05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Bjarni Benediktsson:

Í viðræðum þeim, sem hæstv. forsrh. hefur undanfarið átt við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um niðurfelling og fullnægingu herverndarsáttmálans frá 1941, hefur því verið haldið fram af hálfu Bandaríkjanna, að þeim væri óhjákvæmileg nauðsyn að halda afnotum Keflavíkurflugvallarins vegna skyldu þeirra til herstjórnar og eftirlits í Þýzkalandi. Ef slík afnot féllu niður, hefur af hálfu Bandaríkjanna verið fullyrt, að fjölda mannslífa og miklum verðmætum væri stefnt í voða á flugleiðinni yfir norðanvert Atlantshaf. Stjórn Bandaríkjanna hefur einmitt bent á þessa staðreynd sem ástæðuna fyrir því, að hún hefur enn eigi flutt allan herafla sinn brott af landi héðan. Menn hafa hér á landi brugðizt nokkuð misjafnlega við þessari nauðsyn Bandaríkjanna eða fullyrðingunni um hana. Sumir hafa sagt, að hún væri yfirvarp eitt, tylliástæða til að skýla ofbeldishug Bandaríkjanna gegn Íslandi og Norðurálfuríkjunum yfirleitt. Engin rök hafa þó verið færð fyrir þessum ásökunum í garð Bandaríkjanna. Þvert á móti hafa komi2S fram gögn um það, að aðrar þjóðir, sem taka þátt í hernámi Þýzkalands, hafa talið sig nauðbeygðar til að tryggja aðflutningsleiðir sínar þangað. Skýrt hefur verið frá því, að vegna hernáms Rússa á austurhluta Þýzkalands og Austurríkis hafi þeir í Póllandi 450 þús. hermenn, í Rúmeníu 300 þús. hermenn og í Ungverjalandi 60 þús. hermenn, allt til að tryggja samgönguleiðirnar til Þýzkalands og Austurríkis. Er þó ekki að heyra, að þeir, sem ákafastir eru í grunsemdum í garð Bandaríkjanna, gruni Rússa um græsku. Englendingar hafa afnot stórs flugvallar á Jótlandi í sambandi við hernám sitt á norðvesturhluta Þýzkalands, og eiga þeir þó ólíkt skemmri leið að sækja yfir Norðursjóinn en Bandaríkin, sem verða að fara þvert yfir Atlantshafið. Þá er það vitað, að Bandaríkin hafa afnot flugvalla í Englandi, Frakklandi, Belgíu og Hollandi í sambandi við hernám þeirra á Suðvestur-Þýzkalandi.

Sjálfsagt eru samningar um stöðvar þessar og afnot þeirra með ýmsum hætti, enda eru atvikin ólík á hverjum stað og raunar hvergi lík því, sem á Íslandi er, því að hvorki voru Íslendingar beinir þátttakendur í styrjöldinni né heldur hafa þeir fram að þessu rekið stóra flugvelli, sem ætlaðir eru til að taka við miklum flugflutningum á alfaraleiðum. Þrátt fyrir þessa sérstöðu eru það áreiðanlega fáir Íslendingar, sem vilja með öllu neita því að verða við ósk Bandaríkjanna um að veita þeim þá aðstöðu hér á landi, sem þeim er nauðsynleg í sambandi við flutninga þeirra vegna herstjórnarinnar og eftirlitsins í Þýzkalandi, svo fremi að slíkt verði gert án þess að skerða frelsi og fullveldi landsins eða hagga þeirri meginstefnu, er menn vilja fylgja í utanríkismálum.

Nú hafa allir íslenzkir stjórnmálaflokkar lýst yfir því, að þeir vildu ekki herstöðvar í landinu. Í viðræðum sínum við fulltrúa Bandaríkjastjórnar hefur hæstv. forsrh. aldrei hvikað frá þessum vilja landsmanna. Hann hefur þess vegna gersamlega neitað að veita Bandaríkjunum nokkra þá aðstöðu hér á landi, sem veitti þeim rétt til her stöðva hér eða nokkurs, sem jafngilti þeim. En þá lá fyrir að finna úrræði, er tryggði í öllu rétt Íslendinga, en veitti Bandaríkjunum þó sanngjarna úrlausn og gerði þeim kleift að fullnægja þeirri skyldu, sem þau hafa tekið á sig gagnvart öllum sameinuðu þjóðunum.

