09.10.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

Þinglausnir

forseti (JPálm):

Háttvirtu alþingismenn. — Þetta aukaþing hefur staðið nokkru lengur en til var ætlazt í upphafi. Má og segja, að það, sem eftir það liggur, sé ekki næsta mikið að vöxtum. En því þýðingarmeiri eru þau mál, sem það hefur haft til meðferðar og afgreitt.

Á fyrri hluta þessa þings var samþykkt, að Ísland skyldi sækja um upptöku í bandalag hinna sameinuðu þjóða, og á síðari hluta þingsins hefur verið samþykktur samningur við stjórn Bandaríkja Ameríku um niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl. Bæði þessi mál hafa valdið miklum ágreiningi, sem kostað hefur verulegan tíma. Mun ég ekki víkja hér að þeirri hlið þessara mála. En um það er ekki að villast, að afgreiðsla þessara mála hefur mikla þýðingu fyrir land okkar.

Að því leyti er ólíku saman að jafna, að samningurinn við Bandaríkin er til nokkurra ára, en hluttaka Íslands í bandalagi hinna sameinuðu þjóða er hugsuð til langs tíma. Vonandi verður hann mjög langur, því að víst er um það, að framtíð þjóðfélags okkar og flestra annarra veltur ekki sízt á því, að þessu merka þjóðabandalagi. auðnist að fullnægja tilgangi sínum og ná því marki að vernda um ár og aldir frið og frelsi, menningu og mannréttindi. Því aðeins er hægt að vonast eftir því, að okkar hrjáði heimur, sem nú flakir í sárum eftir ægilegustu styrjöld sögunnar, geti á komandi tímum notið þeirrar miklu þekkingar, sem nútímamenn hafa öðlazt, og orðið viðunandi verustaður fyrir siðmenntaðar þjóðir.

Ég óska þess einlæglega, að afgreiðsla Alþingis á þeim málum, sem hér hafa verið nefnd, verði Íslandi og þjóð okkar til gæfu. Þá mun brátt gróa yfir þær sprungur, sem deilurnar um þau hafa valdið.

Ég leyfi mér svo að þakka hæstv. ríkisstj., hv. alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis góða samvinnu við mig sem forseta á þessu liðna þingi. Ég óska ykkur öllum til hamingju og gleði á komandi þingi og framvegis.