21.09.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forsrh. sagði áðan, að hann eða við værum húsbóndi á okkar heimili. Hann hefur nú um nokkurt skeið staðið í samningum um það að fá „gestina“, sem dvalizt hafa hér, til að fara burt af okkar heimili, af því að við álítum, að dvöl þessara gesta sé lokið, samkv. samningi. Hvernig hefur honum gengið að vera húsbóndi á sínu heimili? Hann skýrir árangurinn svo, að gestirnir líti öðruvísi á, að það séu ekki við Íslendingar, sem ráðum, hve lengi gestirnir dvelja, og að gestirnir hafi rétt til að vera lengur. (Forsrh.: Það hlýtur að standa á boðskortinu dálítið lengri frestur). Gesturinn túlkar samninginn á sinn hátt. En þegar Gamli sáttmáli var gerður var sett í hann það ákvæði, að Íslendingar skoðuðu hann niður fallinn, ef hinn aðilinn gerðist sekur um trúnaðarbrot. Og Íslendingar hafa litið svo á í allri sinni sjálfstæðisbaráttu, að skilningur okkar gagnvart þessu atriði skyldi ráða, en ekki hins ríkisins, þótt voldugra sé en við.

Hæstv. forsrh. minntist líka á, að samningar væru öryggið fyrir þann veika. Vissulega er það svo venjulega. Þess vegna er lögð áherzla á það af hálfu hins veika, að svo sé frá samningum gengið, að þeir tryggi rétt hins veika. En þó rekum við okkur á, að þegar svo vel er gengið frá samningi eins og ætla mætti um samninginn frá 1941 um herverndina, þá ráðum við þó ekki, hvernig slíkur samningur er túlkaður og hvernig réttindi, okkar eru framkvæmd í okkar eigin landi. Ég held, að einmitt þetta, sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að við værum húsbændur á okkar heimili, hafi verið frekar óheppilega orðað, — einmitt vegna þess, sem nú liggur hér fyrir. Hann hafði tekið að sér á fyrri hluta þessa þings að semja við Bandaríkjastjórn um brottför hersins, sem hér hefur dvalizt. Hann hefur nú sagt fyrir þessu sama þingi, að hann fái herinn ekki til að fallast á skilning Íslendinga í þessu máli, og vegna þess að hann fái ekki herinn til þess, þá sé ekki hægt að fá Ísland laust við hersetuna, nema með því að gera þennan samning, sem hér liggur fyrir frá hendi forsrh. Hann hefur nú lagt hér fyrir till. til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstj. til að gera samning við Bandaríki Ameríku um niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl. Og í allri röksemdafærslunni, sem flutt er fram, er það sagt, að allur síðari hluti þessa samnings sé skilyrði fyrir því, að Bandaríkin standi við þann samning, sem þau gerðu 1941, og er þá átt við sjónarmið Íslendinga. Í upphafi þess bréfs, sem sendiráð Bandaríkjanna skrifaði og hér er birt, standa þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1941 fól ríkisstjórn Íslands Bandaríkjunum herverrnd landsins. Sú hætta, sem þá steðjaði að Íslandi og meginlandi Ameríku, er nú hjá liðin með hernaðaruppgjöf möndulveldanna.“ Það, sem Íslendingar og Bandaríkjamenn hafa deilt um undanfarið, er það, hvort hættan, sem skapaðist 1941, sé úti og stríðið, sem þá stóð og Bandaríkin drógust inn í, sé búið eða ekki. Íslendingar halda fram, að það sé búið, hættuástandið liðið hjá með uppgjöf möndulveldanna. Hér stendur í bréfinu: „Hættan er nú liðin hjá með hernaðaruppgjöf möndulveldanna:“ Í sjálfum samningnum viðurkennir Bandaríkjastjórn það, sem Íslendingar halda fram í þessu máli. Við höfum staðið fast á þessum skilningi, og öll sagan kennir okkur, að það er nauðsynlegt fyrir okkur sem smáþjóð að standa fast á þeim skilningi, sem við höfum á málinu. Við höfum í sjö aldir haft staðfastan skilning á ákveðnum sáttmála, og ekki viðurkennt annan skilning, þó að staðreyndir hafi verið í ósamræmi við sáttmálann. Við héldum staðfastlega við þann skilning, að konungurinn, sem við tókum 1264, væri konungur íslenzku þjóðarinnar, en erlent ríki ætti engu að ráða um þjóðfélag á Íslandi og stjórn hér. Og þó að erlent ríki hefði hrifsað til sín völd og ráð, þá höfum við neitað að viðurkenna slíkt. Í sjálfstæðisbaráttu okkar var staðið með mikilli festu á okkar skilningi á þeim samningi, sem við höfðum gert, þó að við værum veikari þjóðin. Og það verður ekki til heilla í þeirri sjálfstæðisbaráttu, sem við þurfum að heyja nú, að víkja frá okkar eigin skilningi á málinu, eins og hér á að gera. Ég fyrir mitt leyti vil heldur búa við það, ef erlendu stórveldi þóknast að haga sér í trássi við íslenzk lög, en að það fái okkur til að ganga inn á samning, sem við ella mundum ekki ganga inn á.

Það hefur verið minnzt á það í þessum umr., að það væri ekki vottur af vináttu við Bandaríkin, ef ekki er gengið að því samningsuppkasti, sem fyrir liggur. Hæstv. forsrh. orðaði það svo, að sendimenn Bandaríkjanna þykjast vera búnir að ganga svo langt, að ekki væri vinsamlegt að neita. Mér er kunnugt, að herfróðir menn í Bandaríkjunum, sem spurðir hafa verið um þýðingu Íslands og sáttmálans milli Íslands og Bandaríkjanna, hafa sagt, að án þessa sáttmála mundi að öllum líkindum England hafa verið svelt til uppgjafar, og að sá sáttmáli hafi stytt stríðið að minnsta kosti um 10%. Mætti þá reikna, að í peningaútgjöldum fyrir ríkissjóð Bandaríkjanna mundi það svara til 30 þúsund millj. dollara, sem Ísland hefur sparað Bandaríkjunum í herkostnað, svo að við alls ekki reiknum með þeim mannslífum, sem bjargað hefur verið. Ég býst nú við, að þegar þar að auki er á það litið, að Ísland hefur misst hlutfallslega eins mikið eða meira af mannslífum í ófriðnum en Bandaríkin, þá sé hart að bera íslenzku þjóðinni á brýn, að það sé vottur um óvináttu gagnvart Bandaríkjunum að standa fast á rétti sínum, — á þeim rétti, sem slíkur samningur veitir, á þeim rétti, sem Íslendingar hafa veitt Bandaríkjunum um tíma og gefið hafa Bandaríkjunum aðra eins hagsmuni og þessi samningur hefur gert. Ég álít þess vegna fjarri lagi og algerlega óviðeigandi röksemd og í raun og veru sama sem hótun um nauðung að beita því í þingsal, að það sé óvinsamlegt gagnvart Bandaríkjunum að neita að gera þennan samning. Hitt mætti miklu fremur segja, að óvinsamlegt væri af hálfu Bandaríkjanna eftir öll þau fríðindi, sem þau hafa notið í krafti þessa samnings, að standa ekki við hann með þeim skilningi, sem Íslendingar hafa á honum, ekki sízt eftir að Bandaríkin sjálf í bréfi eru búin að lýsa yfir, að sú hætta, sem knúði menn til að gera samninginn, sé liðin hjá. Það nær engri átt að nota „vináttu Bandaríkjanna“ sem svipu á þm., og ég vil frábiðja mér, að ráðh. eða neinir aðrir þm. noti slíka röksemd í umr. hér. Það erum við Íslendingar, sem eigum kröfu á, að Bandaríkin sýni það, að þau kunni að meta það, sem við höfum fyrir þau gert. Við erum jafnrétthár aðili, og það í okkar landi, af því að við höfum leyft þeim okkar land um tíma og sparað þeim mannslíf og fjárfúlgur, og — eftir því, sem sumir segja — hafa þeir á því unnið styrjöldina. Þess vegna er fjarri lagi fyrir Bandaríkin að gera annað en það, sem er vinsamlegt og samkvæmt óskum íslenzku þjóðarinnar. Og er nokkur hér inni, sem efast um, að íslenzka þjóðin óskar þess, að Bandaríkin fari héðan með her sinn? Hvers vegna verða Bandaríkin ekki við slíkri ósk?

