17.05.1947
Neðri deild: 130. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en örfá orð vildi ég þó segja. — Mér er nokkuð kunnugt um undirbúning þessa máls og einnig þjóðleikhúsfrv. og félagsheimilafrv., sem sömuleiðis eru hér á dagskránni. Mér er vel kunnugt um það, að verulegur ágreiningur var um það, hve miklum hluta skemmtanaskattsins skyldi verja í þágu félagsheimila og í þágu þjóðleikhússins, en um hitt var enginn ágreiningur, að sama skyldi renna til lestrarfélaga og kennslukvikmynda. Ég hreyfði þeirri hugmynd í sambandi við undirbúning þessa máls, að eðlilegt væri, þegar byggingu þjóðleikhússins væri lokið, að nokkur hluti skemmtanaskattsins rynni til eflingar tónmenntalífs í landinu. Um það virðast ekki skiptar skoðanir, að skemmtanaskattinum eigi að verja til styrktar listamálum ýmsum og menningarmálum, og finnst mér eðlilegt, að tónlistin njóti þar nokkurs góðs af. Þarf ekki að lýsa því, að á því sviði hafa verið unnin þrekvirki, t. d. af hálfu tónlistarfélagsins, sem rekur stóran skóla sem einkafyrirtæki og nýtur lítils styrks frá hálfu hins opinbera. Tónlistarfélagið hefur og haldið uppi mjög svo ágætum hljómleikum hér í höfuðstaðnum og hefur nú á prjónunum ráðagerðir um stofnun fullkominnar symfóníuhljómsveitar, sem verður mjög kostnaðarsöm, og ég held, að ekki verði um það deilt, að eðlilegt væri, að slík styrkveiting yrði tekin upp nú, þegar því hlutverki, sem skemmtanaskattinum upphaflega var ætlað, er lokið, og tekin ný ákvörðun um ráðstöfun á þessu fé. Ég hef hreyft þessari hugmynd við þá, sem mestan þátt áttu í að undirbúa þessi mál, þar á meðal hæstv. menntmrh., sem tók því hið bezta. Hins vegar voru skoðanir mjög skiptar um málið og erfitt að samræma þau ólíku sjónarmið, sem á lofti voru, og óskaði hæstv. menntmrh. eftir því, þegar hann taldi sig hafa náð samkomulagi um það, að sá hluti skemmtanaskattsins, sem ekki rynni til lestrarfélaga og kennslukvikmynda, rynni í sjóð til félagsheimila og þjóðleikhússins, að þessari hugmynd um styrk tll tónlistarstarfsemi yrði ekki hreyft að sinni. Ég féllst á það, að þessu máli yrði ekki hreyft að sinni, í trausti þess, að samkomulag væri um þá till. hæstv. menntmrh. að skipta fénu milli félagsheimila og rekstrarsjóðs þjóðleikhússins. Nú hefur komið í ljós, að þetta samkomulag hefur ekki verið haldið. Hv. þm. Borgf. ber fram till., sem brýtur mjög í bága við þetta samkomulag sem ég taldi, að gert hefði verið, og auk þess bera tveir aðrir fulltrúar Sjálfstfl. fram till., sem breytir þessu hlutfalli, sem ég gerði ráð fyrir. Að sjálfsögðu tel ég og aðrir, sem mestan áhuga hafa fyrir því að styrkja tónlistarstarfsemina, okkur óbundna af þessu samkomulagi, og hefði því vel getað komið til greina, að við létum þennan hug koma skýrt fram með því að bera fram till. um að taka nokkurn hluta skemmtanaskattsins til styrktar tónlistarlífinu. Þó höfum við ákveðið að gera þetta ekki, og byggist það á vilyrði frá hæstv. menntmrh. fyrir því að ljá því liðsinni sitt á næsta Alþ., að tónlistinni verði veittur nokkur hluti af skemmtanaskattinum, og treystum við því, að á næsta þingi fáist sú leiðrétting þessa máls, að skemmtanaskatturinn verði hækkaður nokkuð og þeirri hækkun varið í þágu tónlistarlífsins í landinu.