05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. — Hæstv. samgmrh. óskaði eftir því, að ég gerði hér grein fyrir till. Framsfl. Þessi ósk var alveg óþörf. Ég mun að sjálfsögðu gera það í þessari ræðu, þótt ég komi ekki að því þegar í upphafi. Þetta mál hefur verið rætt nokkrum sinnum í utanrmn., en henni gafst ekki kostur á því, fyrr en eftir að það var lagt fyrir Alþ., að fylgjast með þeim samningsumræðum, sem fóru fram, og hún sá ekki málið fyrr en þeim var lokið. — N. hefur ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Fulltrúar Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins í n. leggja til, að samningurinn verði samþykktur með nokkrum breyt. Fulltrúi Sósfl. leggur til, að samningnum verði hafnað, en við fulltrúar Framsfl. lítum svo á, að rétt sé að semja við Bandaríkin um afnot af Keflavíkurflugvelli á þeim grundvelli, að ljóst sé af samningnum og óvefengjanlegt, að Íslendingar ráði einir rekstri flugvallarins. En til þess að svo megi verða, teljum við, að gera þurfi á samningnum allmiklar og víðtækari breyt. en þegar er fram komið af hálfu meiri hl. utanrmn. Mál þetta er stórmál og þurfti flestum málum fremur ýtarlegan undirbúning. Flugmálin eru meðal þýðingarmestu mála þjóðanna, og svo er einnig að verða hjá oss Íslendingum. Við höfum nú tvo stóra flugvelli, annan við Rvík, hinn við Keflavík. Það hefur margoft verið gerð krafa í utanrmn. undanfarin ár um það, að ríkisstj. léti fram fara rannsókn sérfræðinga á því, hvernig flugvellirnir verði bezt nýttir í þágu flugferða okkar, hvort það nægði að hafa annan í notkun eða nauðsynlegt væri að reka vellina báða, hvað kosta muni að reka þá og hve marga menn þurfi að æfa til þess að annast það starf. Jafnframt yrði að athuga, hvaða tekna mætti vænta af flugvöllunum, frá þeim þjóðum, sem teldu nauðsynlegt að fá þar lendingarrétt. Allt þetta þurfti vitanlega að liggja ljóst fyrir í sambandi við þessa samningsgerð um flugvöllinn. En því fer svo fjarri, að slíku sé til að dreifa, að það, sem við fáum að vita, er það, að engin sæmileg rannsókn hafi farið fram og engin stefna verið tekin í ríkisstj. um notkun og rekstur vallanna. Hæstv. flugmálarh. sagði, að árlegur kostnaður við rekstur vallanna beggja mundi nema innan við 5 millj. kr. En hæstv. forsrh. taldi, að rekstur Keflavíkurflugvallarins kostaði árlega um 30 millj. kr. Hann sagði, að tekjuvon af rekstrinum væri sáralítil. En hæstv. flugmálaráðh. telur líkur til þess, eins og kom fram í útvarpsræðu hans áðan, að tekjur af flugvallarrekstrinum verði nægar til þess að greiða rekstrarkostnað, og jafnvel yrði gróði af flugvellinum áður en langt um liði. Menn munu nú sjá, hve einstakt undirbúningsleysið er á þessu máli öllu frá Íslendinga hálfu. Þetta er sú hlið málsins, sem að sjálfum okkur snýr. Á þessum grundvelli eigum við að byggja samninga við aðrar þjóðir um notkun Keflavíkurflugvallarins.