Nú eru hér á landi tveir stórir flugvellir. Annar er Rvíkurflugvöllurinn, gerður af Bretum inni í miðri Rvík. Hinn er Keflavíkurflugvöllurinn, sem Bandaríkjamenn gerðu, og er hann miklu stærri og raunar fleiri en einn völlur, sameinaður í einu flugvallahverfi. Ef eigi á alveg að synja óskum Bandaríkjanna, verður að veita þeim afnót af öðrum hvorum þessara valla. Íslenzka flugmálastjórnin, þ.e. hæstv. flugmálaráðh., Áki Jakobsson, og flugmálastjóri, virðist vilja láta Reykjavíkurflugvöllinn verða aðalflugvöll landsins, en annaðhvort leggja Keflavíkurflugvöllinn alveg niður eða halda þar uppi óverulegri starfrækslu með örfáum eða í mesta lagi nokkrum tugum manna, svo að völlurinn yrði í raun réttri aðeins neyðarhöfn, en fullnægði hvergi nærri þeim kröfum, hvorki um öryggi né annað, sem gerðar eru til þýðingarmikilla flugvalla á alfaraleiðum. Um Rvíkurflugvöllinn, sem vegna vaxandi styrjaldarþarfa stækkaði mjög á meðan hann var í smíðum frá því, sem í fyrstu var hugan, en flugmálaráðh. vill nú gera að aðalflugvelli landsins, er það að segja, að bæði gerð hans og síðari stækkunum var á sínum tíma mótmælt af borgarstjóra Rvíkur, og öll var sú framkvæmd þvert um geð meginþorra borgaranna. Þrátt fyrir allmikla stærð fullnægir Rvíkurflugvöllurinn ekki alþjóðareglum um lendingaröryggi fyrir Atlantshafsflug. Eru og áreiðanlega á því miklir annmarkar, ef ekki allsendis ókleift vegna landslags og aðstöðu allrar, að gera þann völl svo úr garði, að hann fullnægi alþjóðaöryggisreglum. En jafnvel þótt slík stækkun og endurbót vallarins væri möguleg, sem að svo stöddu skal mjög dregið í efa, að unnt sé að gera, svo að í lagi sé, þá hefur flugmálaráðh. skýrt svo frá, að víst væri, „að slíkar stórfelldar endurbætur á Reykjavíkurflugvellinum verða aðeins gerðar, ef alþjóðafé kemur til að verulegu leyti“. En þá er þess að gæta, að enginn alþjóðasjóður er fyrir hendi, sem veiti slíka styrki, heldur mundi verða undir högg að sækja hjá stjórnum einstakra ríkja um fjárframlög í þessu skyni, enda mundu þær þá geta sett þau skilyrði, er þeim sýndist. Því fer og fjarri, að hér komi fjárhagsatriðin ein til greina. Samkv. skýrslu, sem mér barst fyrir fáum dögum frá flugmálastjóra, þarf að rífa 30 íbúðarhús og æði margar aðrar byggingar, ef víðlit á að verða að fá viðurkenningu Rvíkurflugvallarins sem Atlantshafsflugvallar, er fullnægi alþjóðareglum.