Hæstv. forsrh. minntist áðan á, að Íslendingar væru yfirleitt ekki feimnir að láta í ljós skoðanir sínar. Ég veit þó, að það er af feimni, að hæstv. forsrh. hefur ekki kunnað við að láta þá skoðun í ljós við Bandaríkin, að þau ættu að fara héðan samkv. samningnum. Hann kann ekki við að minnast á það við þjóð, sem við viljum eiga vínáttu við og sýnt hefur aðra eins vináttu og Bandaríkin, — kann ekki við að segja þeim, að tími sé kominn til að fara burt, án þess að gera kröfu um nokkur fríðindi í staðinn. Svona eru nú Íslendingar stundum feimnir, þegar á á að herða. Hæstv. ráðh. gat þess líka áðan, að ekki væri samrýmanlegt við vinfengi þjóðarinnar að neita henni um þennan samning. Ég trúi þessu ekki. Ég trúi bókstaflega ekki, að það liggi hér fyrir, að Bandaríkin skoði það sem óvinsamlegt athæfi gagnvart sér að neita að samþykkja þennan samning. (Forsrh.: En ég skoða það svo). Það varðar íslenzku þjóðina ekkert um. Það, sem okkur varðar í þessu tilfelli, er það, ef við heyrðum, að Bandaríkin skoðuðu neitun okkar sem óvínsamlegt athæfi. Við vitum, hvað það þýðir á diplómatísku máli, og það er þá bezt, að það liggi fyrir, ekki bara yfirlýsing forsrh., hvað hann skoðar í þessu sambandi, heldur hvað er Bandaríkjanna skoðun. Það er æskilegt, að það komi alveg beint fram.

Það má vafalaust allmikið deila um þann samning, sem gerður var 1941, og ætla ég ekki í þessari ræðu að gera hann að sérstaklega miklu umtalsefni. En öðruvísi hefðu Íslendingar tvímælalaust gert þennan samning, ef ekki hefði verið hér her í landinu og ríkisstj. ekki verið settur svo að segja 24 stunda frestur, — og sama daginn sem Alþ. samþykkti samninginn, steig amerískur her á land. Það þarf ekki að bollaleggja mikið, undir hvers konar kringumstæðum hann var skapaður. Hitt er staðreynd, að að áliti okkar Íslendinga er samningurinn rofinn, og Bandaríkin hafa hervald í þessu landi í dag í trássi við okkar ríki. En þau rök, sem liggja fyrir þessari till., eru þau, að Bandaríkin álíta, að þeim beri ekki skylda til að fara burt með her sinn, en muni hins vegar gera það, ef þau fái þennan samning, sem hér um ræðir. M.ö.o. þau ætla ekki að flytja herinn burt nema þau fái þennan samning, þó að við Íslendingar álítum, að þeim beri að fara samkv. fyrri samningi. Hvað þýðir þetta? Það á í krafti þess hervalds, sem þegar er í landinu, og í trássi við vilja íslenzku þjóðarinnar að knýja fram samninginn, sem liggur fyrir Alþ., vegna þess að þjóðinni þykir þó betra að fá slíkan samning en neyðast til að þola þá lengur í landinu. Þetta þýðir það, að í krafti þess hervalds, sem nú er í landinu, er verið að þvinga þessum samningi upp á okkur. Það eru rökin fyrir þeim mönnum, sem tala með þessum samningi, og það er þetta, sem er algerlega óviðeigandi í þessum samningi. Við eigum að gera þennan samning við Bandaríkin, á meðan her þeirra er í þessu landi og undir þeirri forsendu, að við fáum þá ekki til að fara burt öðruvísi en að gera þennan samning. Við höfum áður orðið að gera samning, þegar her hefur verið í landi okkar, en íslenzka þjóðin hefur aldrei tekið slíkan samning alvarlega. Hún leit aldrei á það sem gildandi samning, sem gerður var í Kópavogi, og mun aldrei líta á þann samning sem gildandi, sem gerður er, á meðan erlendur her dvelur í landinu í trássi við vilja hennar og skilning hennar á, hvernig gera beri samninga. Þetta verða þau rök, sem íslenzka þjóðin mun bera fyrir sig bæði inn á við og út á við í hverri þeirri deilu, sem kemur til með að rísa út af þessu. Það, sem Bandaríkjunum bar að gera, ef þau ætluðu að semja við okkur sem jafnréttháan aðila, var að fara með her sinn burt úr landinu og mælast síðan til þess, að samningur yrði gerður. Hitt er vægast sagt óviðfelldið. Aðstaða sú, sem við höfum til að gera þennan samning, er okkur ósamboðin. Það er okkur ósamboðið, að ekki skuli rætt við okkur sem frjálsa menn og að okkur skuli vera boðið að gera samning til lengri tímá en til stóð, svo framarlega sem fyrri samningurinn á að vera úr gildi fallinn. Þess vegna er það algerlega óviðeigandi, að samningurinn komi hér fram, og ég álít það ekki vansalaust fyrir Alþ. að ganga að slíkum samningi.

