu á, þá eru þau öll viðurkennd í 1., 2. og 4. gr. samningsuppkastsins. Það er alveg skýlaust kveðið á um, að niður falli samningur frá 1941 og herinn fari frá Íslandi og Bandaríkin skuli afhenda okkur flugvöllinn í Keflavík.

Þegar svo kemur að því að semja um réttindi þau, sem Bandaríkin hafa á Íslandi, þá er það náttúrlega alveg úr lausu lofti, að í þeim kafla samningsins eigi að fara að telja upp, hvaða réttindi Íslendingar hafi á Íslandi. Það mætti æra óstöðugan, þegar maður veitir einhverjum aðila einhver réttindi á Íslandi, ef í slíkum samningum ætti að telja upp allan þann rétt, sem Íslendingar hafa í sínu eigin landi. En það er nauðsynlegt að telja upp, hvaða rétt Bandaríkin hafa á Íslandi, vegna þess að þau fá engan annan rétt en þann, sem upp er talinn. Það er alveg eins ástæðulaust að vera að tala um íslenzka lögsögu, dómsvald og tollgæzlu suður á Keflavíkurflugvelli eins og taka það fram á öðrum opinberum stöðum, t.d. hér í Reykjavík, hvort sem hér eru staddir 1, 2 eða 400 erlendir menn í dag eða á morgun.

Í þessari gagnrýni á samningsuppkastinu kemur fram mikill misskilningur. Þó að það geti hent ófróða menn í þessum efnum, þá er ég hissa á., að jafnfróðir og greindir menn, sem komið hafa hér með slíka gagnrýni, skuli geta látið glepja sér sýn. Við afhendum Ameríkumönnum viss réttindi með þessum samningi, en engan rétt annan en þann, sem tilgreindur er þar.

Um hitt atriðið, hvort við höfum nokkur tök á að fylgjast með því, hve margir menn eru á flugvellinum frá Bandaríkjunum, vil ég benda á, að ef Íslendingar taka upp á því að neita hverjum Ameríkumanni, sem biður um dvalarleyfi, þá er það brot á anda samningsins. Þá stendur hitt eftir, að enginn getur þangað komið, nema hann hafi dvalar- og atvinnuleyfi frá íslenzkum yfirvöldum, og í því liggur meðal annars aðstaða íslenzkra stjórnarvalda til þess að hafa nákvæma tölu á þeim, sem hér dveljast. Og til viðbótar vil ég svo upplýsa, sem ég hef áður tekið fram, að Bandaríkin hafa skriflega tjáð íslenzku ríkisstj., að þau ætli þörf sína vera 600 menn að óbreyttum kringumstæðum. Nú skulum við segja, að Bandaríkin bæðu um dvalarleyfi fyrir 1000 menn, þá gera þau íslenzkum stjórnarvöldum á hverjum tíma grein fyrir því, hvaða breyting hefur orðið á kringumstæðum frá því, er þeir töldu sig þurfa að hafa 600 menn. Við höfum því algerlega aðstöðu til þess að fylgjast nákvæmlega með því, hversu margir menn eru á Keflavíkurflugvellinum á hverjum tíma. Að mínu viti er þarna vel um hnútana búið.

Ég harma það, hversu mikill misskilningur ríkir um ýmis atriði þessa samningsuppkasts. Því hefur verið haldið fram, að ekki sé nógu greinilega afmarkaður réttur Íslendinga í þessu samningsuppkasti, en sá misskilningur tel ég að liggi í því annars vegar, að menn hafi ekki gert sér grein fyrir, að það er ekki eðli málsins samkvæmt að fara að telja upp rétt Íslendinga á Íslandi. Við erum húsbóndinn á heimilinu.

Að öðru leyti fannst mér hv. þm. Str. vilja leggja áherzlu á það, að hann væri mikill vinur Bandaríkjanna og teldi Íslendingum afar mikla nauðsyn að hafa vinsamlega sambúð við þá þjóð, og er ég honum sammála um það, að það er mikið hagsmunamál fyrir okkur að halda vínfengi við þá þjóð eins og aðrar þjóðir. Hv. þm. taldi hins vegar, að hér væri of langt gengið vegna þarfa þeirra. Ég skal auðvitað ekki um það deila við hann, en ekki hafa Bandaríkin álitið það, og það hefur tekið alllangan tíma að fá Bandaríkin til þess að fara niður í þetta og fá þau til þess að fallast á það allra minnsta, sem þau geta komizt af með En varðandi þá skilmála, sem hv. þm. Str. talar um að setja fyrir samþykkt þessara óska Bandaríkjanna, er það nú svo, að margt af þeim er þegar innifalið í samningnum, en annars er þetta það grundvallarsjónarmið, sem ég var að skýra frá. En um önnur atriði mun ég og hv. þm. Str. vera sammála, t.d. að æskilegt væri að fá eins árs uppsagnarfrest. Þótt ég geti ekki annað sagt en ég hafi ekki komizt lengra, þá er það hans að gera betur það, sem hann telur nauðsynlegt.