Af fyrri reynslu er sýnt, að með öllu er óvíst, að við þetta yrði látið sitja, og öruggt má telja, að af þessu mundi leiða margs konar önnur óþægindi og hættur jafnvel á friðartímum. Verst er þó, að ef Rvíkurvöllurinn á að verða eini stóri flugvöllurinn hér á landi, þá er Rvík sett í augljósa og óafsakanlega hættu, ef ný heimsstyrjöld brytist út, sem vér skulum vona, að ekki verði, en andstæðingar samningsfrv. hafa mjög ógnað mönnum með. — Af öllum þessum ástæðum og ýmsum fleiri væri það með öllu óverjandi, ef Íslendingar ákvæðu að gera Rvíkurflugvöllinn að aðalflugvelli landsins og vísuðu Bandaríkjamönnum á, að þeir gætu notað hann í sambandi við flutningaþörf sína yfir Atlantshaf. Þetta virðist engu að síður hafa verið það, sem fyrir hæstv. flugmálaráðh. (ÁkJ) og skoðanabræðrum hans hefur vakað í þessu efni að svo miklu leyti sem þeir hafa viljað virða óskir Bandaríkjanna að nokkru, sem raunar er meira en tvísýnt.

Ástæðan til þessarar stefnu hæstv. flugmálaráðh. og skoðanabræðra hans er sú, að þeim er ljóst, að rekstur Keflavíkurflugvallarins, svo að í nokkru lagi sé, er Íslendingum enn gersamlega ofvaxinn, enda segir í tilvitnaðri skýrslu ráðh., að ef veruleg starfræksla verði á Keflavíkurvellinum, þurfi til hennar „alþjóðlegt rekstrartillag“, sem þá þyrfti að semja um við einstakar erlendar þjóðir, eins og áður segir. En ef menn á annað borð vilja komast að samkomulagi við Bandaríkin um þetta mál, þá er ákaflega erfitt að neita að semja við þau um afnot Keflavíkurflugvallarins svipað því, sem í samningsfrv. er gert, úr því að játa verður, að vér hvorki viljum né getum gert Rvíkurflugvöllinn að viðunandi Atlantshafsflugvelli, og úr því að vér höfum ekki sjálfir bolmagn til að reka Keflavíkurflugvöllinn enn sem komið er.

Hv. framsóknarmenn gera sér þetta og ljóst. Þeir leggja sem sé til, að samið verði við Bandaríkin um rekstur flugvallarins, þangað ráðnir starfsmenn, sem Bandaríkin leggi til, og þau greiði allan kostnað við völlinn. Í framkvæmdinni mundi sjálfsagt ekki verða ýkja mikill munur á þessum hætti og þeim, er samningurinn gerir ráð fyrir. En mjög verður að draga í efa, að hann sé Íslendingum hagkvæmari en samkv. samningsfrv. er ætlað, einkum þegar tekið er tillit til hinnar nýju 5. gr., sem meiri hl. n. leggur til, að tekin sé í frv., en þar segir berum orðum, að hvorki ákvæðin í næstu gr. á undan né nein önnur fyrirmæli þessa samnings raski fullveldisrétti né úrslitayfirráðum lýðveldisins Íslands varðandi umráð og rekstur vallarins og mannvirkjagerð eða athafnir þar. Það er þess vegna t.d. ótvírætt, að engin mannvirki, stækkanir eða annað slíkt má gera án samþykkis Íslendinga á vellinum, enda leiðir það þegar af því, að Íslendingar eiga völlinn og að aldrei hefur komið til mála að skerða fullveldi þeirra þar. Stjórn Bandaríkjanna á að vísu að vera heimilt að hafa allmarga starfsmenn sína á vellinum, þeir eru áætlaðir 600, sem allir þurfa hér landvistarleyfi og atvinnuleyfi sem hverjir aðrir útlendingar, og allir lúta þeir íslenzkri lögsögu, dómgæzlu og lögreglu, og yfirstjórn Íslendinga á vellinum er tvímælalaus. Aðstaðan er því slík, að Bandaríkjastjórn er heimilað að láta tiltekna starfrækslu eiga sér stað á vellinum, hún ber sjálf ábyrgð á þeirri starfrækslu, sem í hennar þágu er, og greiðir allan kostnað, sem af henni leiðir, en allt lýtur þetta íslenzkum l. Verður mjög að draga í efa, að Íslendingum yrði hagkvæmara, þótt þeir tækju sjálfir að nafninu til við rekstrinum með þeim hætti, sem till. hv. framsóknarmanna gera ráð fyrir. Segja má, að í báðum tilfellum sé mjög undir því komið, hvernig framkvæmdin fer úr hendi. Svo er um alla samninga. Hitt er fjarstæða að segja, að með samningsfrv. svo sem það liggur fyrir sé heimilað að setja her stöð á Keflavíkurvöllinn. Engin nauðsyn til slíks er hugsanleg í sambandi við herstjórn og eftirlit Bandaríkjanna í Þýzkalandi. Ef Bandaríkin framkvæmdu samninginn á þann veg, jafngilti það hernámi landsins af hálfu Bandaríkjanna, og gætu menn þá alveg eins ályktað sem svo, að lendingarréttur kaupflugfara hér á landi, en til slíkra lendinga hafa Bandaríkin nú þegar rétt, gæti leitt til herstöðva þeirra, því að ekki þyrfti annað en að vopna kaupförin óforvarandis og láta þau ætíð mörg sitja samtímis á flugvelli hér.