Þá vil ég í öðru lagi taka það fram, að ég álít undirbúning þessa samnings algerlega óverjandi. Það er siður, þegar samningar fara fram milli ríkja og það um minni mál en þetta, að opinberlega sé sett nefnd. Slíkt hefur verið gert, þegar um minni mál hefur verið að ræða en þetta; t.d. í handritamálinu, sem okkur er hjartfólgið, og í fleiri málum hefur verið sett sérstök n. til þess að ræða um þau. Það hefur ekki verið vani, að verið væri með mikið laumuspil um slíka samninga, og hefði ég talið rétt undir þessum kringumstæðum, að allir flokkar hefðu átt fulltrúa, þegar þannig samningur var undirbúinn, eða a.m.k. hefði átt að bera hann undir utanrmn. Það hefur aldrei komið fyrir, að samningur væri borinn fram án þess að hann væri fyrst ræddur í stjórninni. Nú vill svo undarlega til, að sendimaður Bandaríkjastjórnar, sem hér hefur verið, hefur varla verið opinberlega tilkynntur. Það hefur ekki verið skipuð nein n. Danir sendu hingað menn út af dönsku samningunum, og máttu þeir sitja hér á mörgum fundum út af þeim. En hér fer ekkert slíkt fram, og hæstv. forsrh. hefur skýrt svo frá, að hér í þ. hafi ekki verið nema tveir flokkar, sem á fyrri hluta þess vildu fella till. um að krefjast þess, að Bandaríkjamenn færu með herinn úr landinu, og að hann hafi litið svo á, að ekki væri rétt, að aðrir tækju þátt í þessum umr. en þeir, sem ekki vildu krefjast þess, að herinn færi burt. Það er undarlegt, ef eingöngu þeir, sem ekki vildu krefjast þess, að Bandaríkjamenn færu burt með her sinn, eiga að taka þátt í þessum umr., ef tilgangurinn er að ná sem beztum kjörum. Það hefur aldrei þótt verra að hafa þá kröfuhörðustu með, — það hefur aldrei þótt óþægilegra, til þess að ná sem beztu út úr samningum. Ég skil ekki þá röksemd að vilja eingöngu hafa þá menn með, sem vildu fella till. um, að herinn færi burt. Það er undarleg röksemdafærsla. Þegar þar við bætist, að það er ekki einu sinni stj. öll, sem er með í þessum samningi, og að hann hefur ekki einu sinni verið lagður fyrir utanrmn., þá eru það undarlegar aðferðir, sem beitt er við að ná sem beztum samningum. Það er að minnsta kosti einkennilegt, þegar hæstv. forsrh. kemur fram og segir: „Þetta eru beztu samningarnir“, þegar aðrir hafa ekki fengið að reyna, hvort ekki er hægt að fá betri samninga. Móti slíkum vinnubrögðum er aðeins til eitt vald í höndum allra þeirra þm., sem hvergi hafa nærri þessum samningi komið, og það er að reyna að knýja fram breyt. á honum. Það er forsrh. að kenna sjálfum, sem hefur undirbúið þennan samning, ef nú verða lagðar fram þær brtt.., sem reyna til fulls á það, hve langt Bandaríkjamenn eru reiðubúnir að ganga. Þess vegna er undirbúningur þessa samnings óhæfur af hendi forsrh., og hann hefur engan um að saka nema sjálfan sig, ef umr. verða meiri og hvassari og öðruvísi en hann hefði kosið, þegar þessi samningur kom fyrst til þings og þjóðar.

Ég skal svo koma að þessu samningsuppkasti sjálfu. Forsrh. sagði sjálfur, að rök þessa samnings og ástæðan til þess, að Bandaríkjamenn færu fram á að fá hann samþ., væri sú, að þeir þyrftu að fá hér flugréttindi. Við Íslendingar höfum samning við Bandaríkjamenn um flugréttindi, samning, sem var samþ. hér 24. janúar 1945, samning um loftflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna og rétt fyrir Bandaríkin til að flytja áfram til hvaða lands sem vera skal farþega og póst. Þeir mega koma hér við á ferðum sínum til endastöðva sinna. Þennan samning hafa Bandaríkin við okkur, og samkv. honum geta þeir flutt eins mikið af farþegum og þeir vilja og eins mikið af flutningi og l. samkv. er leyfilegt að flytja til Evrópu. Ég hef ekki enn þá skilið, hvað það er, sem vantar í þennan samning, til þess að Bandaríkjamenn geti fullnægt þeim skuldbindingum, sem þeir hafa tekið á sig víðvíkjandi herstjórninni í Þýzkalandi. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um, hvað það er, sem Bandaríkin ætla að flytja samkv. þessum samningi, sem ekki er hægt að flytja samkv. þeim samningi, sem nú er í gildi. Það virðist svo sem hermenn geti, samkvæmt þeim samningi, sem nú gildir, verið farþegar í flugvélum. Ég veit ekki til þess, að flugvélarnar neiti að taka hermenn sem farþega. Meira að segja hermenn sína geta Bandaríkin flutt til Evrópu. Hvað er það, sem Bandaríkjamenn vilja tryggja sér, sem þeir hafa ekki með þeim réttindum, er þeir nú hafa í Keflavík? Það liggja ekki fyrir um það upplýsingar. Forsrh. sagði aðeins, að þá vantaði viss flugréttindi, og þeir hafa viss flugréttindi.

Þá kem ég að þeirri fullyrðingu, að Bandaríkjamenn segjast hafa tekið að sér skuldbindingar og í krafti þeirra skuldbindinga þurfi þeir að hafa hér flugvöll. Eru þessar skuldbindingar gagnvart Englandi, Frakklandi, Rússlandi og sameinuðu þjóðunum ? Það hefur ekki verið sagt neitt um það, hvaða skuldbindingar þeir hafi tekið að sér í Þýzkalandi, sem þurfi að fullnægja samkv. þessum samningi hér. Þegar þeir segja, að þeir hafi tekið á sig skuldbindingar, hvernig stendur þá á því, að ekki fylgja meðmæli um það, að vegna skuldbindinga, sem þeir hafi tekið á sig, þá þurfi að láta í té þau réttindi, sem farið er fram á í samningsuppkastinu, sem hér liggur fyrir? Eitt af því, sem tekið er fram í samningi sameinuðu þjóðanna, er það, að meðmæli skuli fylgja kröfum um réttindi vegna skuldbindinga þeim til handa, og eitt af því, sem við Íslendingar ræddum mikið um í sambandi við inngöngu okkar í samband sameinuðu þjóðanna, var það, að við vildum standa vel á verði gegn því, að nokkur þjóð gæti aukið hér rétt sinn á kostnað annarrar. Þessi réttur til yfirferðar mundi fyrst og fremst þýða herflutninga. Ég býst ekki við, að Bandaríkin hafi rétt til herflutninga samkv. þeim samningi, sem þegar hefur verið gerður við þau. Er meiningin með þessum samningi, að þau eigi að hafa leyfi til herflutninga? Getur hæstv. forsrh. upplýst okkur um það? Það er búið að segja okkur Íslendingum það svo ýtarlega, að við ættum að vera farnir að víta það nokkurn veginn nú orðið, hverja þýðingu land okkar hefur hernaðarlega séð, m.a. vegna þess, að héðan er hægt að „Hombardera“ Evrópu og mikinn hluta af gamla heiminum. l:g býst víð, að langt sé frá því, að við viljum samþykkja að láta nota okkar flugvöll til slíks, og það hefur komið fram í því, sem hér hefur verið sagt, að slíkt vilja Íslendingar ekki gera. En ef hér er flugvöllur, þar sem Bandaríkin geta í krafti þess mikla liðs, sem þeir hafa þar, raunverulega haft öll völd, þá geta farið þar fram flutningar hergagna, án þess að við ráðum þar nokkru um, og þá geta þeir hvenær sem er breytt slíkri stöð í herstöð. Í þessu liggur það, að þessi samningur er dulbúinn herstöðvasamningur. Það liggur í því, að það er mögulegt að gera hann að herstöðvasamningi hvenær sem aðilar vilja slíka breytingu, og það er það, sem þarf að athuga í þessu sambandi. Það er aðeins undir einu skilyrði, sem við viljum ljá máls á því, að herflutningar yrðu leyfðir yfir land okkar, og það er, ef sameinuðu þjóðirnar álitu, að hernaðarástand væri að skapast. Það er þess vegna undarlegt að krefjast þess af okkur, að við leyfum þetta. Hvað er að því, að Íslendingar sem meðlimir hinna sameinuðu þjóða spyrji að því, hvort Bandaríkin hafi svo gífurlega skuldbindingarsamninga, að þeir geti ekki fullnægt þeim með þeim loftflutningum, sem þeir hafa leyfi til?

