21.09.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég lagði fram í dag nokkrar fyrirspurnir til lögfróðra manna um undirbúning samningsins.

Hv. þm. Snæf. svaraði mér engu. Síðan sá ég, að hv. 10. landsk. var á mælendaskrá á undan mér. Hann er lögfræðingur og bjóst ég við, að hann sem fyrrv. prófessor í lögum og specialisti í samningagerð frá 1941, mundi svara einhverju. Eru það samtök, að þingmenn Sjálfstfl. svara ekki? Er það hnefi Sjálfstfl. sem ræður? Hvað veldur, að hv. þm. stökkva frá fullyrðingum sínum? Ég spurði um flugvélar hersins, sem lenda hér fullar af vopnum. Ég vona og veit, að einhver hv. þm. svari þessu. Hvernig stendur á þessu? Er þetta herverndarsamningur að nýju? Skýrið þetta, hv. sjálfstæðismenn. Þar er talað um samninga, sem Bandaríkin hafa gert við önnur ríki. Af hverju liggur slíkt ekki fyrir? Hæstv. forsrh. hefur talað hér um samninga Bandaríkjanna við ýmis ríki. Hvers vegna megum við ekki stúdera þetta rækilega, eins og inngöngu okkar í sameinuðu þjóðirnar?

Þá er minnzt á tortryggni hjá okkur sósíalistum. Það þykir sjálfsagt, þegar menn gera samninga, að gera ráð fyrir því versta, því að það góða skaðar ekki. Hvað er nú um þá hlið málsins, að hætta sé að sýna almenna tortryggni í sambandi við samninginn, segja, að við séum ófróðir um stórpólitík þeirra stóru?

Í samningnum er farið í kringum flugför, sem rekin eru á þennan veg. Af hverju? Er það vegna, þess, að þm. sjá, að þá eru þeir horfnir frá því, að þetta gæti ekki orðið herstöð? Það er hart, að forsvarsmenn samningsins þori að segja, að flutningur hernauðsynja í sambandi við hernámsskyldu Bandaríkjanna í Þýzkalandi sé aðalatriðið og að slíkar flugáhafnir skuli hafa sérstöðu. Hv. 5. landsk. sagði, að ef í samningnum væri um að ræða her eða hergögn, væri hann óhæfur. Hann hefur ekki svarað. Ef til vill eru aðrar skýringar u málinu. — Í dagblaðinu „Vísi“ stendur í dag meðal annars í leiðara: „Mikið öryggi fyrir þjóðina felst í samningnum, einkum meðan horfur eru ískyggilegar í alþjóðamálum og komið getur til styrjaldar hvenær sem er, vegna tilefna, sent gefast daglega:

Einn af helztu stjórnmálamönnum heimsins, Henry Wallace, sagði í gær, að ef utanríkismálastefna Bandaríkjanna héldi þannig áfram, væri siðmenningu og tilveru mannkynsins hætta búin. Þetta var enginn marxisti. Þetta var fyrrv. varaforseti og verzlunarmálaráðh. Bandaríkjanna og hefði verið forseti í dag, ef ósk Roosevelts hefði náð fram að ganga. Höfum við nú, smáþjóð á Íslandi, er við ræðum um rétt Bandaríkjanna, höfum við ekki ástæðu til að taka tillit til aðvarana? Er hægt að segja, að það sé tortryggni af okkar hálfu sérstaklega í garð Bandaríkjanna, þó að við tökum tillit til þess, að sjálfur fyrrv. varaforseti Bandaríkjanna skuli líta svo ískyggilega á sjálfa utanríkisstefnu þeirra, að hann telji, ef illa takist til, að af henni geti leitt tortímingu siðmenningarinnar og jafnvel alls mannkyns. Hann er ekki vanur að nota jafnstór orð að ástæðulausu. Og þetta er maðurinn, sem almennt er talið, að tala muni nú líkast því í Bandaríkjunum og Roosevelt mundi hafa gert, ef hann hefði verið á lífi. Ég held því, að það sé óverðskuldað að bera fram hér, að það væri mælt af óvináttu til þessarar miklu þjóðar í vestri, þótt við vildum komast hjá að gera samninga við þá, sem hafa forustu um þá utanríkismálastefnu, sem Wallace er að deila á. Mér sýnist því rétt að ræða ýtarlega þau rök, sem fram eru flutt í þessu máli, svo að fram komi það, sem mælir með og móti. Ég kann ekki við, að þeir hv. þm., sem með þessum samningi standa, grípi til þagnarinnar og flokksagans einvörðungu, það er a.m.k. mikill ábyrgðarhluti, þegar verið er að útkljá slíkt mál. Svo er spursmálið fyrir okkur, fyrir utan allt, sem áður hefur verið rætt, hvaða hættu samþykkt samningsins skapar jafnvel fyrir okkar eigin tilveru, er önnur þjóð er búin að fá aðstöðu til að fá hér geymt, þótt ekki væri nema daglangt, er henni hentaði bezt, flugvélar hlaðnar hergögnum og hermönnum. Þá skapaðist hér áhætta vegna annarra þjóða, er kynnu að lenda í stríði við Bandaríkin. Við verðum að horfast í augu við þessa hættu. Hingað til höfum við aðeins eygt einn möguleika til öryggis, að hér væru ekki „stasjoneraðar“ neinar herflutningaflugvélar. Í sumar fannst mér við vera sammála um að komast hjá þessu. Hv. þm. virðast vera að hverfa frá þeirri stefnu, og í bættu er þá allt, sem við ætluðum að vinna með öllum þeim varnöglum, er við slógum, er við gengum í bandalag sameinuðu þjóðanna, með bréfaskriftum og öðru.

Hv. þm. Snæf. talaði um það í dag í ræðu sinni, að varasamt væri að sleppa því, sem við gætum hreppt með þessum samningi, þótt við yrðum að taka því að leigja Keflavíkurflugvöllinn til 61/2 árs a.m.k. Þessi röksemd hefur jafnan á síðustu öld verið flutt fram af hálfu þeirra manna, sem hafa viljað slaka til í sjálfstæðisbaráttunni og sætta sig við það, sem að þeim var rétt í það og það sinnið, en fórna réttindum þjóðarinnar og kröfum hennar um alger yfirráð yfir landi sínu. Þetta hafa verið rök allra þeirra, sem staðið hafa með öllum uppköstum í íslenzkri sjálfstæðisbaráttu. En íslenzka þjóðin hefur jafnan borið gæfu til að hafna þess háttar tilboðum. Og mér finnst hv. þm. ekki bera Thoroddsens nafnið með rentu, er hann ljær slíku uppkasti fylgi sitt og gerist forsvarsmaður þess. En þjóðin hefur alltaf hafnað slíkum uppköstum, og hún mundi enn þá gera það, ef henni gæfist færi á því.