05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Í hinu ferlega blekkingamoldviðri, sem þyrlað hefur verið upp í sambandi við samninginn við Bandaríkin, er sennilega ein mest. Ég hlýt því að minnast á hana hér. Hún talar sínu máli. Í nál. 2. minni hl. utanrnm., Einars Olgeirssonar, segir svo:

„Þessi samningur skapar því Bandaríkjunum tæknilega möguleika til árásar á meginland Evrópu og hefur því gildi fyrir þau sem möguleg og dulbúin herstöð.“

Vegna þess að hér er um það atriði að ræða, sem einna mest hefur verið hamrað á og mestum deilum hefur valdið, er rétt að athuga þetta svolítið nánar. Bandaríkin hafa í Þýzkalandi hundruð þúsunda af hermönnum allra tegunda, fullkomnustu hergögn og herstöðvar, sem byggðar eru eftir öllum vísindanna reglum. Þessar herstöðvar liggja nánast í Evrópu miðri og fjarlægðir stuttar til allra hliða. Á hinu leitinu er Reykjanesflugvöllurinn, vopnlaus, hermannalaus, með Íslendinga í fjölda störfum og eins fjarri Mið-, Suður- og Austur-Evrópu og nokkur staður í þeirri álfu getur verið. Geta menn nú haldið því fram í fullri alvöru, að héðan verði frekar lagt af stað til árása á borgir Evrópu en frá herstöðvunum í Þýzkalandi, ef Bandaríkjamenn ætluðust slíkt fyrir ? Ég held varla. Og hætti Bandaríkjamenn að hafa herstöðvar í Þýzkalandi, fellur einnig þessi samningur niður. Þetta sýnir, hve allt tal um herstöðvar hér til árása á borgir Evrópu er mikil firra.

Ágreiningurinn í þessu máli er tvenns konar og mjög ólíks eðlis. Annars vegar eru þeir með sínar aths., sem segja: Vissulega viljum við veita Bandaríkjunum rétt til nauðsynlegrar viðkomu hér á leið sinni til hernámssvæðanna í Þýzkalandi, og við viljum á allan sanngjarnan hátt stuðla að því, að þessir flutningar geti tekizt vel, en við viljum bara ekki gera það á þann hátt, sem samningurinn gerir ráð fyrir. Við viljum endurskoða samningsfrv., nema brott agnúana og gera nýjan samning. Þetta skilst mér t.d. að sé hugarfar framsóknarmannanna í utanrmn. o.fl., og á þessari hugsun byggjast till. þeirra. Hvernig vilja þeir þá breyta samningsfrv.? Ef sleppt er þýðingarlitlum smábreyt., má segja, að höfuðbrtt. þeirra séu tvær. Sú fyrri er á þá leið, að allir starfsmenn flugvallarins, einnig þeir, sem afgreiða flugvélarnar, sem um er samið á vegum Bandaríkjastjórnar, starfi á ábyrgð íslenzku ríkisstj., en ekki hinnar bandarísku, eins og gert er ráð fyrir í samningnum; og í öðru lagi vilja þeir hafa samningstímann styttri. Hvorugt þetta atriði er fyrir mér neitt úrslitaatriði, svo að á því beri að láta samninginn stranda, ef hann að öðru leyti getur talizt aðgengilegur. Hér er um að ræða að hafa erlenda menn við störf, fyrst og fremst vegna þess, að við eigum ekki nógu marga Íslendinga þjálfaða og reynda til þess að taka þau að sér. Hins vegar er umsamið að ala upp unga menn og kenna þeim, svo að þeir í vaxandi mæli geti tekið að sér flugvallarstörfin. Þessir menn taka svo við smátt og smátt öllu öðru, samkv. samningnum, en afgreiðslu hinna bandarísku véla, sem verða í höndum þeirra sjálfra og á þeirra ábyrgð. Þetta for m er að mínu víti heppilegra að því leyti, að þá geta Bandaríkin við engan sakazt nema sjálf sig, ef út af ber, og önnur ríki geta ekki heldur sakazt við Íslendinga út af framkvæmdinni, heldur við Bandaríkjamenn.