Hv. þm. gerði að lokum í ræðu sinni að umtalsefni, hve mjög væri nauðsynlegt í slíkum samningum að athuga nákvæmlega og gaumgæfilega hvert orð og hverja setningu, og það er rétt. Hann gerði það að umræðuefni jafnframt, að það væri mjög illa til fallið að leggja málið fyrir hæstv. Alþ. í því formi, að það yrði að segja annaðhvort já eða nei, og nefndi hann í því sambandi sérstaklega herverndarsamninginn frá 1941, sem hann taldi vel hugsaðan og vel orðaðan og að öllu leyti þar formlega og rétt farið að. Það skal sízt verða mitt hlutskipti að hafa á móti því, að samningurinn frá 1941 sé vel orðaður. Við hv. þm. Str. vorum báðir í ríkisstj., en borgarstjórinn í Rvík samdi þennan samning frá orði til orðs, þó að fleiri legðu þar hönd að, svo að ég nefni fyrst herra Svein Björnsson, ríkisstjóra, sem var í forsæti þeirrar samkundu, sem ræddi þetta mál.

Ég get ekki séð, að í frumtexta þessa samnings — og það verður að viðurkenna, að enskan er frummálið — sé nokkuð, sem ég hefði viljað hafa öðruvísi orðað, en í síðustu breyt., sem urðu á 4. gr., hefur orðalagið brenglazt, og því hef ég þegar gert grein fyrir. En varðandi það, hvort heppilegra hefði verið að leggja slíka samninga fyrir Alþ., þegar þeir eru gerðir, þá held ég — en ég er svo illa að mér í utanríkismálum, en ég held þó, að það sé almenn venja, að samningar séu gerðir milli ríkisstjórna og síðan leggi þær samningana fyrir þingin eða alls ekki, eins og Íslendingar hafa oft gert. Við höfum oft gert þýðingarmikla samninga, en ekki lagt þá fyrir þingið. Við gerðum t.d. samninginn við Breta um flugvöllinn hér í Rvík án þess að bera það undir Alþ., og slíkt hefur oft verið gert, eftir því sem þurfa hefur þótt í hvert skipti.

Margt fleira var í ræðu hv. þm. Str., sem gæti gefið tilefni til aths., en ég ætla ekki í þessu máli fremur en mín er venja að vera með fleiri aths. en nauðsynlegt er.