En samningsgerð um flugvöllinn er einnig vandasamt utanríkismál. Það vakti því eðlilega ekki litla furðu, þegar utanrrh. lagði samninginn um flugvallarmálið fyrir Alþ. og sagði, að um það tvennt væri að velja að samþykkja hann eins og hann lægi fyrir eða hafna honum. Hann upplýsti, að samningsgerð þessi hefði staðið yfir í a.m.k. tvo mánuði. Og Alþ. fær enn þá ekkert um það að vita, hverjir að samningnum hafa unnið af Íslendinga hálfu með ráðherranum. En það er vitað mál, að þetta mál var aldrei rætt í utanrmn. og hún fékk ekkert um það að vita fyrr en eftir að það var lagt fyrir Alþ. Í 1. um starfssvið utanrmn., sem einnig eru tekin upp í 16. gr. þingskapa Alþ., er svo fyrir mælt, með leyfi hæstv. forseta: „Til utanríkismálanefndar skal vísað utanríkismálum. Utanríkismálanefnd starfar einnig milli þinga, og skal ráðh. ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga.“ Þetta er alveg ótvírætt ákvæði, og það er sett til þess að þeir þingflokkar, sem hafa svo mikið traust og fylgi með þjóðinni að fá þar sæti fyrir þingfulltrúa sinn í n., geti án tillits til þess, hvort þeir eiga fulltrúa í ríkisstj. eða ekki, fylgzt með gangi utanríkismála. Með þessum hætti þykir bezt mega tryggja það, að sem mest eining verði um utanríkismálin.

Það hafa engin rök komið fram til varnar þessari óþingræðislegu vinnuaðferð í flugvallarmálinu, sem er hreint og beint lögbrot. En það er reynt að afsaka með því, að herverndarsáttmálinn frá 1941 hafi ekki verið lagður fyrir utanrmn., og það er reynt í því sambandi að beina árás gegn mér, sem ég verð að svara með nokkrum orðum. En um þetta mál var, eins og raunar allir landsmenn vita, allt öðru máli að gegna. Allir þeir þingflokkar, sem sæti áttu í utanrmn., áttu fulltrúa í ríkisstj. og gátu fengið þar sams konar vitneskju og í utanrmn. En það er bezt að skýra frá því, úr því að þetta er leitt inn í umr., að þótt ekki væri haldinn formlegur fundur í utanrmn., heldur fundur undir forsæti þáv. ríkisstjóra Íslands, voru flestir þingfulltrúar, sem sæti áttu í utanrmn., kallaðir á fundinn. Mun ég ekki ræða það atriði nánar, nema enn verði gefið tilefni til þess. En herverndarmálið varð vitanlega vegna eðlis málsins að sæta alveg sérstakri meðferð, enda var öll ríkisstj. sammála um, að allt annað væri óverjandi. Það þurfti vitanlega að vera alveg sérstök og ströng leynd og meiri hraði á herverndarsáttmálanum, með því að hann var hernaðarleyndarmál mitt í ægilegri styrjöld og ríkisstj. fékk mjög alvarlega víðvörun frá hinum samningsaðilanum gagnvart því, að almenningur fengi vitneskju um þetta mál, enda kvað sendiherrann í bréfi sínu, að slíkt mundi nær áreiðanlega hafa í för með sér, að óvinurinn réðist á landið. Taldi hann, að höfuðstaður Íslands yrði þá í alveg sérstakri hættu. Þetta bréf frá sendiherra Breta til ríkisstj. er prentað í umræðuparti Alþt. frá aukaþingi 1941, bls. 23, og getur hver og einn gengið úr skugga um, að rétt er hermt. Það er því hæpinn ávinningur að færa fram þá afsökun fyrir þeirri leynilegu meðferð flugvallarmálsins, að hún sé svipuð meðferð og hernaðarleyndarmál í miðri styrjöld varð að sæta.