Hér er, eins og ég gat um fyrst, gengið út frá, að menn séu sammála um að veita Bandaríkjunum lendingarréttinn. Með hinni nýju 5. gr., sem nú hefur verið bætt inn í samninginn, eru möguleikar þessara manna til allra athafna og framkvæmda þrengdir svo, að samkv. samningnum mega þeir ekki taka sig fram um neitt nema með leyfi íslenzkra stjórnarvalda. Það er því skoðun mín, að íslenzk yfirstjórn yfir þessum starfsmannahópi og ábyrgð á verkum þeirra mundi sízt reynast okkur heppilegra fyrirkomulag en hitt, sem samningurinn gerir ráð fyrir, sem er eins konar sérleyfi.

Þá er aftur spurningin um, hvort þetta leyfi, sem þannig er veitt útlendingum til ákveðinna, takmarkaðra og tímabundinna starfa á flugvellinum, þýði afsal landsréttinda, og að Íslendingar séu þar með að missa fullveldi sitt í hendur Bandaríkjunum, eins og haldið hefur verið fram. Ég held, að engum sæmilega skynibornum manni geti komið til hugar að halda þessu fram, því að þessir menn eru á allan hátt undir íslenzkum lögum, þó að verkstjóri þeirra eða vinnuveitandi sé erlendur og hafi ráðið þá til að framkvæma verk, sem hann hefur samið um og fengið leyfi til að framkvæma hér og hér er gengið út frá, að viljað sé og samþ., að verði framkvæmt hér.

En mér er ekki kunnugt um, að neinn þm. utan Konunúnistaflokksins hafi viljað neita um lendingar réttinn.

Um hitt atriðið — samningstímann, skal ég segja það, að sjálfsagt væri æskilegt, að hann væri sem stytztur, svo að Íslendingar gætu sagt samningnum upp, ef hann reyndist illa. En hvort tveggja er, að þetta atriði hefur tekið miklum breytingum frá því sem upphaflega var talað um, í þá átt að stytta tímann, og svo ber á það að líta einnig, sem hinn samningsaðilinn segir, að hann verður að takast á hendur kostnaðarsamar byggingaframkvæmdir, bæði hús og endurbætur á flugbrautum, og því ósanngjarnt, að hann eigi á hættu að þurfa að afhenda allt þetta eftir eitt ár eða svo. Ég tel því, að hvorugt þessara atriða sé þess eðlis, að það eigi að valda úrslitum, og þeir, sem á annað borð vilja nokkuð við Bandaríkjamenn tala eða semja, en það skilst mér vera allir þm. utan Kommúnistaflokksins, geti fallizt á samninginn einnig hvað þetta snertir.

En til er annar hópur manna hér, með annan ágreining, sem ég vil kalla hinn kommúnistiska, og hann er allt annars eðlis, og rökin til hans liggja miklu dýpra. Þessi hópur manna vill segja nei við öllum samningum við Bandaríkin og heimta allan bandaríska herinn, sem hér dvelst enn, burt þegar í stað — og þar með búið. Hann vill ekkert líta á þörf Bandaríkjanna til viðkomu hér vegna hernáms Þýzkalands og virðist helzt vilja torvelda á allan hátt þá flutninga, sem nauðsynlegir eru taldir þangað frá Bandaríkjunum. Þessir menn virðast vilja hindra vinsamleg samskipti milli Íslendinga og Bandaríkjanna, alveg eins og þeir hafa áður viljað torvelda öll samskipti milli Íslendinga og þeirra þjóða, sem við höfum áður staðið í vinsamlegu sambandi víð, til þess í staðinn að geta treyst því betur vináttuböndin í aðrar áttir.

Að þetta sé ekki úr lausu lofti gripið, skal ég sanna með nokkrum dæmum.

Þegar samningarnir voru gerðir milli Íslands og Svíþjóðar fyrir hálfu öðru ári, voru þeir úthrópaðir í blöðum kommúnista sem óalandi og óferjandi og samningamennirnir ófrægðir niður fyrir allar hellur. Þegar samningarnir stóðu yfir við Dani nú fyrir skömmu, vildi fulltrúi kommúnista bara segja nei og ekkert nema nei. Þannig var meiningin að einangra Íslendinga frá samskiptum við Norðurlönd. — Þá er einnig kunn afstaða þessara manna til viðskiptamála okkar við Breta. Þeir hafa gert það, sem þeir hafa mátt, til að torvelda, að samkomulag gæti tekizt við þá, og í aðalmálgagni þessara manna er fyrir þremur dögum sagt, að einasta svarið, sem Englendingum hæfi nú, sé að segja þeim að éta skít. — Þá hefur afstaðan til Bandaríkjanna alltaf verið ljós. Engan samning, burt með Bandaríkjamenn, sagði Katrín Thoroddsen. — Loks má geta þess, að hin kommúnistíska stjórn Alþýðusambandsins taldi það bezt henta okkar utanríkisverzlun að banna afgreiðslu á öllum vörum til Spánar og frá því landi.

