24.09.1946
Neðri deild: 2. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

14. mál, barnaheimilið Sólheimar

Jörundur Brynjólfsson:

Hæstv. menntmrh. virðist hafa gleymt að leggja til, að málinu yrði vísað til nefndar. Málið er að vísu einfalt, en þó þess eðlis, meðan ástæður eru eigi kunnar, að erfitt er að taka afstöðu til þess. Vil ég og sjá, á hvaða ástæðum þessi brbl. eru byggð, en þær hljóta að vera miklar, úr því að gefin eru út brbl. rétt áður en Alþingi kemur saman. Að svo stöddu mun ég ekki gera till. um, í hvaða nefnd málið skal fara.

Ég mun að svo stöddu ekki fjölyrða um málið. N. mun að sjálfsögðu fá allar þær upplýsingar, sem hægt er að gefa, og þá verður hægt að mynda sér skoðun um þetta mál. En ástæðurnar hljóta að vera brýnar, úr því að málinu er hraðað svo mjög.

Gert er ráð fyrir að taka staðinn leigunámi. En einkennilegt er það, að í fyrri málsgr. 1. greinar er talið upp það, sem leigunámið á að ná til, jörðin, búslóð og annað, sem nota þarf við rekstur heimilisins. Hvað felst í þessu? Mér skilst, að þetta kunni að ná til þess, sem forstöðukonan kann að eiga; annars hefði eigi þurft að taka það fram. Munu eigi slíkir munir fara í hendur þess, sem við tekur? Eða á leigunámið líka að ná til þess, þó að annar eigi? Er þá hæpið, að það sé leigunám, en maður verður að vita, hvað það er.

Ég veit ekki betur en þessi forstöðukona hafi staðið fyrir þessu heimili með sérstakri ósérplægni og dugnaði, og ég held, að af þeim, sem til þekkja, hafi þetta verið talið í góðu lagi. Ég játa, að ég þekki ekki mikið til þessa heimilis og skal ekki mikinn dóm á það leggja af minni hálfu, en ég er búsettur ekki langt frá þessu heimili, og mér þykir einkennilegt, ef stórvægilegar misfellur hafa verið á rekstri þess, að hafa engar spurnir af því haft. Ég vil líka geta þess, að ég er mjög kunnugur einum af þeim, sem mest lafa látið sig varða þetta heimili, og þær fregnir, sem ég hef haft frá honum um það, hafa hnigið í þá átt einnig, að heimilið sé í góðu lagi, en um það skal ég þó ekki dæma að þessu sinni.

Ég vona, að málið verði athugað í n. og upplýsingar fáist um það þar, og bíð einnig eftir skýringum hæstv. ráðh.