Þessi meðferð flugvallarmálsins hefur leitt til þess, að Framsfl. fékk ekkert um þennan samning að vita, fyrr en hann var lagður fyrir Alþ. Þessi framkoma er lítt skiljanleg, þar sem vitað var af yfirlýsingu Framsfl., að hann vildi taka með sanngirni á samningum við Bandaríkin. Flokkurinn hefur hins vegar sérstakt sjónarmið viðkomandi þessum samningi, skoðun, sem snertir einnig viðhorf mikils meiri hl. þjóðarinnar. Það var nauðsynlegt, að þessi sjónarmið kæmu fram meðan á samningnum stóð og yrðu rökstudd og skýrð fyrir hinum samningsaðilanum. Með því stóðu vonir til, að þau yrðu tekin til greina, og hefði þá meiri eining fylgt samningsniðurstöðunni. Fyrir þessu eru a.m.k. æði sterkar líkur fram komnar, þegar þess er gætt, að talsverðar breyt. hafa fengizt á samningnum eftir að forsrh. lagði hann fram á Alþ. og lýsti yfir því, að lengra yrði ekki komizt, þm. yrðu annaðhvort að hafna samningnum eða játa honum eins og hann lægi fyrir. Við fulltrúar Framsfl. trúum því, að ef okkar sjónarmið og rök verða flutt fyrir hinn aðilann og yfirlýstur vilji Alþ. stendur þar á bak við, muni enn vera unnt að fá þær breyt. á samningnum, að Íslendingar geti sæmilega við unað. Það, sem ég áleit, að meginþorri íslenzku þjóðarinnar vildi í þessu máli, er það, að Bandaríkin fái umbeðin afnot samkv. samningi, sem sé þannig úr garði gerður, að hann tryggi þjóðinni allt það öryggi, sem unnt er yfirleitt að tryggja í samningi. Við þetta eru till. okkar framsóknarmanna miðaðar. Þær eru miðaðar við þá varfærni, sem smáþjóð verður einatt að sýna í samningum við stórþjóðir, þótt velviljaðar séu.

Eins og samningurinn liggur nú fyrir, eftir að á honum hefur verið gerð breyt., er hann í höfuðatriðum þannig, sem ég mun nú rekja í stuttu máli, vegna þeirra áheyrenda, sem fjarri eru og hafa e.t.v. ekki haft tækifæri til að kynna sér samninginn. Þetta verður örstutt yfirlit.

Samkv. 1. gr. er ákveðið, að herverndarsáttmálinn skuli úr gildi felldur. Þetta teljum við ágalla. Um þetta þurfum við ekki að semja, því að herverndarsáttmálinn er úr gildi fallinn og við viljum ekki hefja nýja samninga á þeim grundvelli að játa, að þessi skilningur okkar hafi verið rangur.

2. gr. er um afhendingu flugvallarins, sem að vísu var áður samið um, og teljum við ekki þörf að gera breyt. á henni.

3. gr., er með gagnályktun mátti skil ja svo, að Bandaríkin ein hefðu rétt til að nota Keflavíkurflugvöllinn fyrir herflugvélar, hefur verið felld niður eins og samningurinn nú liggur fyrir, og er það til bóta.

4. gr. er um brottflutning herliðsins, og með þeim breyt., sem á henni hafa verið gerðar, er hún víðunandi.

5. gr. er lítils háttar breytt. Þar stendur enn þá það ákvæði, að stjórn Bandaríkjanna reki sérstaka starfsemi á flugvellinum í Keflavík, án þess að nægilega skýrt sé orðað, hve víðtæk hún megi vera og hver um það skuli dæma. Enn fremur eru niðurlagsákvæði gr. um sérstakt tillit, er taka beri til hervéla, að því er snertir landvistarleyfi, tolla og önnur formsatriði, þannig, að ágreiningi getur valdið, hvernig það beri að skilja.

Á eftir 4. gr. kemur ný gr., sem er til bóta. Þessi gr. segir, að engin ákvæði samningsins raski úrslitayfirráðum Íslendinga yfir rekstri flugvallarins og mannvirkjagerð þar. Þó verður að gæta þess, að þessi almennu ákvæði raska naumast sérákvæðum hinna ýmsu gr. samningsins.

6. gr., um réttindi okkar Íslendinga til þess að koma mönnum í kennslu á flugvellinum, er þannig orðuð, að það er enn lagt á vald hins samningsaðilans, hve margir verða teknir til námsins. Þó hefur þessi gr. verið lagfærð.