Ég skal þá taka fyrir greinarnar hverja fyrir sig.

Um 2. gr. er ekki mikið að segja.

3. gr. er nokkuð undarlega orðuð — ekki bara á íslenzku, heldur líka á ensku, sem virðist vera orðin frummálið hér. Á íslenzku hljóðar þessi gr. svo: „Umferðaréttindi og réttindi til lendingar og nauðsynlegrar viðdvalar skal veita flugförum, öðrum en hervélum, allra þjóða, er fá slík réttindi hjá ríkisstjórn Íslands.“ Hver er hugsanagangurinn á bak við þessa gr., þegar sagt er: “Umferðaréttindi skal veita flugförum“? Hver skal veita þau? Af hverju er verið að setja þetta inn í samninginn? Er það einhver annar en íslenzka stj., sem hefur rétt til að veita þau? Af hverju stendur „skal veita réttindi“? Hvern er verið að skylda? Er verið að skylda amerísku stjórnina sjálfa? Ég skal lesa gr. á ensku: „Transit and technical stop rights at the airport will be accorded to civil aircrafts of all nations which are granted such rights by the Government of Iceland.“ „Will be accorded?“ Hvaða hugsunarháttur liggur á bak við þetta orðalag? Það lítur út fyrir, að veita skuli ákveðin réttindi og samkv. þeim hugsunarhætti, sem á bak við liggur, skuli Ameríkumenn ráða, því að svo framarlega sem gengið er út frá því, að Íslendingar ráði, þá þarf ekki að skuldbinda þá. Ef til vill eru þetta leifar frá fyrri samningi, og væri bezt, að þær leifar féllu burt. Ég býst líka við, að ef hæstv. forsrh. athugar þetta, þá sjái hann meira að segja, að frá okkar sjónarmiði er þetta óheppilegt. Það er svo mikið búið að tala um vorn rétt og að það séu vor lög, sem ráði. Hvers vegna er þá verið að tala um þetta þarna?

Í 4. gr. segir: „Stjórn Bandaríkjanna mun svo fljótt sem auðið er flytja á brott það herlið og sjólið Bandaríkjanna, sem nú er í Reykjavík, og innan 180 daga frá gildistöku samnings þessa mun hún smátt og smátt flytja á brott allt annað herlið og sjólið Bandaríkjanna, sem nú er á Íslandi.“ Já, það er tilkynnt, að þetta muni geta orðið innan 1–2 mánaða. Það stóð líka í samningnum, sem Íslendingar gerðu við Bandaríkin árið 1941, „immediately“, þ.e. „undir eins“ eftir að stríðinu væri lokið. Nú er meira en ár síðan stríðinu var lokið, og enn er herinn ekki farinn, og nú virðist eiga að kaupa hann burtu með samningi, sem gildi a. m. k. til 61/2 árs. Það er ekki nema eðlilegt og nauðsynlegt, að Íslendingar séu tortryggnir, og til þess eru m.a. venjulega hafðir mjög reyndir og færir lögfræðingar með í samningagerðir til að passa upp á allt, sem hægt væri að smjúga í gegnum. Við höfum líka rekið okkur á það, að hægt er að smjúga, fyrst ekki var hægt að treysta stjórn Bandaríkjanna til þess að fara burt samkv. samningnum 1941.

Þá er það 5. gr., sem er aðalgr. þessa samnings. Hæstv. forsrh. sagði frá því og vildi róa okkur með því, að Bandaríkjastjórn mundi þurfa að leggja 80 millj. kr. í flugvöllinn til þess að geta þetta. Ég á bágt með að skilja það, að ef einn stærsti flugvöllur heimsins, Keflavíkurflugvöllurinn, hefur dugað til þess að heyja stærstu styrjöld heimsins, þá sé ekki hægt að láta hann nægja til þess að halda uppi 100 þús. manna herliði í Þýzkalandi, þó að eingöngu sé treyst á samgöngur við Ísland. Hvað er það þá, sem fyrir þeim vakir? Og hvaða hag höfum við Íslendingar af því, að hann sé stækkaður? Það er tekið fram í þessu sambandi, að þetta sé af því, að þeir hafa tekið að sér að hafa á hendi herstjórn og eftirlit í Þýzkalandi, og skuli þeim því heimilt að halda uppi á eigin kostnað þeirri starfsemi, þeim tækjum og því starfsliði, sem nauðsynlegt kann að vera til slíkra afnota. Forsrh. leggur mikla áherzlu á það, að einmitt þetta sé nauðsynlegt til þess að tryggja það, að flugvöllurinn verði ekki notaður sem dulbúnar herstöðvar. Við skulum nú segja, að stríð yrði í Evrópu, milli Ítalíu og Bandaríkjanna eða Þýzkalands og Bandaríkjanna í Þýzkalandi. Hvernig ætlum við að „kontrollera“ það, sem fram fer á Keflavíkurflugvellinum í krafti þessa samnings? Hvernig eigum við að gæta þess, að þetta sé ekki notað í stríði? Ef við höldum því fram, að þetta sé notað til einhvers annars en leyfilegt er, höfum við þá rétt til að segja: „Nú hafið þið brotið þennan samning. Nú hafið þið brugðizt okkar trúnaði?“ Getum við sagt þeim að fara? Nei. Þá getum við, eftir því sem forsrh. segir, lagt málið í dóm, annaðhvort gerðadómsins í Haag eða dómstóls sameinuðu þjóðanna. Og hvað gerist á meðan? Hvernig gengi að fá það gert? Það gæti tekið eitt eða tvö ár. Og hvað gerist á meðan? Það væri gengið út frá því af hálfu Bandaríkjanna, að samningurinn stæði, og hvaða vald hefðum við til þess að láta hann hætta, annað en þetta dómsvald? Það, að mál, sem kynni að verða þarna að ágreiningsatriði, eigi að leggjast fyrir þennan alþjóðadómstól, þýðir ekki það, að Ísland eigi að ráða. Það þýðir, að það yrðu þá aðrir aðilar en Ísland, sem eiga að gera út um þetta. Við afsölum okkur þarna réttindum til annarra aðila en Íslands til að gera út um þetta. — ( Fundarhlé.]

