21.09.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég ætla að gera hér grein fyrir afstöðu minni í þessu máli með fáum orðum, og mun ég ekki fara út í hin einstöku ágreiningsatriði, sem komið hafa hér fram, en tala um málið almennt.

Ég undir strika þau orð hv. 3. landsk. þm., að í þessari þáltill. er ekki um að ræða neinar herstöðvar né skerðingar á landsréttindum, og á þeim grundvelli greiði ég samningsuppkastinu atkv. og vona, að hv. 3. landsk. sjái sér fært að greiða atkv. með flokki sínum á þeim grundvelli.

Við Íslendingar höfum verið kvaldir undir erlendri kúgun árum og öldum saman. Það er því ekki nema eðlilegt, að Íslendingar hræðist að semja við sér sterkari þjóðir. Við Íslendingar höfum dýrkeypta reynslu af kúgurum um aldir, og er því ekki að furða, þótt okkur sé oft brugðið um tortryggni inn og út á við. Annað mál er það, að frá því að einvaldskonungar réðu fyrir Danmörku, hafa tvö öfl komið upp í heiminum, lýðræðis- og kúgunarstefna. Í samskiptum við aðrar þjóðir verða menn að gera sér það ljóst, hvaða öfl það eru, sem við höfum skipti við. Nýlokið er ægilegustu styrjöld, sem háð hefur verið, og hvernig sem menn líta á ýmsa kúgun, sem auðvaldið beitir gegn smáþjóðum, þá verður því vart neitað, að Bandaríkin unnu á móti kúgunaröflunum í styrjöldinni. Fáir Íslendingar munu neita þessu.

Ég lái ekki mönnum, þótt þeim finnist það tryggara að semja við lýðræðisríki en einræðisríki, sem brjóta öll mannréttindi. Og frá sjónarmiði hv. 3. landsk. hygg ég, að samningurinn við Bandaríkin sé hagkvæmur fyrir þjóð okkar. Þrátt fyrir þá gömlu tortryggni, sem við höfum alið öldum saman, megum við ekki gleyma því að taka tillit til nýrra lífsviðhorfa í heiminum. Ég hef lært Gamla sáttmála og verið kunnugt um efni hans frá þeim tíma, er ég varð læs, og ég ber mikla virðingu fyrir Einari Þveræing. Ég hef ætíð verið ákveðinn skilnaðarmaður, og ég veit ekki til þess, að nokkur maður hafi leyft sér að efa, að ég hafi ávallt staðið með rétti Íslands. Í þessu ljósi uppeldis Gamla sáttmála, sem ég hef lært af skilnaðarmönnum, og þjóðernistilfinningu, tel ég rétt að samþykkja samningsuppkastið.

Ég er þess fullviss, að með samþykkt samningsins séu óskir þorra þjóðarinnar uppfylltar. Herlið það, sem hér hefur dvalizt, hverfur úr landi, og brottflutningur sjóhers Bandaríkjanna mun hefjast á mánudaginn, samkv. fréttum, sem borizt hafa í kvöld. Við Íslendingar fáum full umráð yfir landi okkar og flugvöllunum. Enginn blettur verður á landinu okkar, sem okkur Íslendingum verður bannað að koma á. Ég hef verið látinn bíða í 20 mínútur við girðingarhlið suður við Keflavíkurflugvöllinn, og eins fyrir það, þótt ferð okkar, sem þarna vorum, væri lögleg. Ef þessi samningur verður samþykktur, þá verða álíkar tálmanir firra. Íslenzkir verðir verða þá við flugvöllinn, ef þurfa þykir, í stað erlendra. Ég tek þetta einfalda dæmi til þess að sýna aðstöðumuninn, og ég er hissa á þeim mönnum, sem kjósa heldur það ástand, sem nú ríkir, að Íslendingum sé bönnum umferð um stór svæði í landi þeirra. Mér finnst það skipta nokkuð í tvö horn skeleggra ræðumanna, ef þeir æskja þess, að hér dveljist hópar manna í „uniformi“.

Margt hefur komið fram í umr. hér, t.d., að það vantaði í samninginn ákvæði um meðferð ágreinings, er upp kynni að koma, og þó er upplýst, að Bandaríkin og Ísland eru bundin ákvæðum frá 1930 um, að milliríkjaágreiningur skuli leggjast fyrir alþjóðadómstólinn í Haag. Í öðru lagi erum við Íslendingar löglegir meðlimir í bandalagi hinna sameinuðu þjóða, þar sem skýrt er ákveðið, hvernig farið er með ágreiningsmál milli þjóða í bandalaginu. Þetta er eitt dæmi af mörgum. Annað dæmi, sem ég vil nefna aðeins, er, — og það kom fram hjá ræðumanni —, að ef hernaðarflugvélar kæmu við á flugvellinum, þá væri hann í raun og veru orðinn herstöð. Samkv. þessu hafa Bandaríkjamenn, Bretar og Norðmenn og ég veit ekki hvað margar þjóðir aðrar herstöðvar á Brommaflugvellinum hjá Stokkhólmi, því að þar eru iðulega hernaðarflugvélar. En um viðkomu hernaðarflugvéla held ég, að gildi það sama og um herskip og hernaðartæki önnur, bæði herskip og herflugvélar geta átt viðkomu í hlutlausu landi og haft þar einhverja viðdvöl og farið svo eftir ákveðinn tíma án þess að um nokkrar herstöðvar sé að ræða.