7. gr., um það, að við setjum reglugerð um rekstur flugvallarins ásamt stjórn Bandaríkjanna, hefur nú verið breytt þannig, að við eigum að setja reglugerðina í samráði við stjórn Bandaríkjanna.

8. gr. er óbreytt. Hún er um kostnað við rekstur flugvallarins, hvernig greiðast skuli.

9. gr. er um tollfrelsi til handa þeim Bandaríkjamönnum, sem á Keflavíkurflugvellinum dveljast. Það tollfrelsi á að gilda um þau tæki og vörur, sem inn eru fluttar til endurbóta og nýbygginga á flugvellinum, sem er sanngjarnt, og einnig um nauðsynjar allar, sem Bandaríkjastjórn telur sig þurfa til eigin þarfa þess starfsliðs, er hún eða umboðsmenn hennar hafa á flugvellinum, og verð ég að telja það meira en lítið vafasamt ákvæði.

10. gr. er um skattfrelsi sömu mönnum til handa, er tollfrelsi hafa samkv. 9. gr.

11. gr. er um afhendingu flugvallarins að samningstíma liðnum, og 12. gr. er um uppsagnarákvæði eftir 5 ár.

Ég hef nú aðeins lauslega rakið efni samningsins.

Spurningin, sem hlýtur að vakna í sambandi við þetta mál, er fyrst og fremst: Hvaða nauðsyn er Bandaríkjamönnum á notkun flugvallarins, og hvað hafa þeir beðið okkur um? Þeir hafa beðið um rétt til lendingar og viðdvalar á flugvellinum í Keflavík, og við teljum líklegt, að þetta sé þeim mikið hagræði og jafnvel nauðsyn. Við framsóknarmenn höfum því gert till. um samning, þar sem orðið er við réttmætum óskum Bandaríkjanna. Ég skal geta þess hér, að tveir alþm., Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson, hafa borið fram till. efnislega mjög líkar till. okkar framsóknarmanna. Þeim mun hins vegar ekki hafa verið leyft að mæla fyrir þessum till. hér í útvarpinu. Þau rök, sem ég flyt hér fyrir till. okkar framsóknarmanna, gilda eðlilega einnig um till. áðurnefndra þm., þótt þeir mundu að sjálfsögðu hafa rökstutt mál sitt að ýmsu leyti á annan veg en ég rökstyð till. okkar.

Samkv. því, sem við framsóknarmenn leggjum til, er viðurkennt í 1. gr., að herverndarsáttmálinn sé úr gildi fallinn án nýrra samninga. 2. og 3. gr. verða svipaðar og í samningnum eins og hann er nú frá meiri hl. utanrmn. En svo kemur meginbreyt. í 4. gr. Þar er svo fyrir mælt í till. okkar, að Íslendingar reki flugvöllinn og setji reglur um rekstur hans, að sjálfsögðu í samræmi við samninginn og alþjóðareglur og lög, en Bandaríkjamenn gangast undir þær skyldur að útvega okkur starfslið á meðan við þurfum á því að halda, að svo miklu leyti sem íslenzka ríkisstj. telur nauðsynlegt. Hins vegar skal Bandaríkjunum veittur umbeðinn réttur til lendingar og viðdvalar á flugvellinum í samræmi við það, sem þeir hafa borið fram, að sér væri nauðsyn.

Samkv. 5. gr. till. okkar á Bandaríkjastjórn að greiða Íslendingum þann kostnað, sem þeir hafa af framkvæmd samningsins, og um það verði gerður sérstakur samningur, sem gangi í gildi samtímis þessum. Það er vitanlega ekkert óviðfelldið, að Bandaríkin greiði kostnað við framkvæmd samningsins. Þau þurfa á þessum sérstaka greiða að halda vegna hernáms Þýzkalands, og þau, en ekki við, eiga að greiða kostnaðinn, sem er kostnaður við hernám Þýzkalands. Mundi þar mega kveða svo á, að tollfrelsi væri fyrir verkfæri og það efni, sem til þess þyrfti að halda við og endurbæta Keflavíkurflugvöllinn og íslenzka ríkisstj. telur þörf til þess að fullnægja samningnum.