Ég ætla að byrja að ræða um 5. gr. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það kemur skýrt fram í gr., hvað hún á að tákna. Mér sýnist orðalag þessarar gr. vera miðað við það að dylja með því. Gr. byrjar á þessa leið : „Flugförum þeim, sem rekin eru af Bandaríkjastjórn eða á hennar vegum í sambandi við framkvæmd þeirrar skyldu, er Bandaríkin hafa tekizt á hendur, að hafa á hendi herstjórn og eftirlit í Þýzkalandi, skulu áfram heimil afnot af Keflavíkurflugvellinum.“ — Hvað þýðir þetta? Hvaða flugför eru þetta? Það eru hernaðarflugvélar ameríska hersins. Efast nokkur um það? Þetta er vafalaust tilgangurinn með samningnum, og það er engin ástæða til þess að vera að draga fjöður yfir það. Þá heldur gr. svo áfram: „Í þessu skyni skal stjórn Bandaríkjanna heimilt að halda uppi á eigin kostnað, beinlínis eða á sína ábyrgð, þeirri starfsemi, þeim tækjum og því starfsliði, sem nauðsynlegt kann að vera til slíkra afnota. Taka skal sérstakt tillit til sérstöðu slíkra flugfara og áhafna þeirra; hvað snertir tolla, landvistarleyfi og önnur formsatriði. Engin lendingargjöld skal greiða af slíkum flugförum.“ Hvað þýðir þetta, að taka skuli sérstakt tillit til sérstöðu slíkra flugfara og áhafna þeirra, hvað snertir tolla, landvistarleyfi og önnur formsatriði? Þetta þýðir, að taka skuli sérstakt tillit til amerískra herflugvéla á flugvellinum og þær skuli hafa sérstöðu hvað snertir tolla og önnur formsatriði. Hvaða formsatriði eru þetta? Það virðist ekki vera aðalatriðið, hvað tollana snertir. En hváð þýðir þetta þá? Það þýðir það, að Bandaríkin eiga að fá rétt til að lenda herflugvélum á flugvellinum ótakmarkað og líka til að láta þær dvelja þar. Og áhafnir flugvélanna, hermennirnir, eiga að njóta sérstöðu hér á landi hvað snertir tolla, landvistarleyfi og annað slíkt. Hvaða þýðingu mundi t.d. Ísland þá hafa í stríði? Það mundi vera miðstöð hernaðarflugvéla, mundi sem sagt gera þeim mögulegt að bera meira af hergögnum en þær gætu að öðrum kosti. Það er þetta, sem sérstaklega er lögð áherzla á. Og við eigum þess engan kost að fylgjast með þessu. Það væri æskilegt, áður en lengra er haldíð þessum umr., að þetta væri skýrt játað af hálfu þeirra, sem standa með þessum samningi. Þeir eiga við það, að með þessum samningi sé verið að veita amerískum hernaðarflugvélum þessi sérréttindi. Ef einhver vill skýra þetta svo, að hér væri ekki um hernaðarflugvélar að ræða, þá vil ég álíta, að bezt sé að setja það inn í samninginn. Það leikur þá enginn vafi á því, hvað við er átt. En ég býst ekki við, að þeir, sem með þessum samningi eru, ætli að neita því, að hér sé átt við hernaðarflugvélar ameríska hersins. Svo lýsir hæstv. forsrh. yfir því, að Bandaríkin megi engin hergögn né hermenn hafa á flugvellinum. Þetta þýðir, að sprengjuflugvélar megi aldrei standa á flugvellinum. En ef engin sprengjuflugvél má standa á vellinum, hví má þá ekki taka það fram í samningnum? Og ef hermennirnir mega ekki standa við, hví er það þá ekki tekið fram í samningnum, hver þá stjórni því, hvort þeir eru hér nokkra klukkutíma eða nokkra daga? Það er talað um, að Bandaríkin megi engin her gögn hafa á flugvellinum. Nú er það ekkert aðalatriði hjá Bandaríkjamönnum, aðalatriðið er að geta lent með hergögnin til að taka benzín og halda áfram eftir stutta viðdvöl. Hver sprengjuflugvél getur haft upp undir helmingi meiri farm með því móti en ella. Það er þetta, sem verið er að semja um í 5. gr. Getur nokkur hugsað sér, að Bandaríkin þurfi að hafa þennan rétt vegna hersetunnar í Þýzkalandi? Það hefur ekki þurft að beita vopnavaldi við þýzka borgara eftir að sigurinn var unninn yfir Þjóðverjum. Ef uppreisn brytist út í Þýzkalandi á hernámssvæði Bandaríkjanna, þá mundu sameinuðu þjóðirnar bæla slíkt niður. Og þá væri e.t.v. farið fram á, að Íslendingar leyfðu amerískum flugvélum að lenda hér. Það er sýnilegt, að Bandaríkin ætla að nota flugvöllinn í hernaðarskyni. Þess vegna eru það blekkingar að halda því fram, að þessi stöð sé ekki raunverulega dulbúin herstöð. Þetta er miðstöð í herflutningakerfi, sem á að fullnægja Bandaríkjunum, ef til stríðs kemur. Það er langsótt, hvernig skilja eigi orðið herstöð, ef slík flutningamiðstöð hefur enga þýðingu í því tilliti. Og var Ísland ekki einmitt slík herstöð í síðustu styrjöld, og það mikilvægasta herstöð í heimi af sumum talin? Hæstv. forsrh. minntist á, að við gætum litið eftir þessu, við gætum haft þarna 6000 manns, ef Bandaríkin hefðu 600. En ætli það yrði ekki nokkuð dýrt að hafa þarna 10 Íslendinga með hverjum einum Bandaríkjamanni? Og ætli Bandaríkjamönnum þætti þá ekki nokkuð þröngt á vellinum? Ég held, að það þurfi ekki að slá slíku fram.

