21.09.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Það er næsta eðlilegt, þegar umr. eru hafnar um þetta mál, að athyglin beinist að herverndarsamningum frá 1941, sem segja má, að sé upphafinu með því máli, sem hér liggur fyrir. Í sambandi við það mál hélt hæstv. menntmrh. því fram, að sú samningagerð af hálfu Alþ. Íslendinga væri nauðungargerð, og að þeir, sem að þeim samningi stóðu, hefðu verið til þess knúnir af ótta við aðra íhlutun, ef ekki væri orðið við því tilboði, sem fyrir lá. Ég get ekki talað fyrir munn annarra flokka en míns flokks, Alþfl., varðandi þetta mál. Ég get skýrt frá því, að af hálfu Alþfl. var þetta engin nauðung knúin fram af utan að komandi öflum. Alþfl. greiddi heils hugar atkv. með verndarsamningnum frá 1941. Ef hæstv. kennslumrh. renndi augunum yfir þingtíðindin frá þeim tíma, yfir þau fáu orð, sem ég sagði um málið, þá mundi hann ekki finna einn einasta stafkrók um það, heldur þvert á móti. Og það er í fullu samræmi við afstöðu Alþfl. í þeim málum. Hann hafði þá skoðun, ekki frá 22. júní 1941, heldur frá 1. sept. 1939, að heill og velferð mannkynsins væri undir því komin, að sameinuðu þjóðirnar ynnu styrjöldina við öxulríkin. Þessi skoðun Alþfl. var ekki bundin við tímatakmörkin 22. júní 1941. — Út frá þessu sjónarmiði vil ég undirstrika það, sem hv. þm. Str. sagði um þetta efni. Frá hans hálfu var það engin nauðung að samþykkja þennan samning, og ég vil skýrt taka það fram, að af hálfu Alþfl. var gengið heils hugar til samþykkis á þeim samningi.

Næst ber að staldra við meðferð þessa máls, þegar merkileg ný tíðindi gerast. 1. okt. 1945 berst íslenzkum stjórnarvöldum beiðni Bandaríkjanna um herstöðvar hér á landi til langs tíma. Ég ætla ekki að rekja sögu þess máls, hún er öllum þingheimi kunn. É.g mun að sjálfsögðu í þessu efni aðeins tala fyrir munn míns flokks. Alþfl. tók það skýrt fram, þegar svarnótan var send Bandaríkjastjórn 6. nóv. 1945, að hann vildi ekki ljá máls á því að ræða við Bandaríkin um slíkan samning, eins og hann var þá borinn fram fyrst af hálfu Bandaríkjanna, 1. okt. 1945. Afstaða Alþfl. hefur verið skýr og greinileg.

Næst skal staldrað við og minnzt þeirra yfirlýsinga, sem stjórnmálaflokkarnir gáfu fyrir kosningarnar, er fram fóru 30. júní 1946. Hæstv. menntmrh. tók skýrt fram, að Alþfl. hefði gefið um það skuldbindingu og yfirlýst, að hann væri á móti því, að samið yrði um herstöðvar á Íslandi. Það er rétt. Alþfl. gaf um það yfirlýsingu í kosningastefnuskrá sinni, og mun ég lesa hana upp ásamt litlum formála, með leyfi hæstv. forseta:

„Á 18. þingi Alþýðuflokksins var í ályktun sératök áherzla lögð á, að þess verði vandlega gætt í meðferð íslenzkra utanríkismála, að staðið sé vel á verði gegn hvers konar ágengni og ásælni erlends valds til umráða og áhrifa á fjárhagsmálefni, stjórnmál og þjóðernismál, og að gjalda beri einkum varhuga við umráðum og áhrifum erlends auðmagns og öllum tilraunum, er miða í þá átt, að erlend stórveldi styðji einstaka stjórnmálaflokka eða stéttir til áhrifa á íslenzk þjóðmál í anda þess eða þeirra stórvelda, er með afli fjár eða annarra áhrifa sveigja flokka eða stéttir til hlýðnisafstöðu við erlent vald.

Erlendur her hefur dvalið á Íslandi meginhluta stríðsáranna og með beinum samningum á milli íslenzkra stjórnarvalda og Bandaríkjastjórnar. En þótt Íslendingar lánuðu land sitt til hernaðarþarfa á stríðsárunum, og aðstoðuðu þannig lýðræðisþjóðirnar í baráttu þeirra gegn einræði og ofbeldi, vilja þeir ekki hafa hér á landi neinar herstöðvar.