Ég tel, að sú reynsla, sem við Íslendingar höfum síðan ófriðurinn hófst af samskiptum við Bandaríkin, réttlæti það, að menn geri sér fulla von um, að þau haldi aðra samninga við Íslendinga. Ég tel, að sú reynsla, sem við Íslendingar höfum yfirleitt af lýðræðisríkjunum, styðji það, að við höfum fullt leyfi til þess að gera okkur vonir um það og telja alveg víst, að svo verði.

Það var einhver, sem sagði það áðan, að verið væri að telja fram til stuðnings þessum samningi, að við yrðum að játa öllu, sem Bandaríkin færu fram á, annars værum við ekki vinir Bandaríkjanna. Ég tel, að þessi orð séu á miklum misskilningi byggð. Með þessum samningi látum við ekki nema mjög lítinn hluta af því, sem Bandaríkin fóru fram á. Við erum búnir að neita því, sem þau fóru fram á fyrst og fremst og töldu sér mest virði, við erum búnir að neita því, að þau fái að hafa her hér og herstöðvar. Með því að játa því, sem nú er farið fram á, mundum við þess vegna ekki gera vilja Bandaríkjanna nema að mjög litlu leyti, en ekki virðist þá annað sýnt, ef því væri einnig neitað, en að það væri af beinni óvináttu við Bandaríkin.

Það, sem við getum gert sem frjáls og sjálfstæð þjóð, og það, sem við getum gert með fullri sjálfsvirðingu, er að gera samninga af frjálsum vilja við aðra miklu stærri þjóð, og það er vitanlega ekki nein nauðung fyrir okkur, og ég fyrir mitt leyti er reiðubúinn að greiða atkv. með þessum samningi, ekki af því, að um nauðungarsamning sé að ræða, heldur af því, að ég tel, að þarna sé á ferðinni samningur, sem sé okkur að öllu leyti samboðinn sem frjálsri og fullvalda þjóð. Ég tel, að með samningi þessum sé okkur tryggt fullt vald yfir þeim stöðvum, sem við höfum nú ekkert vald yfir í okkar landi. Það hefur verið minnzt á, að það hefði verið rétt að leggja þetta mál fyrir þjóðaratkvgr., en ég fyrir mitt leyti tel það ekki svo stórt mál, að nein ástæða sé til slíks. Ef hér hefði verið að ræða um herstöðvar eða eitthvað í þá átt, þá hefði verið ástæða til að leggja það undir úrskurð þjóðarinnar. En þegar hér er ekki um neitt annað að ræða en að fá fullnægingu á kröfum mikils þorra þjóðarinnar, þá fullnægingu, að herinn fari burt úr landinu, að við fáum full yfirráð yfir flugvelli okkar og fáum fullkomið dómsvald og löggjafarvald yfir þeim mönnum, sem Bandaríkin ætla að hafa í landinu, þá er ekki um svo mikið stórmál að ræða, að ástæða sé til að leggja það fyrir þjóðaratkvgr.

Það hefur verið og verður sjálfsagt þyrlað upp ákaflega miklu í kringum þennan samning. Hann verður togaður og teygður á alla enda og kannske reynt að telja þjóðinni trú um það, að þeir, sem að þessum samningi standa, séu hreinir landráðamenn, sem séu nú að selja landið Ameríkumönnum. Ég hef þá trú á dómgreind þorra íslenzku þjóðarinnar, að þegar hún veit alla málavöxtu, verði hún þeim mönnum þakklát, sem að þessum samningi hafa staðið. (KTh: Það er bezt að lofa henni að dæma um það sjálfri). Hún mun dæma um það, þegar hún heyrir alla málavöxtu. (KTh: Hví ekki að lofa henni að greiða atkv. um það þá?). Af þeim ástæðum, sem ég hef talað um áður. (KTh: Að þetta sé smámál). Já, að það sé ekki stórmál og ekki um neitt réttindaafsal að ræða eða nokkuð í þá átt, heldur sé beinlínis verið að gera að vilja meginþorra þjóðarinnar. (KTh: Þá á að lofa henni að undirstrika það með þjóðaratkvgr. og leggja þannig blessun sína yfir það).