Að lokum er 6. gr., þar sem ákvæði er um, að samningnum megi segja upp eftir 1 ár í stað 5. Eins og af þessu verður ljóst, yrðu gr. samningsins sem í stað tólf, ef till. okkar framsóknarmanna verða samþykktar. Það falla greinar úr samningnum af sjálfu sér, ef svo má segja, ef ákveðið er, að Íslendingar einir reki flugvöllinn: 5. gr., um það, að úrslitayfirráð yfir vellinum séu í okkar höndum, verður óþörf. 6. gr., um skyldu Bandaríkjastjórnar til að taka Íslendinga í skóla, einnig, því að þá yrði kennslan í höndum starfsmanna, sem væru í þjónustu íslenzku ríkisstj. 7. gr., um að samráð yrði haft um reglugerð, hyrfi og að sjálfsögðu. 9. og 10. gr., um skattfrelsi og tollfrelsi, yrðu að hverfa, því að starfsliðið á vellinum væri í þjónustu íslenzku ríkisstj. og lyti í öllu sömu lögum og aðrir landsmenn. 11. gr., um afhendingu mannvirkja, er gerð væru eftir gildistöku samningsins, kæmi ekki heldur til greina, eftir að Íslendingar tækju við rekstrinum, enda yrði um þau atriði samið sérstaklega samkv. 5. gr. í till. okkar.

Nú hef ég gert grein fyrir till. meiri hl. utanrmn. og jafnframt fyrir till. okkar framsóknarmanna.

Ég ætla ekki að mikla þá ágalla, sem hér hefur verið bent á í samningi hæstv. utanrrh. Þeir eru misjafnlega veigamiklir. En ég álít, að það sé skylda bæði mín og annarra að reyna að gera sér grein fyrir þeim og gera sitt til þess að nema þá brott úr samningnum. Þetta tel ég, að mundi takast, ef öruggt fylgi fengist hér á Alþ. fyrir till. okkar framsóknarmanna. Ég hygg, að það muni brátt kunna að koma í ljós, að agnúarnir á þessum samningi. utanrrh. verði meiri í framkvæmd en meðhaldsmenn samningsins vilja nú kannast við. Það er sagt í Morgunblaðinu, að efnislega felist hið sama í till. okkar framsóknarmanna og í samningnum, eins og þær nú liggja fyrir, nema það eitt, að uppsagnarréttur sé styttur í eitt ár úr fimm árum. Ég hef hér að framan dregið nokkur rök að því, hvað rétt er í þessu, og geta tilheyrendur um það dæmt. En ef þetta er skoðun meðhaldsmanna samningsins, hvers vegna vilja þeir þá ekki samþykkja till. okkar? Meginhluti þeirra, sem eru óánægðir með samning stj., geta á þessar till. okkar fallizt, — telja, að í þeim felist það öryggi, sem við getum tryggt okkur í samningnum. Ef þjóðin telur sig ná þessu í samningnum, stendur meginhluti hennar með honum. Það er heldur ekkert undarlegt, þótt þetta atriði skipti sköpum í málinu, skipti þjóðinni í andstæðinga og samþykkjendur samningsins.