Alþýðuflokkurinn kvað fyrst upp úr um það, síðastliðið haust, að hann væri því eindregið andvígur, að léð yrði máls á, að nokkrar samningaumleitanir færu fram við Bandaríkin um slíkar herstöðvar.

Þeirri stefnu, sem flokkurinn hefur þannig markað, mun hann ótrauður fylgja, hver sem í hlut á.“

Þetta er að mínu viti skýrt og ótvírætt í kosningastefnuskrá Alþfl.

En þá kem ég að því, sem er þungamiðja þessa máls og ég mun minnast nokkrum orðum á, er verið er að ræða um samning um herstöðvar á Íslandi. Áður en ég kem að því, þykir mér rétt að drepa á það í sambandi við uppkast það, sem fyrir liggur, að nokkur skýlaus og ákveðin atriði eru í samningsuppkastinu, sem eru þannig, að hver og einn einasti sannur Íslendingur hlýtur að gleðjast yfir þeim. Þau atriði er að finna í fyrstu greitt samningsuppkastsins um það, að herverndarsáttmálinn frá 1. júlí 1941 skuli niður falla. Þetta er fyrsta atriðið. Og þrátt fyrir það að það sé og hafi verið íslenzkur málstaður, að herverndarsáttmálinn hafi af sjálfu sér fallið niður við stríðslokin, þá er það víst og áreiðanlegt, að til þessa hefur ekki fengizt viðurkenning á því af hálfu hins samningsaðilans. Það er því ekki þýðingarlaust atriði að fá skýlausa og ákveðna viðurkenningu hins samningsaðilans á því, að herverndarsamningurinn sé niður fallinn. — Annað atriðið, sem mun gleðja alla, er niðurlag 2. gr., þar sem talað er um, að flugvöllurinn sé skýlaus eign íslenzka ríkisins. — Þriðja atriðið er í 4. gr. samningsins. Þar er því lofað, að Bandaríkin skuldbindi sig til að flytja á brott allt herlið og sjólið Bandaríkjanna innan 180 daga frá gildistöku samningsins. Og út af deilum og mismunandi skilningi, sem komið hefur fram í þessu efni varðandi brottflutning herliðsins frá Reykjavík, þá vil ég taka undir það með hæstv. forsrh., að mér er vel kunnugt um, að það er skýlaus fyrirætlun Bandaríkjastjórnar hvað herliðið í Reykjavík snertir að flytja það burt mun fyrr en herliðið frá Keflavíkurflugvellinum. Og ég er ekki í vafa um, eins og hæstv. forsrh. hefur lýst yfir, að það er auðvelt að fá um þetta skýlausa yfirlýsingu frá fulltrúum Bandaríkjastjórnar hér á landi. Ég tel því 4. gr. samningsins mikils virði fyrir Íslendinga, ef hún er rétt og eðlilega skýrð. — Fjórða atriðið, sem ég tel mikils virði, er í 6. gr. Þar er ákvæði um það, að Bandaríkjamenn skuldbindi sig að svo miklu leyti sem kringumstæður leyfa til að þjálfa íslenzka starfsmenn í tækni flugvallarekstrar, svo að Ísland geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins, að svo miklu leyti sem frekast er unnt. Efni þessarar gr. er, að þetta skuli gert eftir því, sem Ísland geti lagt fram menn til þess að fá þá þjálfaða í flugvallarekstri og meðferð. Verða þeir þá þjálfaðir með það fyrir augum, að þeir geti síðar leyst ameríska starfsliðið af hólmi, þegar þar að kemur. — Svo er það niðurlag 7. gr., sem er mikils virði: Slík ákvæði raska þó ekki úrslitayfirráðum ríkisstj. Íslands hvað umráð og rekstur flugvallarins snertir. — Ég vildi aðeins draga fram þessi atriði til þess að sýna, að í samningi þessum felast skýlaus ákvæði, sem hljóta að gleðja alla sanna Íslendinga.