Allar slíkar bollaleggingar byggjast á því, að menn treysta ekki hinum samningsaðilanum, enda hefur það ótvírætt komið fram, að mikið af hinni hatrömmu andstöðu gegn samningsfrv. þessu er byggt á slíku vantrausti. En ef slíkt vantraust er réttmætt, þá er hag vorrar litlu þjóðar vissulega illa komið. Því að ef stórveldin vildu beita oss yfirgangi, þá hafa þau jafnvel á síðar í árum að velli lagt meiri risa en 130 þúsund manna þjóð norður á hjara veraldar. En ég fullyrði, að slíkt vantraust á Bandaríkjunum sé með öllu óréttmætt. Vér megum minnast þess, að þau vildu eigi í fyrstu hernema land vort, heldur vildu fá samþykki vort til hingaðkomu sinnar, og þess vegna var herverndarsáttmálinn frá 1941 gerður. Þau óskuðu þess að vísu, að vér frestuðum lýðveldisstofnun vorri fram yfir árslok 1943. Töldu þá ýmsir, að þau brytu á oss gerða samninga, og vildu hef ja við þau fjandskap og illindi þegar í stað. Aðrir héldu því fram, að eigi væri um annað en vínsamlega málaleitun að ræða og bezt væri kapp með forsjá. Endir þess máls varð sá, að Bandaríkin viðurkenndu lýðveldisstofnun vora fyrst allra ríkja, og fullyrði ég, að örðugra mundi hafa orðið um þá viðurkenningu sums staðar að, ef Bandaríkin hefðu eigi vísað veginn.

Satt er það, að ágreiningur er um skilning á því ákvæði herverndarsáttmálans, hvenær Bandaríkin skuli flytja síðustu leifar hers síns héðan af landi brott. Vér Íslendingar höldum þar auðvitað fram þeim skilningi, er vér teljum réttan og landi voru fyrir beztu, en það haggar ekki hinu, að gagnaðilinn virðist sannfærður á sama hátt um sinn málstað. Einn þm. hefur haldið því fram, að vér ættum að kæra Bandaríkin af þessum sökum fyrir öryggisráði sameinuðu þjóðanna. Með því móti mundi Ísland dragast enn frekar en orðið er inn í deilur stórveldanna, og munu fáir telja það til mikils vinnings fyrir landið. Og hvað sem réttarágreiningnum líður, þá mun þjóð vorri fyrir beztu að ná svo rétti sínum, að hún virði þá mikilsverðu hagsmuni annarra, sem hún getur veitt þeim sjálfri sér að meinfangalausu.

