19.05.1947
Efri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Þessi hugmynd, sem hv. þm. minntist á, hefur mjög komið til umr. við undirbúning málsins. Einn þm. (GÞG), sem hafði nokkra hönd í bagga um undirbúning málsins, hreyfði þessu í Nd. án þess að gera beinlínis till. um málið. Ég hafði hugsað mér, að um leið og þessi breyt. væri gerð á notkun skemmtanaskattsins, sem hér er stungið upp á, væri skynsamlegt að hækka hann nokkuð og koma því svo fyrir, að nokkur hluti þeirrar hækkunar gengi til tónlistarstarfsemi í landinu til viðbótar því, sem verið hefur. En við það að athuga þær fjárhæðir, sem nú fást af skemmtanaskattinum, og þá fjárþörf, sem fyrir hendi var í sambandi við þau málefni, sem tengd hafa verið við hann fram að þessu, fannst mér ekki hægt að taka ákveðinn hundraðshluta handa tónlistinni nema auka skattinn frá því, sem verið hefur. N. getur tekið þetta til íhugunar. En ef við skerðum verulega félagsheimilasjóðinn frá því, sem er ráðgert þarna, er hætt við, að honum gangi erfiðlega að gegna sínu hlutverki. Einnig er hitt, að ef farið er að flytja miklar brtt., t. d. að taka tónlistina þarna inn, gætu fleiri komið með till. um önnur menningaratriði til álita. Niðurstaðan varð því sú, að við höfum ekki viljað opna þetta meir en gert er í till., sem sé að taka einn nýjan lið, félagsheimilin, en ekki meira að svo stöddu. En eins og ég lýsti yfir í Nd., vil ég eiga þátt í undirbúningi fyrir næsta þing, á hvern hátt mætti styðja meir tónlistina en verið hefur t. d. með því að auka skemmtanaskatt á kvikmyndasýningum, sem er ákaflega lágur samanborið við aðra skatta. Ég hafði þá hugmynd, að það mætti hækka þennan skatt nú með tónlistina í huga. En það varð að samkomulagi að blanda slíku ekki inn í þessar breyt. Vildi ég, að taka mætti þetta sem sérstakt mál upp í haust til dæmis.