Þá kem ég að því atriði, hvort ákvæði samningsins um tímabundin og tiltekin fríðindi fyrir Bandaríkin séu sama og dulbúin herstöð, eins og haldið hefur verið fram hér á Alþ. Ef slíkt væri rétt, þá skyldi ég taka undir það með hæstv. menntmrh., að samþ. slíks samnings væri brot á yfirlýstum vilja og skoðunum a.m.k. Alþfl. síðan í síðustu alþingiskosningum, og væntanlega mætti segja sama um fleiri flokka. En hvað er það þá, sem um ræðir í samningnum um tímahundinn og tiltekinn afnotarétt Bandaríkjanna af flugvellinum, sem telja mætti hættulegt eða skylt herstöðvum? Í 5. gr. er hægt að sannfærast um það, hvort um dulbúna herstöð sé að ræða eða ekki. Og það skulu menn gera sér ljóst, að það væri alvarlegt mál, ef um slíkt væri að ræða, þar sem í yfirlýsingum Bandaríkjanna er ekkert slíkt látið í veðri vaka. Ef þetta reyndist nú vera svo, þá væru Bandaríkin í fyrsta lagi að svíkjast aftan að okkur með brögðum. Og við, sem viljum vinna að þessari samningagerð, værum þá einnig svo fávísir og fáfróðir, að við sæjum ekki við brögðunum eða vildum svíkja áður gefnar yfirlýsingar. Þess vegna er þetta alvarlegt mál og alvarlegur áburður á hendur þeim, sem fengizt hafa við þessa samningagerð. En hvað er það þá, sem er fólgið í 5. gr. samningsuppkastsins? Það er að sjálfsögðu aðalatriði málsins. Ég mun með leyfi hæstv. forseta lesa upp upphaf gr.; þar segir: „Flugförum þeim, sem rekin eru af Bandaríkjastjórn eða á hennar vegum í sambandi við framkvæmd þeirrar skyldu, er Bandaríkin hafa tekizt á hendur, að hafa á hendi herstjórn og eftirlit í Þýzkalandi, skulu áfram heimil afnot af Keflavíkurflugvellinum.“ Þetta er þungamiðjan. Ég hef leitt rök að því og það hefur verið gert áður, að flugvöllurinn er undir íslenzkum yfirráðum og allir hermenn eru farnir brott a.m.k. eftir 6 mánuði. Þess vegna er aðeins um það að ræða, að flugvélar Bandaríkjastjórnar hafa samkv. samningi við íslenzku ríkisstj. rétt til að lenda á alíslenzku yfirráðasvæði, meðan Bandaríkin eru að fullnægja skuldbindingum sínum um hersetu Þýzkakands. Og er það rétt að kalla slíka herstöð? Hvað er eiginlega herstöð? Mér finnst, að það hljóti að liggja í hlutarins eðli, að herstöð sé aðsetursstaður hers, þar sem séu yfirráð hers og herstjórnar. Ég sé ekki, að hægt sé að skilgreina herstöð með öðru móti en því, að tvennt þurfi að vera til staðar: her og tæki til að beita ef á þarf að halda. Hvernig er það, hvað þetta snertir, á flugvellinum? Flugvöllurinn er óskoruð eign Íslendinga og undir stjórn íslenzku ríkisstj. Og eftir 6 mánuði verður þarna ekki einn einasti hermaður. Þá skortir á þetta skilyrði. En sé þetta allt svo lævíslegt, að það sé aðeins ætlunin að færa hermennina úr herbúningnum og láta þá fara í borgaralegan klæðnað til þess að gera þetta sem ólíklegast, þá er hitt atriðið eftir. Hvar eru hertækin? Það skilyrði er ekki heldur fyrir hendi. Þar verður engin loftvarnabyssa, enginn hermaður og yfirleitt engin vopn. Er svo hægt að tala um, að þarna sé hernaðarbækistöð? Og reyni einhver að halda því fram, þá skal hann koma með fullkomnari skilgreiningu á því, hvað sé hernaðarbækistöð, hvaða skilyrði þurfi og séu þarna til staðar. Ég tel, að þessi tvö skilyrði þurfi að vera þar til staðar, en hvorugt sé þar. Ég vil slá því föstu, að hér sé ekki um samning að ræða, sem hafi í sér fólginn hinn minnsta rétt fyrir Bandaríkin til að hafa herstöðvar á Íslandi. En ég vil segja það við þá menn, sem hafa hina verstu trú á Bandaríkjunum — og þeir menn eru vissulega til hér á Alþ., — að án þess að ég ætli að fara að gerast talsmaður þeirra hér, þá er samt hægt að viðurkenna þá staðreynd, að viðskipti okkar við Bandaríkin hafa yfirleitt ekki verið þannig, að menn hafi þurft að kvarta yfir þeim. Og hverjir voru fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Íslendinga? Voru það ekki Bandaríkin?