Þá sagði hæstv. forsrh., að ef Bandaríkin notuðu þennan flugvöll til árásar á aðrar þjóðir, þá gætum við gert aðrar ráðstafanir. Ef Bandaríkin fá þarna lendingarrétt og styrjöld hæfist milli þeirra og annarra þjóða, þá yrði samningurinn rofinn og við gerðum okkar ráðstafanir. Og hverjar yrðu þær? Við gætum krafizt rannsóknar. Og þegar því væri lokið, gætum við kært fyrir gerðardómi. Hvernig voru árásir gerðar í síðasta stríði? Og hvernig er búizt við, að þær verði gerðar í næsta stríði? Árásir í stríðsbyrjun verða með því móti, að flugvélafloti einnar þjóðar ræðst fyrirvaralaust á aðalborgir og hernaðarstöðvar annarrar þjóðar. Þannig er stríðið hafið, og sá, sem hefur þetta forhlaup, hann hefur unnið mikið á í því stríði, sem þannig byrjar. Þegar árásir á aðrar þjóðir væru hafnar, þá er styrjöldin þannig byrjuð, að búið væri að nota Ísland sem mikilvægan stað í þeim átökum. En við gætum sem sagt krafizt rannsóknar og heimtað dóm. Það væri þá orðið lítilmótlegt atriði, sem aðeins hefði sögulega þýðingu seinna meir, en enga praktíska þýðingu. Með því að veita Bandaríkjastjórn þessi sérréttindi er verið að gera henni mögulegt að nota völlinn í skyndi, þegar henni þætti við horfa. Og þetta er vafalaust öllum augljóst og þeim ekki sízt, sem ætla að samþ. þennan samning. Það er ef til vill enn hættulegra að samþ. samning, sem gefur Bandaríkjunum slíka möguleika, eins og horfir í Bandaríkjunum í dag, heldur en hefði verið á tímum Roosevelts sáluga. Það er önnur pólitík, sem rekin er nú. Það er einmitt núna verið að reka burt úr bandarísku stj. þá ráðh., sem vilja halda uppi þeirri stefnu af hálfu Bandaríkjanna, er tryggir það, að friður haldist í heiminum. Og það hættulegasta við þetta er, að ef þessi samningur verður samþ., þá verður það, sem þarna er gert, gert á ábyrgð okkar Íslendinga. Það erum við, sem léðum þennan flugvöll, það erum við, sem áttum að stjórna honum. Og það var á okkar ábyrgð, sem herstjórn Bandaríkjanna gat misnotað þennan flugvöll til þess að ráðast á aðrar þjóðir. Þetta er sú ábyrgð, sem ég fyrir mitt leyti vil ekki, að Alþ. Íslendinga taki á sig. Ef Bandaríkin ætla að gera eitthvað líkt þessu, þá er bezt, að þau hafi fyrir því að lenda flugvélum sínum hér í trássi við okkur og taki okkur með valdi. — Hv. 5. landsk. var að tala um, að það væri ekki hægt að nota völlinn sem herstöð. Hann sagði, að fyrst þyrftu að vera hermenn þar. Það er rétt, en hermenn mundu í fyrsta lagi vera til staðar í flugvélum þeim, sem stj. hefur rétt til að láta lenda hér, og í öðru lagi óvopnaðir menn, sem Bandaríkin hafa ú flugvellinum, sem samkv. reynslu síðasta stríðs geta fengið vopn í hönd á réttu augnabliki án þess að spyrja sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu að því. Slíkt væri hægt að gera á nokkrum klukkutímum, þegar á þarf að halda, og ég býst ekki við, þótt sýslumaðurinn sé voldugur maður og lögfróður, að hann sjái sér fært að hindra það. Í öðru lagi taldi hv. 5. landsk., að vopn þyrftu að vera á staðnum, ef um herstöð væri að ræða. Ég vil spyrja : Hvað er þetta, sem Bandaríkin ætla að flytja? Ætli það sé bara súkkulaði fyrir stúlkurnar í Reykjavík, en ekki bombur? Ég skil ekki, hverslags börn þeir menn eru, sem sjá ekki, hvaða hætta liggur í þessu fyrir litla þjóð, samkv. reynslu síðustu styrjaldar. Og ég skil ekki, hvernig menn geta talað með slíkum sannfæringarkrafti sem l . 5. landsk. gerði áðan og lokað augunum gersamlega fyrir staðreyndum. 5. landsk. tók líka það fram, að það væri víst hvað þennan samning snerti, að allt, sem þyrfti að skýra betur, væri lagaskýringar, sem færu eftir íslenzkum l. Það er rétt, að þegar íslenzkir dómstólar dæma, þá dæma þeir eftir íslenzkum lagaskýringum. En hér er um að ræða samning við hernaðarlegt stórveldi. Og eftir hverju verður dæmt, þegar það telur okkur hafa rofið samninginn? Það verður dæmt af sérstökum dómstóli, sem komið hefur verið sér saman um að alþjóðalögum, og það verður dæmt eftir þeirra skýringum. Þess vegna er það bezt, að inn í samninginn séu settar hinar mörgu skýringar, sem hv. 5. landsk. og hæstv. forsrh. hafa komið með hér í sambandi við samninginn og margar eru mjög hagstæðar fyrir okkur. Ef slíkt væri gert, þá þyrftum við ekki heldur að eiga það undir náð fámenns dómstóls, hvernig á þetta verður litið. — Ég held þess vegna, að samkv. 5. gr. þessa samnings þá sé Keflavíkurflugvöllurinn í fyrsta lagi miðstöð til lendingar fyrir herflugvélar. Bandaríkjahersins, og áhafnir slíkra flugfara koma til með að hafa sér stöðu um tolla, landvistarleyfi og önnur formsatriði. Sá hópur Bandaríkjamanna, 600 menn eða fleiri, eru ekkert annað en mögulegt herlið fyrir Bandaríkin á því augnabliki, sem þeir þurfa á því að halda. Getum við samkv. reynslu Norðmanna litið á það öðruvísi?

Ég vil þá líta á 6. gr. samningsins, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í sambandi við rekstur flugvallarins munu Bandaríkin, að svo miklu leyti sem kringumstæður leyfa, þjálfa íslenzka starfsmenn í tækni flugvallarekstrar, svo að Ísland geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins, að svo miklu leyti sem frekast er unnt.“ Lítið á orðalagið: „munu Bandaríkin, eftir því sem kringumstæður leyfa, þjálfa íslenzka starfsmenn í tækni flugvallarekstrar“ o.s.frv. Hvernig er þessu varið? Fylgjendur samningsins túlka hann þannig, að Íslendingar ráði bandaríska sérfræðinga í sína þjónustu, Íslendingar hafi yfirstjórn flugvallarins og fyrirskipi því starfsmönnum, hvað þeir eigi að gera. Við þurfum ekki að spyrja aðra þjóð, hvort við megum segja manni, sem vinnur hjá okkur, að hann eigi að kenna öðrum mönnum. Hann er í okkar þjónustu, og hann á að hlýða okkur. Hvers vegna þurfa Bandaríkin að lofa því að kenna Íslendingum „að svo miklu leyti sem kringumstæður leyfa“? Eru það ekki okkar menn, sem stjórna á flugvellinum? Þetta þyrfti ekki að setja í samninginn, ef flugvöllurinn væri undir algerri íslenzkri stjórn og hinir bandarísku sérfræðingar væru í þjónustu Íslands. Þetta virðist því benda til þess, að Bandaríkin eigi að hafa yfirráðin á flugvellinum. Þessir menn eiga að hlýða Bandaríkjastjórn. Hún á að taka á sig skuldbindingar varðandi það, hvað þessir menn eiga að gera. Og hverjir eru það svo, sem eiga að dæma um þessar kringumstæður? Ætli það séu ekki þeir, sem ráða kringumstæðunum? Það erum við, sem eigum að segja við Bandaríkin: Við viljum fá svona marga sérfræðinga í þessari grein og svona marga í hinni og þeir eiga að kenna þetta mörgum Íslendingum og svona fljótt. Þessar „kringumstæður“ eru það, sem við eigum að á kveða. Síðar í samningnum stendur : ... „svo að Ísland geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins að svo miklu leyti sem frekast er unnt.“ — Þetta er með því teygjanlegra, sem ég hef séð í samningum. Hví stendur ekki, að þetta skuli vera eftir því, sem íslenzka ríkisstj. ákveður? Ef það er svo sjálfsagt, að Íslendingar ráði yfir vellinum, er þá ekki rétt að gera það, sem ríkisstj. íslenzka telur nauðsynlegt? — Í 7. gr. er sagt, að stjórnir Bandaríkjanna og Íslands skuli í samráði setja reglugerðir um rekstur, öryggi og önnur mál, er varða afnot allra flugfara af flugvellinum. Eru það ekki Íslendingar einir, sem eiga að semja slíka reglugerð? Og hvað mundi það þýða, ef Bandaríkin gengju hart fram? Hvað mundum við gera, ef ekki tækist samkomulag? Svo er rétt að gera sér það ljóst í sambandi við 9. gr., að óhugsanlegt er ekki, að til ýmissa árekstra og óhappa kunni að draga þar, sem dvelja 600 erlendir menn og við skulum segja 100 íslenzkir. Þessir menn eru með allt annan hugsunarhátt. Þeir sitja þarna samkv. sérstökum samningi, en ekki sem okkar starfsmenn. Það er nokkur munur á því, hvort íslenzka ríkisstj. ræður ákveðna útlendinga í sína þjónustu eða hvort hún gerir sérstakan samning um það, að slíkir menn skuli meira eða minna ráðnir af stjórn stórveldis til að stjórna þeim málum, sem viðkomandi stórveldi hefur í hyggju að framkvæma.

