05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Forseti (JPálm):

Varðandi fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. (EOl) vil ég taka fram, að reglur um útvarp frá Alþ. voru fyrst settar af forsetum í samráði við þingflokka á sumarþinginu 1931 og teknar inn í þingskapalögin, nr. 50 10. apríl 1936. 54. gr. þingskapa hljóðar svo:

„Þegar útvarpað er umræðum um önnur mál en þau, er í 51. og 53. gr. segir, fær hver þingflokkur til umráða þrjá stundarfjórðunga, er skiptast í tvær umferðir.

Takmarka má fyrir fram umræðutíma um þingmál, önnur en þau, er um ræðir í 51. og 53. gr., þótt umræðu sé útvarpað, allt niður í 3 klst., enda styttir þá forseti umferðir að sama skapi.“

Þetta ákvæði hefur alltaf síðan verið framkvæmt þannig, að við þá umr. um mál, sem útvarpað er, hafa ekki aðrar umr. farið fram, og hefur aldrei verið undan kvartað. Þetta tekur þó eigi til eldhúsumr. eða 1. umr. fjárl., enda eru sérákvæði um þær í 51. og 53. gr. Þegar l. voru sett, voru 4 þingflokkar á Alþ. og einn eða jafnvel tveir utanflokksmenn, og gátu þá umr. samkv. 54. gr. staðið í 3 klukkustundir og 23 mínútur, en þó er heimilt samkv. gr. að stytta umræður niður í 3 klukkustundir. Nú er ákveðið, að þessi umr. standi í 3 klukkustundir og 23 mínútur, og verður henni slitið að þeim tíma liðnum, eins og venja er til þegar umr. er útvarpað.