Ég vil slá því föstu fyrir mitt leyti, að í þessum samningi felist ekki neitt það atriði, sem sé þess valdandi, að hægt sé með nokkrum rökum að segja, að hér verði herstöð. Þegar þessa er gætt, þá er það næsta auðsætt, að Alþfl. gengur ekki á nokkra fyrri yfirlýsingu sína varðandi herstöðvar á Íslandi, þótt hann vilji samþykkja þennan samning. En er þá eitthvað í þessum samningi, sem er svo óhagstætt og illa við unandi eða að það skerði sjálfstæði landsins þannig, að við getum þess vegna ekki samþykkt hann? Ég skal ekki fara nákvæmlega út í hverja einstaka gr. samningsins. Það hefur verið gert nokkuð að því og verður gert betur síðar, þegar málið verður athugað í n. Það, sem mér skilst, að helzt geti bent til þess, er, að hópur útlendra manna á að dveljast á íslenzkri grund, sem gæti þó ekki orðið lengur en sex og hálft ár, nema Íslendingar kysu það. Þessir menn væru að vinna að ákveðnum rekstri flugvallarins og auka flugvallarstarfsemina, og til þess þarf að flytja inn talsvert mikið af efni frá Bandaríkjunum. Það á ekki að greiða neina tolla af því efni, sem þarf til að halda við flugvelli okkar og auka hann og reisa mannvirki. Er það atriði óeðlilegt? Ég segi nei, þegar af þeirri ástæðu, að allt þetta fellur í hlut Íslendinga að samningstímabilinu loknu, allt, sem ekki er hreyfanlegt á vellinum. Og mestur hluti þess, sem lagt er í kostnað á vellinum, er til viðhalds, aukningar og endurbóta á flugvellinum sjálfum og einnig húsabyggingar og þess háttar. Þá er það með þessa menn, við skulum segja 600, eftir því sem fyrir liggur nánast, að gætu orðið þarna fyrst í stað. Þó að ekki sé ákveðið loforð um, að ekki fari fram úr þessari tölu, þá hefur hæstv. forsrh. lesið upp bréf, þar sem m.a. segir, að Bandaríkin skuldbindi sig til að hafa tölu þessara borgaralegu starfsmanna sem allra lægsta að þeir geti komizt af með. Og þeir geta ekki hugsað sér, að talan þurfi að fara yfir 600. Þetta er rétt að hafa í huga, þegar rætt er um málið. En er þá vera þessara manna og vinna á íslenzkum flugvelli skerðing fyrir sjálfstæði Íslands og óviðurkvæmileg vegna stolts ríkisins? Ég held, að tæplega sé hægt að álíta það. Ég veit, að hæstv. atvmrh. er manna kunnugast um, að okkur skortir mjög lið til að halda uppi rekstri okkar íslenzka flugvallar í Reykjavíkurbæ, sem við tókum við af Bretum. Það mun æði stór hópur brezkra þegna vinna þar, og dettur engum í hug, að neitt sé óeðlilegt, meðan við eigum á að skipa aðeins fámennum hópi íslenzkra kunnáttumanna á þessu sviði, flugvallatækninni. Hygg ég þess vegna, að tilvist eitthvað 600 amerískra manna suður á Keflavíkurflugvelli undir íslenzkri stjórn og íslenzkum fána ætti ekki að vera neitt ógurlegt og hættulegt fyrir sjálfstæði og stolt íslenzku þjóðarinnar. Það hefur verið sýnt fram á það ótvírætt eftir samningnum, að þessir menn eru undir íslenzkri lögsögu. Þeir hafa samkv. samningnum víss takmörkuð fríðindi, sem eru tæmandi upp talin í samningnum. Allt, sem ekki er þar talið, fer að íslenzkum réttarreglum. Það er sú venjulega lögskýring í samningum yfirleitt og venjulegri löggjöf. Það þarf ekki að orða það sérstaklega í samningnum, að allt annað en það, sem beinlínis er talið upp í samningnum, hlíti fyrirmælum íslenzkra laga, íslenzkri lögsögu og dómsvaldi. Og ég ætla, að þeir amerísku menn þyrftu jafnvel að leita til eins hv. þm., sem hér er í salnum, um leyfi til að bera byssu, þ.e.a.s. sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu. (Rödd af þingbekkjum: Það er nú ekki lamb að leika sér við!) Ég veit, að hann mun gæta íslenzkra laga og réttinda ekki síður en önnur yfirvöld.