Það gekk yfirleitt vel með hersetu Bandaríkjamanna hér á landi, og ég býst við, að við höfum gert okkar til þess. Þó drap herinn hér á fyrsta ári þrjá menn, auk ýmislegra annarra árekstra, og munu sumir þeirra enn liggja óbættir hjá garði. Það er alltaf hugsanlegt, er fjölmennur hópur erlendra manna er valinn með tilliti til herflutninga, að til árekstra geti komið, og við viljum forðast þá. Togstreita yrði um rétt og vald beggja, okkar og segjum 600 manna í okkar þjónustu, sem ætíð hefðu tilhneigingu til að taka afstöðu með Bandaríkjunum. Eitt af því, sem gefur stórveldum jafnan tilefni til íhlutunar, eru þess háttar árekstrar. Væru t.d. drepnir menn fyrir Bandaríkjunum í þessu liði, gæti hið stóra herveldi talið óhjákvæmilegt að setja á land her til verndar borgurum sínum, eins og það mundi verða kallað. Það skapar hættu að hafa mikið af borgurum erlends ríkis innan sinna vébanda. Það á að forðast. Þeir líta á sig sem sérstaka „grúppu“. Allt þetta er rétt að hafa í huga, þegar rætt er um slíkan samning. — Í 9. gr. stendur: „Eigi skal leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem inn er flutt til afnota fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmenn hennar samkvæmt þessum samningi eða til afnota fyrir starfslið það, sem dvelur á Íslandi vegna starfa, er leiðir af framkvæmd samnings þessa.“ Með þessu er verið að veita ákveðnum borgurum framandi ríkis skattfrelsi og tollfrelsi. Ég sé ekkí, að hægt sé að gera þetta með þál. Hér eru til l. um skatta og tolla framandi borgara, og hingað til hefur ekkí verið hægt að afnema l. hér á Alþ. með þál. Ég held því, að auk þess sem málið hefur fengíð slæman undirbúning — Og án slíks getur þessi samningur ekki öðlazt gildi. Þessi samningur, eins og hann er lagður fyrir, er a.m.k. að því er þetta snertir líka formlega séð brot á íslenzkum l., og þessi þáltill. getur þess vegna ekki öðlazt gildi fyrr en þá að búið væri að samþ. þetta með l. hér á Alþ.

Þá er það viðvíkjandi sjálfu efnisinnihaldinu í þessu, tollfrelsinu. Mér þætti gaman að heyra, hvernig þeim mikla og volduga sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu hefur gengið fram þessu að hindra það, að nokkur svartur markaður eigi sér stað á Keflavíkurflugvellinum, og hve vel hann treystir sér til að koma í veg fyrir, að svo verði, ef þessi tollfrelsisákvæði verða lögleidd hér á Íslandi. Ég er hræddur um, að það mundi verða nokkuð mikið um það fyrirbrigði. Það er farið að tíðkast nokkuð nú þegar.

Þá vil ég einnig vekja eftirtekt á því, að þeir íslenzkir starfsmenn, sem þarna mundu vinna í þjónustu ríkisins, mundu fyrst vera sem almennir verkamenn og heyra undir íslenzka lögreglu, og það vita allir, hvers konar rétt íslenzkir verkamenn hafa í sambandi við verkföll og slíkt. Það ætti að ganga út frá, að á flugvelli undir íslenzkri stjórn gildi íslenzk l. og réttur íslenzkra verklýðsfélaga, m.a. til verkfalla. En hvað haldið þið þá, að Bandaríkjastjórn mundi segja, ef samningur þessi um samstarf væri í gildi? Það eru ekki fáir árekstrar, sem eru mögulegir, ef binda á með milliríkjasamningum starfsemi flugvallar, sem er undir íslenzkri yfirstjórn, án þess að ganga á þau réttindi, sem viðkomandi stórveldi ætlar sér að hafa, eins og túlkaðir eru hervaldasamningar. Og ég er hræddur um, að ef málaferli fara fyrir alþjóðadómstól út af rekstri flugvallarins og skarpt væri haldið á íslenzkum málstað, þá yrðu slík mál mörg fyrir alþjóðadómstólnum og öllum rekstri flugvallarins haldið áfram af Bandaríkjunum á meðan. Einmitt af því, hvað við erum lítil þjóð, verðum við aðeins a ð treysta á, að okkar skýlausu samningsréttindi með úrslitavaldið hjá okkur í öllum málum geti tryggt okkur í þessu máli, en engin skírskotun til neins gerðardóms. Þegar Gamli sáttmáli var gerður, sem löngum er vitnað í, fylgdi það ákvæði, að hann skyldi gilda svo lengi sem konungur héldi trúnað við okkur. Þeir voru að vísu blekktir,, okkar forfeður, en þeir héldu þó því valdi að úrskurða, hvenær trúnaðurinn var rofinn. Og slíkt úrskurðarvald þurfa Íslendingar að hafa, hvaða samning sem þeir gera. Og þessi samningur, ef svo illa skyldi til takast, að hann verði samþ. hér á Alþ., er hálfu verri en ella, ef ekkí er frá þessu gengið þannig, að það séu Íslendingar einir, sem hafa þetta vald, enda er þeirra vald yfir vellínum ekki fullkomið án slíks.