Stefnan hefur því verið mjög ljós. Það hefur verið markvisst unnið að því að koma okkur út úr húsi hjá öllum vinveittum nágrannaþjóðum, til þess að við ættum ekki í annað hús að venda en opinn náðarfaðm Rússa og þeirra ríkja annarra, er í nánustu sambandi standa við þá. Um þetta ber vitni hinn mikli áhugi þessara manna fyrir því að gera viðskiptasamninga við Pólverja, Tékka og Rússa og beina sem mestu af viðskiptum okkar þangað. Nú er ég að vísu síður en svo á móti því, að viðskiptum sé komið á milli Íslands og þessara þjóða, en ég er ekki tilbúinn til að gera þær að einkaviðskiptamönnum okkar og útiloka alla hina. Með því erum við orðnir þeim allt of háðir, og möguleikar kynnu þá að verða fyrir því, að okkur yrðu sett þau skilyrði, sem við ættum erfitt með að samþykkja. Nei, þessi utanríkismálapólitík kommúnista á áreiðanlega ekki hljómgrunn hjá þjóðinni. Þess vegna verður að dulbúa hana eins og gert hefur verið í þessu máli og reyna að véla svo um fyrir þjóðinni, að henni sjáist yfir þennan kjarna málsins. Þess vegna er talað um „herstöðvasamning“ nú, þegar allur her og öll hergögn eru flutt burt úr landinu. Þess vegna er talað um afsal landsréttinda, þegar Íslendingar eiga að fá full og óskoruð umráð yfir öllu landi sínu. Og þess vegna er reynt að gera Bandaríkjamenn tortryggilega í augum Íslendinga, mennina, sem fyrst og drengilegast studdu okkur í sjálfstæðisbaráttunni og viðurkenndu íslenzka lýðveldið fyrstir og reyndust okkur þannig á styrjaldarárunum, að við fáum seint fullþakkað.

Ég tel, að við eigum að samþykkja samninginn

1. vegna þess að viðkvæmt deilumál um brottför Bandaríkjahers er þar með á enda kljáð og herinn fer;

2. vegna þess að um leið verður flugvöllurinn á Reykjanesi óumdeilanleg eign Íslendinga, sem þeir geta notað sér eins og þeir vilja;

3. trygging fæst fyrir því, að vellinum verði komið í nothæft og gott stand, og allur búnaður verði hinn fullkomnasti, svo að hann verði rekinn sem alþjóðlegur flugvöllur af fullkomnustu gerð, undir stjórn og yfirráðum Íslendinga.

Allt þetta tel ég meir en jafngilda því, að Bandaríkin fái hér lendingarrétt á vellinum og leyfi til að hafa ákveðinn takmarkaðan hóp manna þar til þess að taka á móti vélum sínum. Þegar svo þar við bætist, að með samningsgerðinni ávinnum við okkur vínsemd og áframhaldandi samskipti hinnar voldugu Bandaríkjaþjóðar, tel ég, að ekki beri að skoða hug sinn um það að samþykkja samninginn.

Það hefur verið talað um þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan samning, en þá fyrst hefur verið á hana minnzt, þegar öll önnur rök hefur þrotið. Krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu er reist á röngum forsendum. Hún er byggð á því, að hér sé um herstöðvasamning að ræða, og hún er byggð á því, að hér sé um að ræða afsal landsréttinda. Hvort tveggja þetta hefur komið fram í þeim ályktunum, sem gerðar hafa verið um málið, en hvort tveggja er rangt. Þegar af þeirri ástæðu á þjóðaratkvæðagreiðsla ekki að fara fram. Kommúnistar reyna að villa svo um fyrir þjóðinni, að hún sjái ekki kjarna málsins, sem ég hef bent á, — utanríkispólitík þeirra, sem vill koma okkur út úr húsi hjá öllum okkar nábúum.

Sjálfstæði Íslands verður aðeins varið og treyst með vinsamlegri sambúð við allar þjóðir. Þess vegna greiði ég hiklaust atkv. með samningnum.