05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti, góðu landar. Afstaða Sósfi. til leigu á íslenzku landi undir hernaðarbækistöðvar Bandaríkjunum til handa hefur auðvitað ekkert breytzt, þótt kosningarnar séu um garð gengnar. Afstaða Sósfl. er enn sem fyrr afdráttarlaust nei. Afstaða Sósfl. er enn sem fyrr: Burt með Bandaríkjaherinn af Íslandi. Þessi afstaða er ekkert sérkenni sósíalista. Þetta er afstaða allra Íslendinga, sem ekki hafa fyrirgert rétti sínum til að bera það nafn. Þetta er afstaða íslenzku þjóðarinnar. Bandaríkjaherinn er hér í hennar óþökk. Henni finnst fyrir löngu ofsetið. Og íslenzka þjóðin hefur krafizt þess skýrt og skorinort, að Bandaríkjastjórn stæði við gerða samninga og yrði á brott með her sinn héðan. Íslenzka þjóðin neitar að kaupa efndir á gefnum loforðum fyrir ný fríðindi, og þótt henni hafi verið og sé enn oftlega hótað af erindrekum Bandaríkjastjórnar, hér á Alþ. og víðar, með missi vináttu og virðingar þeirra, er með völd fara í því volduga herveldi, ef hún sé ekki eftirlát, þá lætur hún sér það í léttu rúmi liggja. Hún veit, að virðingu kaupir sér enginn með undirlægjuhætti og aðkeypt velvild er Íslendingum ekki að skapi. Íslenzka þjóðin telur ekki þá vináttu eftirsóknarverða, sem einkennist af ágengni, ógnunum og eiðrofum. Íslenzka þjóðin veit, að hún stendur ekki í neinni þakkarskuld við Bandaríkin, þótt þau hafi um síðir uppfyllt það skilyrði nauðungarsamningsins frá 1941 að viðurkenna fullveldi Íslands. Hún telur það sjálfsagða skyldu að standa við gerða samninga án þess að sérstök þóknun komi fyrir né heldur undirgefni, og því afþakkar hún einnig eindregið afskipti hr. Bevins af sínum málum. Hún veit, að það eru engin áhöld um, hvor þjóðin á hinni meira upp að inna. Hún veit, að herstöðvarnar hér styttu styrjöldina til mikilla muna og að þær urðu því til að draga úr stríðskostnaði Bandaríkjanna og minnkuðu mannfall þeirra einnig geysimikið. Íslenzka þjóðin veit líka, að hún sjálf beið hlutfallslega mest afhroð í styrjöldinni, t.d. við matarflutninga til Bretaveldis, svo að ekki séu með taldir þeir Íslendingar, er féllu fyrir vopnum úrvalsliðsins hér heima. Íslenzku þjóðinni finnst þessar þjóðir hvorar tveggja launa illa veitta aðstoð: Bretastjórn með ósvífinni afskiptasemi og Bandaríkjastjórn með samningsrofum, ásælni og nauðung. Í stað þess að hverfa brott með herinn strax að stríðinu loknu, eins og samningar stóðu til, hefur Bandaríkjastjórn þrásetið, og fyrir réttu ári síðan sendi hún Íslendingum í þokkabót móðgandi tilmæli um herstöðvar hér í heila öld. Því tiltæki Bandaríkjastjórnar átti að leyna þjóðina. Þá þegar, á öðru ári fullveldis, voru öfl innan veggja Alþ., undir forustu hálfdanans Ólafs Thors og auðnuleysingjans Ásgeirs Ásgeirssonar, einkafulltrúa hans í drottinsvíkum, er æsktu þess eins að svíkja föðurland sitt, fyrr en það kæmi fyrir sig vörn, í klær Bandaríkjanna. Það mistókst, eins og kunnugt er. Einlægir ættjarðarvinir vöruðu þjóð sína við þeim voða, er að stefndi, og íslenzka þjóðin reis upp af heilagri vandlætingu til öflugra mótmæla. Þetta snögga víðbragð Íslendinga ásamt þeirri staðreynd, að alþingiskosningar fóru í hönd, gerði gæfumuninn þá. Tilmælum Bandaríkjastjórnar fékkst neitað. Óvinir Íslands, erindrekar Bandaríkjastjórnar, leyndu sínu spillta hugarfari að sinni og fluttu jafnvel sumir hverjir áfjálg erindi um trúnað sinn við íslenzkan málstað, en allir með tölu sóru þeir fyrir kosningar Íslandi dýra hollustueiða þrátt fyrir margítrekaðar aðvaranir sósíalista og annarra ættjarðarvina, og enda þótt öllum væri enn í fersku minni ótal dæmi um landráð og önnur níðingsverk úr raunasögu Evrópu hinn síðasta áratug, tókst óheillamönnum þessum að villa um allmikinn hluta þjóðarinnar og ná kosningu til Alþ., og því er þessi örlagastund Íslands upp runnin. Kjósendum þeirra ómenna er nú óhægt innanbrjósts, en vissulega skulu þeir ekki sakaðir um gerræði það, sem hér er verið að fremja. Þeirra sök er andvaraleysi og oftrú á óhlutvanda menn, menn, sem kosnir voru til að vernda hagsmuni Íslands, fullveldi þess og frelsi, menn, sem nú svíkja alla um allt og gerast formælendur og stuðningsmenn þessa samningsuppkasts, sem að er unnið gagnstætt landslögum og stefnt er gegn sjálfstæði Íslands, uppkasts, sem þjóðhollum Íslendingum er meinað að ræða sem þingsköp mæla fyrir, vegna þess að formælendur þess vita, að öll íslenzka þjóðin er landráðasamningnum andhverf. Íslenzku þjóðinni er frelsi og sjálfstæði Íslands ekki aðeins metnaðarmál, heldur hjartans mál engu að síður. En það er ekki aðeins tilfinningamál. Þjóðin veit, að nú er ekki aðeins sómi hennar í veði, heldur líka tilvera. Verði uppkast þetta samþykkt, eru íslenzkir alþm. að taka sér vald, sem þeir eiga hvorki lagalegan né siðferðilegan rétt á, þeir eru með ofbeldi að svíkja þjóð sína og gefa úr hendi hennar eina vopnið, sem smáþjóð fær beitt gegn stórveldum, en það er rétturinn á, að staðið sé við gerða samninga. Ef svo hrapallega tekst, eru alþm. að binda þjóðinni fjötur um fót þvert ofan í gefin heit, í beinni andstöðu við hátíðleg loforð, í fullkomnu heimildarleysi, en af ráðnum hug. Þeir vita vel, hvað þeir eru að gera, og því verður þeim aldrei fyrirgefið, hvorki lífs né liðnum, því að íslenzka þjóðin er langminnug á misgerðir, — en hún er líka ógleymin á það, sem henni er vel gert, og nú á þessari alvörustund gefst einstætt tækifæri til þess.

Í nafni íslenzkra kvenna, í nafni allra Íslendinga, aldinna, ungra og óborinna, skora ég á ykkur að bregðast nú drengilega við.