Margt af því, sem ég hef sagt í sambandi við ræðu hv. þm. Str., snertir að sumu leyti ræðu hæstv. menntmrh., og ummæli hans einnig í ýmsum efnum á svipaðan hátt, og ætla ég ekki að endurtaka þau atriði, þó að ég viki að öðrum atriðum í ræðu hans. Mér fannst andmæli hæstv. menntmrh. gegn samningsuppkastinu vera af vanefnum gerð. Ég veit, að hann er mótfallinn þessum samningi, en mér fannst hann ekki hafa sterk rök gegn honum, og það er auðvitað hægt í slíku máli að vera á móti máli, þó að maður geti ekki lagt skjölin á borðið og sýnt hvers vegna, og fannst mér líka bresta á það hjá hæstv. menntmrh. Hæstv. ráðh. beindi því að mér, að mér hefði verið falið að semja við Bandaríkin um efndir á samningnum frá 1941, en í þess stað hefði ég samið um ný fríðindi til handa Bandaríkjunum. Ég hafði lofað að ræða við Bandaríkin um niðurfellingu og fullnægingu samningsins. Ég held, að ég hafi efnt það, og ég hef skilað þeim árangri, að Bandaríkin viðurkenna, að samningurinn sé fallinn niður, og fullnægja samningnum með því að flytja her sinn héðan úr landi, og í öðru lagi með því að afhenda okkur flugvöllinn í Keflavík. Hæstv. ráðh. sagði, að með þessu nýja samningi hefðu Bandaríkin öðlazt rétt til raunverulegra herstöðva hér á landi, og hann rökstuddi þessa staðhæfingu sína með því að segja, að Bandaríkin megi samkv. honum hafa það starfslið, sem þau teldu nauðsynlegt, og gætu haft lið á vellinum svo þúsundum skiptir, aðeins sé það ekki í hermannabúningi. Ég get búizt við því, að Bandaríkjunum þyki ekki miður, ef þessi skilningur er skjalfestur í þingtíðindunum, þegar búið er að staðfesta samninginn. En það er einmitt tryggt í samningnum, að slíkt sé ekki hægt, heldur þvert á móti. Það er einmitt tryggt í samningnum, að þetta sé ekki hægt, og Bandaríkin mega alls engan hermann hafa á flugvellinum né neins staðar á Íslandi og heldur ekki hergögn eða neitt það, sem beint eða óbeint heyrir til vígbúnaðar. Þarna er ekki miðað við mátt Bandaríkjanna, heldur aðeins við þörf þeirra á starfsmönnum á flugvellinum. Þetta er samkv. 5. gr., sem fjallar um réttindi þeirra, en ekki miðað við, hvað þau óski eftir að hafa mikið lið, heldur hvað þau geti komizt af með til þess að geta innt af hendi þær skuldbindingar, sem þau hafa tekizt á hendur gagnvart herstjórn og eftirliti í Þýzkalandi. Og þeir hafa kveðið upp úr með það, hvað marga menn þeir þurfi að hafa á flugvellinum að óbreyttum kringumstæðum, og það er við þessa raunverulegu þörf, sem þeirra réttur er miðaður, en ekki við mátt þeirra. Mér dettur ekki í hug að ætla, að Bandaríkjamenn svíki þennan samning, en ef þeir fara út fyrir þetta, hafa þeir að sjálfsögðu brotið samninginn, og yrði þá að sjálfsögðu málinu skotið til alþjóðadómstóls samkv. gerðardómsl. frá 1930 eða dómstóla, sem fjalla um ágreiningsmál hinna sameinuðu þjóða.

Ráðh. lét þau orð falla, að Ísland mundi aldrei þora að segja upp samningnum og ekki heldur að kæra, þó að út af brygði. Ég vil þá bara segja við hæstv. ráðh., að hann þekkir þá Íslendingseðlið illa, því að fram að þessu hafa Íslendingar þorað að segja sína meiningu, hver sem í hlut hefur átt. Og ég held, að það megi segja okkur til hróss, að ef okkur er misboðið, þá höfum við ekki verið feimnir við að segja okkar meiningu. En það á náttúrlega ekkert skylt við það, að menn megi ekki út af fyrir sig æskja eftir að neita öðrum þjóðum um það, sem þær þurfa á að halda, og við megum veita okkur að meinfangalausu. Það er vegna þessa vanmats á manndómi Íslendinga, sem hann taldi höfuðgalla á þessum samningi, að hann rennur ekki út án uppsagnar. Ég hef bent á, að hann gerir það að lokum, sé honum ekki sagt upp, þegar herstj. Bandaríkjanna lýkur í Þýzkalandi. Menn eru að tala um það, að því starfi verði ekki lokið fyrr en eftir marga áratugi, sumir segja 20 ár, aðrir 50 ár. Ég er ekki spámannlega vaxinn, og ég geri mig ekki að spámanni, en það skyldi þó aldrei eiga eftir að verða á okkar vegi í þessu efni, að við þurfum ekki á manndómi eða karlmennsku að halda, því að ástandið yrði það breytt í heiminum áður en sex og hálft ár er liðið. Ég vona, að heimurinn haldi ekki áfram því brjálæði í sex og hálft ár, að herseta í Þýzkalandi verði þá eins og hún er nú, og ég vona, að löngu áður en sá frestur er liðinn, verði komin á friðsamari öld en kannske eru nú horfur á.

Þá sagði hæstv. ráðh., að Bandaríkin geti notað þennan samning til þess að undirbúa árás á aðrar þjóðir. Þá er því til að svara, að íslenzk stjórnarvöld hafa eftirlit með öllu, sem gerist á flugvellinum, og flugmálastjóri getur verið þar daglega og haft þar svo marga menn sem hann vill. Og við getum fylgzt með öllu því, sem þar gerist á flugvellinum. Og ef eitthvað er grunsamlegt þar á ferðinni, eigum við heimtingu á að fá að rannsaka það, og sé um undirbúning árásar að ræða, þá er samningur þessi gerbrotinn. Annars fannst mér gæta langt úr hófi í ræðu hæstv. ráðh., að samningurinn væri lítils virði af því, að þegar sá veiki væri búinn að semja, þá réði hinn sterki skilningi samningsins. Þetta er misskilningur. Ég get ekki séð, að sá veiki hafi yfirleitt nokkurn rétt annan en þann, sem hann getur tryggt sér á grundvelli siðferðislögmáls og samninga, og þá sérstaklega þegar samið er við þá þjóð, sem þekkt er að því að virða samninga. (BrB: Eins og Bandaríkin okkar samninga). Já, eins og Bandaríkin. (EOl: Eins og Bandaríkin okkar samninga nú). Já, eins og þau virða þá nú, eða héldu hv. þm., að ég hefði átt við eitthvert annað stórveldi? (EOl: Nei, nei).