Ég gleymdi einu atriði í sambandi við hugleiðingar mínar um það, hvort hér væri um herstöðvar að ræða, ef við leyfum Bandaríkjamönnum að lenda hernaðarflugvélum á flugvelli á Íslandi undir íslenzkri stjórn. Mér er kunnugt, að á meginhluta flugvalla hér í Evrópu, í hlutlausum ríkjum og ríkjum, sem í stríðinu voru og eru nú laus, er það algengt, að erlendir hermenn starfi. Margir Íslendingar, sem komið hafa á Brommaflugvöllinn rétt við Stokkhólm, hafa séð hermenn í amerískum herklæðum. Slíkt er ekki sjaldgæf sjón í sambandi við móttökur á þeim velli. Það er alveg víst, að á meginhluta flugvalla á meginlandi Evrópu hjá fullkomlega sjálfstæðum ríkjum, sem halda uppi virðingu sinni og vilja halda uppi ákveðinni utanríkismálastefnu, má sjá hernaðarflugvélar lenda með góðu samkomulagi við hlutaðeigandi ríkisstjórnir.

Ég fyrir mitt leyti hef slegið því föstu, að ég vil ekki hafa neinar herstöðvar hér, og hef reynt að færa rök að því, að ekkert sérstakt sé í samningnum, sem geri það að verkum, að Íslendingar þurfi að blygðast sín vegna sjálfstæðis síns og sjálfsvirðingar. En þá er eftir spurningin um það, hvort það sé samt rétt og eðlilegt að veita Bandaríkjunum þau ákveðnu, tímabundnu og takmörkuðu fríðindi, sem í samningnum felast. Ég verð þá að segja fyrir mitt leyti, að ég álít ákaflega örðugt, eins og á stendur, að neita ágætri vina- og viðskiptaþjóð um það, sem flestar aðrar þjóðir mundu gera. Það eina, sem mér skilst yfirleitt að sé þungamiðjan í þessu efni hjá þeim mönnum, sem ráðast á samninginn, er tortryggni og aftur tortryggni í garð Bandaríkjanna um, að þau muni misnota samninginn, beita smáþjóðina bola- og fantatökum. Það er þessi tortryggni, sem vakir í brjósti þessara manna. En ég segi fyrir mig, að ég ber ekki í brjósti þessa tortryggni til Bandaríkjanna og tel alveg útilokað, að þeir vilji með yfirdrepskap og lymskulegum hætti ná yfirráðum eða tökum á Íslandi. Ég ber þeim ekki slíkt á brýn. Það skal gert af öðrum hér í þessum þingsal.

Það virðist sem þetta mál ætli að verða mikið æsingamál. Og svo er æði oft um málefni hér á Íslandi, sem snerta afstöðuna út á við. Það verða í reyndinni heitustu deilumálin. Það eru oft hörð stundarátök um ýmis hagsmunamálefni innan hins íslenzka þjóðfélags, en það eru venjulega bara áhlaup í sprettum og skammæ. En það er eins og búi í undirdjúpinu einhver straumur, sem stundum kemur upp á yfirborðið. Þessi straumur á rætur sínar að rekja til misjafnra lífsskoðana og viðhorfa til alheims stjórnmála yfirleitt. Og í þessu máli kemur sá þungi straumur nú upp á yfirborðið. Menn tala bæði um vestrænt og austrænt lýðræði og vestræna og austræna „blokk“, og menn reyna að skilgreina hvort tveggja, lýðræðið og „blokkirnar“. En við skulum vona, að ekki komi til þess, að myndaðar verði fjandsamlegar „blokkir“, austræn og vestræn, — við skulum vona það okkar sjálfra vegna. Ég fyrir mitt leyti vil ekki, að Íslendingar vinni að því vitandi vits að gerast þátttakandi í ákveðinni „blokk“. En ég neita algerlega fyrir mitt leyti, þegar um hagsmunamál Íslands er að ræða og við vínveitt ríki að eiga, að þá eigi vinsemdin og ástúðin gagnvart austrinu að ráða aðgerðum okkar. Á Alþingi 1941, þegar rætt var um herverndarsamninginn, lét ég svo um mælt, að frá mínu sjónarmiði og sjónarmiði Alþfl. væri það afgerandi að vera með herverndarsamningi, af því að við álitum það hagkvæmast og eðlilegast fyrir Ísland. Okkur þótti það líka ánægjulegt, að slíkt gat orðið til hagsmuna fyrir þá aðila, sem við höfðum fulla samúð með í heimsstyrjöldinni. Ég vil nú segja út af þessu máli eins og árið 1941. Mín afstaða og afstaða Alþfl. mótast af því eingöngu, hvað er hagsmunamál Íslendinga, en ekki öðru, hvorki vilja Bandaríkjanna né Rússlands, — aðeins hvað bezt verður talið fyrir öryggi og framtíð íslenzku þjóðarinnar. Við höfum á því trú, að gera eigi slíkan samning eins og liggur fyrir, vegna hagsmuna Íslands, og einmitt þess vegna mun ég fyrir mitt leyti greiða honum atkv.