Vér skulum, svo sem í samningsfrv. þessu er gert, standa fast á því, að enginn er lendur her hafi stöðvar í landinu, en hitt skulum vér forðast að neita samskiptum við vinsamlegar þjóðir, er í engu skerða fullveldi vort né hagsmuni, einungis af þeirri minnimáttarkennd, er stafar af því, að menn skammast sín fyrir að vera litlir. Það er engin skömm að játa það, að vér erum þess eigi enn búnir að taka við rekstri Keflavíkurvallarins. Hitt væri bæði skömm og skaði, ef vér fyrir þær sakir létum loka vellinum eða sama sem það og reyndum í þess stað að gera Rvíkurvöllinn að eina stóra flugvelli landsins og færðum með því hættu yfir höfuðborgina, ef svo færi sem andstæðingar þessa samningsfrv. tala mjög um, að ófriður brytist út. Með samningsfrv. er oss fenginn ótvíræður réttur til að taka einir við rekstri Keflavíkurvallarins eftir 61/2 ár, ef vilji þjóðarinnar verður slíkur. Sá takmarkaði réttur, sem Bandaríkin hafa þangað til, skerðir í engu fullveldi vort né úrslitayfirráð yfir vellinum og býður engri þeirri hættu heim, sem hvort eð er er ekki fyrir hendi. Ef stórveldin vilja beita Íslendinga ofbeldi, hafa þau afl til þess hvenær er þau lystir. Þessi samningur gerir það sízt léttara, heldur þvert á móti. Með honum er ekki heimilað að fjandskapast við neinn, heldur einungis létt undir með að halda uppi friði og reglu á vegum sameinuðu þjóðanna. Ef ófriður brýzt út, sem ég vil ekki trúa að verði á gildistíma þessa samnings, þá hafa Íslendingar þegar reynt, að þeir eru ekki ætíð aðspurðir, og megum vér þó minnast afstöðu Bandaríkjanna 1941. En hvernig sem allt veltist, er þó öruggara, að aðalflugvöllur landsins sé ekki inni í miðri höfuðborginni, þar sem þriðjungur þjóðarinnar býr..

Andstæðingar samningsfrv. þessa bera mjög í munni sér nafn Einars Þveræings og svör hans við málaleitun Noregskonungs, er hann vildi ná eignarhaldi á Grímsey. Vonandi lifa orð Einars Þveræings og andi sá, er bak við þau býr, um alla framtíð með hinni íslenzku þjóð. En þess skulum við minnast, að það tekur nú skemmri tíma fyrir flugflota stórveldanna að komast yfir byggðir Íslands frá heimastöðvum sínum en það tók fyrir langskip að ná til lands frá Grímsey á dögum Einars Þveræings. Sú hætta, sem Einar varaði við, er þess vegna nú þegar margfaldlega fyrir hendi, ef vér ætlum þessum drottnurum heimsins það, að þeir vilji níðast á vorri fámennu þjóð. Ég ætla þeim það ekki, á sama hátt og ég neita að trúa því, að ófriður sé yfirvofandi á næstu árum. En ef menn gera ráð fyrir hættunni, þá er hún til komin vegna aukinnar tækni, en án tilverknaðar vor Íslendinga. Afleiðingar tækninnar fáum vér eigi með neinu móti umflúið. Aldrei munum vér þó samþykkja neitt það, er felur í sér hættu fyrir frelsi vort og fullveldi. En það er ekki nóg, því að hug vorum verðum vér að halda jafníslenzkum sem nokkru sinni fyrr. Vér megum eigi láta hann verða að stöð eða áróðurstæki fyrir erlenda stefnu, hvaðan sem hún kemur, heldur halda óskertri dómgreind og jafnvægi, hvað sem á dynur.

Sjálfstæði Íslands fær því aðeins staðizt, að vér viðurkennum staðreyndirnar og miðum stefnu vora við þær. Þótt vér séum smáir, þá megum vér eigi óttast friðsamleg skipti við aðrar þjóðir, heldur halda svo á málum, að frelsi vort og sjálfstæði verði sem bezt tryggt um alla ókomna tíð. — Það er með þetta í huga, sem ég er sannfærður um, að ég geri rétt, þegar ég óhikað greiði atkv. með þessu samningsfrv.