22.07.1946
Sameinað þing: 1. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

Rannsókn kjörbréfa

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég get sætt mig við það, að kjörbréfanefnd sú, sem kosin verður, taki til athugunar þessa seðla, sem hér liggja fyrir. Það, sem fyrir mér vakir, er ekki neitt annað en það að reyna að skapa sams konar reglur um allt land. Það er vitanlegt, að sams konar seðlar og látnir eru verða ógildir í Norður-Múlasýslu eru teknir gildir svo að hundruðum skiptir hér í Reykjavík. En ef kjörbréfanefnd sú, sem kosin verður, vill taka þetta til athugunar, hvort ekki er rétt að skapa sams konar reglur um allt landið, þá get ég unað því mjög vel, því að það hefur enga þýðingu nema fyrir framtíðina.