Hæstv. menntmrh. sagði, að ég hefði gefið í skyn, að það væri bein óvinátta við Bandaríkin, ef þessum samningi væri hafnað, og þetta væri því réttur nauðungarsamningur. Ég lét engin orð um það falla á þann hátt, sem hæstv. menntmrh. sagði. En ég hef litið svo á þetta mál og ég hef aldrei efast um það, að lýðræðisþjóð eins og Bandaríkin skildi það, að önnur lýðræðisþjóð. þótt minni sé, hefði ekki séð sér fært að verða við þeirri beiðni, sem borin var fram 1. okt. í fyrra um leigu á herstöðvum á Íslandi. En hitt þykir mér fremur orka tvímælis, að Bandaríkin telji það í samræmi við vinfengi okkar að hafa neitað þeim um þennan rétt til þess, að þau gætu innt af hendi skuldbindingar sínar, er þau hafa gagnvart Bretum, Rússum og fleiri hinna sameinuðu þjóða, þar sem sá réttur, sem þau fara fram á, að sé veittur sér, er okkur að meinfangslausu. En svo get ég trúað því, að það sé rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ef Bandaríkin fengju synjun á þessari beiðni sinni og við óskuðum þess, að þau færu burtu, þá mundu þau gera það. En Íslendingar verða að gera upp við sig, hvort þeir eigi að neita Bandaríkjunum um þetta og hvort þeir eigi að biðja þá um að fara. Íslendingar verða að gera það upp við sjálfa sig, hvort þeir telja, að slíkt samrýmist betur íslenzku sjálfstæði og íslenzkum hagsmunum. Það er þetta, sem okkur greinir á um. Ég er ekki að ásaka hann fyrir hans skoðun, en ég hef aðra skoðun.

Loks sagði hæstv. ráðh., að vegna meðferðar þessa máls væri fallinn niður grundvöllurinn undir sjálfu stjórnarsamstarfinu. Um hina efnislegu hlið ætla ég ekki að fjölyrða frekar, en ég tel, að málefnasamningur ríkisstj. sé ekki brotinn, þótt þetta samningsuppkast verði samþ., og vegna meðferðar málsins hygg ég, að hæstv. ráðh. geti ekki stefnt að mér réttmætum ádeilum. Alþ. í júlí fór að vissu leyti fram atkvgr. um þetta mál. Ég gerði þá till. um málsmeðferð og gaf í því sambandi þá yfirlýsingu, að ég mundi tala upp umr. um þetta mál við stjórn Bandaríkjanna, og lagði til, að málið yrði afgr. í samræmi við þá yfirlýsingu mína. Að mínum vilja og óskum fóru í þessu efni Sjálfstfl. og Alþfl., en gegn mínum óskum Sósfl. og Framsfl. Það er ekki nema eðlilegt, að ég fullnægi þeim fyrirheitum, sem ég gaf þá, og geri það í samráði við þá menn, sem báru það traust til mín að fela mér að fara með þessa samninga. Og ég kannast ekki við að hafa brotið af mér í þessu efni. Ég ætla ekki að þessu sinni að rekja það, hvort ég hafi undan nokkru að kvarta í þeirra garð í sambandi við þetta mál eða varðandi málsmeðferð einhverra annarra mála, en það er ekki óeðlilegt, þegar menn með mismunandi skoðanir starfa saman um langan tíma, að þá líki ekki öllum allt. En ég tel ekki réttmætt að dæma mig fyrir þessa málsmeðferð. Ég tel hana frá minni hendi alveg í fullu samræmi við eðli málsins.

Ég get að lokum sagt sama um ræðu hæstv. ráðh. og ræðu hv. þm. Str., þar er margt fleira, sem ég gæti gagnrýnt, en ég held, að ég hafi með þessum aths. drepið á það, sem okkur ber á milli í aðalatriðum í þessu máli, og hirði því ekki um minni atriðin, þar sem þau hafa ekki úrslitaþýðingu í málinu.