Við Íslendingar höfum sama rétt til þessa lands sem Bandaríkin og aðrar þjóðir yfir löndum sínum, þótt við höfum ekki sama vald á bak við réttinn. Þessum rétti getum við glatað með óvarfærni í samningum. Vitund þjóðarinnar um þetta og dýrkeypt reynsla hennar og lærdómur í margra alda ánauð veldur því, að henni er eins og í blóð runnin varfærni, jafnvel tortryggni, þegar um samninga er að ræða, er veita öðrum þjóðum einhvers konar réttindi í landinu. Og lái henni hver sem vill. En þessi varfærni á að mínu áliti fullan rétt á sér. Ég vil ekki gera upp á milli þess, hvort hættulegra sé okkur Íslendingum: hóflaus ósanngirni og öfgar eða trú og gagnrýnislaust traust á óbreytanlega velvild þjóða. Ég held, að sanngirni samfara varfærni í utanríkissamningum og í samskiptum við aðrar þjóðir sé bezta landvörn okkar. En nú hef ég heyrt ýmsa segja, að það væri ekki sanngjarnt í till. okkar framsóknarmanna að ætlast til þess, að Bandaríkin legðu fram fé til endurbóta á húsum á flugvellinum og til umbóta á honum sjálfum, en við gætum sagt samningnum upp eftir eitt ár, þ.e. verið lausir eftir 21/2 ár. Bandaríkin muni aldrei ganga að því, segja menn. En athugum það, að peningaframlög Bandaríkjanna mundu ekki verða stór fúlga miðað við kostnað af hernámi Þýzkalands og sú áhætta ekki sérlega stór. En ef okkur fellur ekki framkvæmd samningsins í næstu 21/2 ár, getur sú áhætta okkar verið mikil að verða þó að lúta ákvæðum hans í 61/2 ár. Við getum ekkert um það vitað nú, hvaða stjórn og stefna verður ríkjandi í Bandaríkjunum eftir tvennar forsetakosningar, er fram eiga að fara á næstu 6–7 árum, hvert verður viðhorf þessara nýju stjórna gagnvart okkur og öðrum þjóðum, og hvernig verður víðhorfið til framkvæmda á óljósum milliríkjasamningi. Við vitum það ekki. En hins vegar vitum við það, að það er á valdi Bandaríkjanna að gera hinn stutta uppsagnarfrest áhættulausan fyrir sig með skynsamlegri framkvæmd samningsins, enda kynni þvílíkt ákvæði að veita nokkurt aðhald í þá átt. Velvild íslenzku þjóðarinnar til Bandaríkjanna er svo rík hjá meginþorra þegna hennar, að vafalaust er, að þjóðin mundi ekki nota sér uppsagnarákvæðið eftir mjög stuttan tíma, ef henni fellur framkvæmd samningsins þannig, að hún telur sér hann mein- og hættulausan. Til þess að þjóðin breytti á annan veg yrði víðhorf hennar til Bandaríkjanna að gerbreytast, og er það lítt hugsanlegt án þess að á undan sé gengin breyting á framkomu Bandaríkjanna. En komi það í ljós vegna breyttrar stjórnmálastefnu í Bandaríkjunum eða af öðrum ástæðum, sem ekki er okkar sök, hvers vegna skyldum við þá vera bundnir, hvaða skynsemi mælir með því? Það mun og ásannast, að bezt fer á því, að þjóðin viti, að hún getur verið laus við þessa samninga með hæfilegum fyrirvara, og þá fer bezt á því, að hún finni, að henni hefur með samningnum verið tryggt allt það öryggi, sem með samningi fæst, og að henni er treyst. Það er leiðin til þess að ryðja úr vegi þeirri tortryggni, sem ella verður naumast hjá komizt í samningum voldugrar stórþjóðar við smáþjóð — og auðvelt er að auka, ef samningar eru ekki ljósir.

Ég trúi því, að ef Alþ. bæri gæfu til að standa saman um till. okkar og bera þær fram sem tilboð af Íslands hálfu, mundu Bandaríkin fallast á þær. Ef þau gerðu það ekki, er það í ósamræmi við það, sem þau hafa beðið okkur um — og það traust, sem við teljum okkur hafa verðskuldað í síðustu styrjöld. Með því að samþykkja till. veitum við vínveittri þjóð umbeðinn greiða, en höldum þó jafnframt fast á öryggi og rétti Íslands. Og þetta er það, sem ég held, að meginþorri þjóðarinnar vilji, að við fulltrúar hennar hér á Alþ. gerum fyrir hennar hönd.