17.05.1947
Neðri deild: 130. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jónas Jónsson:

Ég lýsti yfir því í gær, að ég áliti eðlilegast að vísa þessu máli til ríkisstj. með rökstuddri dagskrá, vegna þess að hér er um svo þýðingarmikið mál að ræða, sem snertir allt landið, hverja sveit og hvern bæ, en ekkert hefur verið um það rætt, þegar það kemur fram í þinglokin. Ég hef þess vegna leyft mér að flytja rökst. dagskrártill. um að vísa þessu máli til hæstv. stjórnar til frekari athugunar og að sú athugun verði að vera undirstaða þess. hvernig ráðið verði fram úr málinu.

Þegar l. um þjóðleikhús og skemmtanaskatt voru samþ., var ákveðið, að allur skemmtanaskatturinn rynni til þjóðleikhússins. og það, sem ég álít, að sé rökrétt hugsun er, að þessu sé haldið áfram. Þegar búið er með þjóðleikhúsið í Reykjavík, þá verði styrkt samkomuhús, sem jafnframt yrðu leikhús, í öllum sveitum og kaupstöðum. Móti þessu hefur menntmrh. risið og menntmn. þessarar d. og hafa þeir hugsað sér það fyrst og fremst að meta það meira að setja á föst laun einhvern tiltekinn hóp manna í Rvík en að láta skattinn renna áfram, eins og verið hefur, til að koma upp húsum. Í þessu liggur það mikla ranglæti, sem hér er stefnt að, og þegar þar við bætist, að málið er alveg óupplýst, lítur út fyrir að hvorki ráðh. né nokkur í n. hafi haft minnstu hugmynd um það, hvernig þessum málum er komið fyrir annars staðar, svo að þetta er hér um bil fordæmalaus aðferð, sem stjórnin hyggst að beita hér. Þetta er sem sé því nær óþekkt fyrirbæri hjá öllum öðrum þjóðum. Og hvernig halda menn, að standi á því, að þessar þjóðir hafa ekki leikara sína á föstum launum? Það er ekki fyrir fátækt, það er af því, að það er álitið óhollt fyrir leiklistina. Það, sem fyrir þeim vakir, er að þeir vilja ekki svæfa leikarana með því að hafa þá á föstum launum. Það hefur meira að segja komið til greina að tryggja þeim eftirlaun, koma á eftirlaunakerfi. svo að í stuttu máli lítur stj. á þetta alveg eins og embætti. Nú er það ein þjóð, sem hefur gert slíka stétt að embættismönnum, og það eru Rússar, sem hafa til þess sínar ástæður, en ekki aðrar þjóðir, að gera hvers konar listamenn — málara og myndhöggvara — að embættismönnum. Ég vil ekki deila um það, hvernig þetta gengur í Rússlandi, ég er þar ekki kunnugur, en hvergi í Vesturlöndum hefur slíkt komið til greina, því að menn þar vilja ekki, að listin líði við það. En af þeirri ástæðu verður að taka það fram nú, að um leið og búið er að samþykkja að verja 45% af skemmtanaskattinum í þjóðleikhúsið hér, er búið að leggja fyrsta steininn í þá byggingu, að þetta verði ríkisrekstur.

Hér í þessari d. eru ýmsir þm., sem eru fyrir kjördæmi utan Rvíkur, og verð ég að segja, að ég hef gaman af því að sjá, hvernig atkv. falla í málinu, þar sem öll rök eru á móti málinu, öll útlend reynsla á móti því og ekki er hægt að koma með neinar frambærilegar skýringar því til framdráttar. Og hér í höfuðstaðnum er ekki vitað, að neinn áhugi sé fyrir því, nema hjá leikurum. Ég hef gaman að sjá þá þm., sem ákveða nú á þessu stigi málsins, að byggja skuli fyrstu tröppuna í þessari byggingu, að skemmtanaskattinum verði frekar varið til að launa menn hér í Rvík en að koma upp samkomuhúsum úti á landi.

Þá vil ég einnig benda á það, að í þessu máli hefur það komið í ljós, að þetta mál er ekki stjórnarmál í þeim skilningi, að stj. hafi samið um það í málefnasamningi sínum eða síðar, heldur virðist það hafa verið barið fram af hálfu menntmrh. að leggja þetta frv. fram sem stjfrv., og kom í ljós við atkvgr., að hér er um nauðungarmál að ræða, sem ég get ekki skilið, að ráðh. hafi ánægju af að koma fram, því að svo dauf var atkvgr. og sýnir, hvernig stefnt er. En orðalagið þarna er þannig, að hæstv. ráðh. hefur flokkslega ekki svo litla ábyrgð í þessum efnum, því að þegar leikhússjóðurinn var stofnaður fyrst, var það fyrir atbeina manna úr Framsfl., og allan tímann fram að þessu hefur Framsfl. stutt þetta mál, ekki sem Reykjavíkurmál sérstaklega, heldur sem skynsamlega tilraun til að leysa vandamálið fyrir Reykjavík og landið allt. En nú, þegar að því kemur, að sá flokkur, sem hefur allt sitt fylgi í Rvík, er búinn að leysa mál Rvíkur, að ljúka við þjóðleikhúsið hér, kemur maður, sem er formaður þingflokks framsóknarmanna — og fór til ráðh. — og vill snúa þessu öllu við. Hann getur ekki verið svo blár að halda, að þeir, sem börðust fyrir þessu, hafi ekki hugsað um Rvík. Rvík væri búin að leysa þetta mál, ef hún hefði getað. En nú kemur sá ráðh., sem hefur mest völdin fyrir dreifbýlið, og segir: Þið skuluð koma niður í 45%. — Ég segi: Þetta er ranglátt og óverðskuldað gagnvart dreifbýlinu og kaupstöðunum að fara svona að.

Ég spái þess vegna því fyrir hæstv. menntmrh., að hann muni litla gleði hafa af sínu mikla dálæti á hinum útlenda byltingaflokki. Hann hefur nú farið þannig að að taka upp mál frá kommúnistum, sem þeir hafa farið með eðlilega frá sínu sjónarmiði, og tekizt að gera það að sínu flokksbarni og gengið á snið við allt, sem gerzt hefur í málinu. Hann ætlar nú að hjálpa til þess, að þegar sveitirnar eru búnar að hjálpa Rvík til þess að fá til sinna nota bezta húsið og veglegasta, sem til er hér á landi, þá verði einhverjum ruðum kastað í dreifbýlið og húsin þar megi vera ómáluð, olíukynt o. s. frv.