Þá er annað stærsta atriðið, en það er 12. gr., uppsagnarfresturinn. Hæstv. forsrh. hefur lýst yfir, að hann og flokkur hans hafi viljað fá uppsagnarfrestinn eitt ár. Er enginn efi, að það er vilji íslenzku þjóðarinnar. Hæstv. forsrh. sagði: „Ég er búinn að gera allt, sem ég get, til þess að fá þetta ákvæði inn: Ég efast ekki um, að vald hans er mikið, og líka gagnvart Bandaríkjunum. En Alþ. og íslenzka þjóðin hafa vonandi meira vald en hann. Hæstv. forsrh. átti eftir að gera eitt, sem hann gat gert, — að segja við Bandaríkin: Ég neita að semja nema upp á þessar spýtur. Ég legg ekki samningsuppkastið fyrir Alþ. Íslendinga nema ákveðinn sé eins árs uppsagnarfrestur. — Hví gerði hann það ekki? Alþingi Íslendinga hefur vald til að gera þetta. Alþingi Íslendinga getur sagt: Ég samþ. ekki þennan samning nema með ákvæði um eins árs uppsagnarfrest. — Og ef hæstv. forsrh. hefur gert allt, sem hann gat í þessu efni, þá á ég bágt með að skilja, að hann hafi á móti því, að Alþ. noti þetta vald, sem það hefur til þess að gera eins árs uppsagnarfrest að skilyrði, eins og forsrh. óskaði eftir. Og eins og hv. þm. Str. minntist á í ræðu sinni, ætti stjórn Bandaríkjanna ekki að þurfa að óttast, að slíkum samningi væri sagt upp af Íslendinga hálfu, ef engin óánægja ætti sér stað út af misnotkun. Ég held þess vegna, að ef Alþ. Íslendinga ættar að gera svona samning, eigi að setja svona ákvæði þar, a.m.k. að segja þetta við Bandaríkin: Alþ. hefur valdið, og ábyrgðin á því, sem gert er, verður aldrei tekin af herðum þeirra þm., sem taka hana á sig. Í dag erum það við, sem skýrum þennan samning og setjum í hann ákvæði sem skilyrði fyrir samþ. hans, ef á að samþ. hann. Við höfum þetta vald nú, en ekki eftir að búið er að gera samninginn. Þá er það of seint fyrir þá menn, sem vilja tryggja rétt Íslendinga, ekki síður en með Gamla sáttmála, og fannst okkur það kúgunarsamningur.

Svo að síðustu um þá framtíð, sem þessi samningur mundi skapa, ef hann yrði samþ. Minn ótti er sá, að hann mundi verða sá litli fingur, sem Bandaríkin smeygja í reipið og muni nota til að auka vald sitt og áhrif. Og í hvert skipti, sem okkur Íslendingum þætti of mikið að gert, þá yrði sagt : Hvað er þetta? Eruð þið ekki vinir Bandaríkjanna? Ætlið þið að sýna ykkur í óvináttu við Bandaríkin? Og það yrði svo notað sem rök fyrir því, að við mættum ekki standa á því, sem ótvírætt er okkar réttur. Ég veit, að stjórn Bandaríkjanna hefur marga möguleika til að knýja fram það, sem hún vill. Ég veit líka, að þar er tilhneiging til þess að beita því valdi, ef þeim mönnum finnst við nota frelsi okkar á þann hátt, sem þeim ekki líkar. Það er ekki langt síðan — það var í síðasta mánuði — að það átti að neita Íslendingum um þau hráefni, sem þeir þurfa til smjörlíkisgerðar frá Bandaríkjunum, vegna þess að þeir hafa leyft sér aðra eins ósvinnu og að selja nokkuð af síldarolíunni til landa, sem eru utan yfirráðasvæða hringanna. Það átti að „boycotta“ þá til þess að refsa þeim og fá þá til að afsala sér verzlunarfrelsi. Það er engum efa bundið, að voldugt ríki og auðugt hefur mörg tækifæri til þess að sýna okkur í tvo heimana. En því betur stöndum við þó að vígi sem við stöndum fastar saman um þau réttindi, sem okkur hafa áskotnazt, og hindrum, að nokkuð af þeim sé látið burt. Hver hefur orðið neikvæða afleiðingin af dvöl Bandaríkjahers hér? Sú, að þeir hafa eignazt hér embættismenn, sem hafa, þegar þeir fóru fram á herstöðvar, unnið sleitulaust að því, að þær yrðu veittar. Hver verður afleiðingin af svona samningi, ef hann gildir í 61/2 ár, þegar þróunin ef til vill gerist hraðar en nokkru sinni fyrr? Hver verður afleiðingin af 600–1000 manna dvöl í 61/2 ár, án þess að við getum sagt þeirri víst upp, afleiðingin af árekstrum og öðru slíku? Við skulum aðgæta, hvað er að gerast í dag. Við höfum möguleikana nú að segja stopp við þessu. Eða í öðru lagi, ef meiri hl. Alþ. ekki kýs það, þá að búa svo um hnúta, að við einir ráðum. Ef við glötum því tækifæri nú, getum við ekki endurheimt það í næstu 61/2 ár og vitum ekki, hvernig kann að vera þá um hnúta búið hér heima.

Þegar herverndarsamningurinn var gerður milli Íslands og Bandaríkjanna, var ég staddur í Bretlandi og las í brezkum blöðum um þau bréf, sem fram fóru milli Roosevelts og Hermanns Jónassonar. Var þetta mál á fremstu síðu í öllum heimsblöðum. „Times“, stórblaðið enska, skrifaði leiðara, þar sem minnzt var á það, að nú hættu Englendingar að ráða á Íslandi í krafti hervalds síns og Bandaríkin tækju við. Endaði greinin með því, að Bandaríkin mundu fá að reyna, að Íslendingar væru ógurlega viðkvæmir í öllum málum, er snerta frelsi þeirra. Og það lá svo að segja í greinarkorninu, að þau mundu fá sig fullsödd að eiga við Íslendinga, svo þrályndir mundu þeir vera, „stubborn“ var orðið, sem notað var. Það hefur lengi farið þessi hróður af Íslendingum, og það svo mjög; eins og hv. þm. kannast víð, að það þótti ekki fært að kaupa Ísland, þegar Englandskonungi var boðið það til kaups, vegna þess hve íslenzk alþýða væri óþæg og yndi illa yfirráðum annarra. Þetta virðist reynslan hafa verið enn sem komið er. Bandaríkin hafa líklega furðað sig á, að Íslendingar skyldu ekki vilja ganga inn á herstöðvasamninginn, og það sýnir, hve lítið þeir þekkja Íslendinga, að þeir skyldu fara fram á slíkt. Það er undir okkur komið, sem sitjum á þingi, hvort við höldum áfram þessum metnaði þjóðar okkar, að sjá til þess að ljá engan fangstað á okkar grund. Við höfum valdið til þess núna, og við eigum að nota það. Og ef við treystum okkur ekki til að nota það sjálfir, þá eigum við að gefa þjóðinni möguleika til að segja já eða nei. Ef við treystum okkur ekki til að hagnýta það vald, sem þjóðin hefur fengið okkur í krafti þeirrar yfirlýsingar, sem við gáfum fyrir nokkrum árum, þá eigum við að láta þjóðina dæma aftur. Þeir, sem ekki þora að leggja þetta mál undir þjóðaratkvæðagreiðslu, þeir óttast þá hennar dóm. Hæstv. forsrh. skírskotaði áðan til vilja þjóðarinnar og kvaðst vera að gera það, sem meiri hluti þjóðarinnar vildi. Þá er rétt, að þessi samningur gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu til úrskurðar um þetta. Þess vegna munum við bera fram undir meðferð þessa. máls till. um það, — ef sýnt þykir, að Alþ. muni ekki bera gæfu til að rækja þá skyldu gagnvart þjóðinni að fella þennan samning, — að samningurinn verði látinn ganga til þjóðaratkvgr., svo að þjóðin fái tækifæri til að segja álit sitt.