26.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. N. hefur athugað þetta mál eins og það liggur fyrir frá hv. Nd. T frv. er nú gert ráð fyrir, að 40% af skemmtanaskattinum renni í rekstrarsjóð þjóðleikhússins og verði honum varið eftir l. um þjóðleikhús. en frv. til l. um þjóðleikhús hefur ekki hlotið afgreiðslu á þessu þingi. Þá er einnig gert ráð fyrir, að 50% renni til félagsheimilasjóðs og verði honum varið eftir því, sem mælt er fyrir í l. um félagsheimili, en það frv. hefur ekki heldur verið afgr. Og 10% af skemmtanaskattinum renni til lestrarfélaga og kennslukvikmynda.

Breyt. frá gildandi 1. sem í þessu frv. felst, er einkanlega sú, að skemmtanaskattinum, sem til þessa hefur runnið til byggingar og rekstrar þjóðleikhússins að öðru leyti en þessi 10% til lestrarfélaga og kennslukvikmynda, skuli nú einnig varið til félagsheimila. Það er því hér um verulega breytingu að ræða, sem felst í frv. og það hafa komið ýmsar till. um það hvernig eigi að verja þessum skatti. Þetta hefur orðið niðurstaðan, að 2. gr., eins og hún er í frv. nú frá hv. Nd., ákveður, að l. um skemmtanaskattinn frá 1927 skuli falla inn í þessi l. um skemmtanaskatt, ef frv. verður að 1.. og heita l. um skemmtanaskatt, rekstrarsjóð þjóðleikhúss, félagsheimilasjóð o. fl.

Breyt. n. er einungis út af því, að hún vill breyta nafni í þessu frv. eða l. frá 1927, og þess vegna leggur n. til að 2. gr., eins og hún er nú, falli niður en á eftir 3. gr. komi ný gr. svohljóðandi: „Þegar l. þessi hafa öðlazt staðfestingu, skal fella meginmál þeirra inn í l. nr. 56 1927 og gefa þau út svo breytt með fyrirsögninni: Lög um skemmtanaskatt, rekstrarsjóð þjóðleikhúss, félagsheimilasjóð o. fl.“

Það er sem sé engin efnisbreyting á frv. frá því, sem hv. Nd. lagði til. En n. þótti ekki fært að breyta l. frá 1927 öðruvísi en með því að ákveða í þessu frv. að prenta l. frá 1927 upp og fella þessa breytingu inn í meginmál þeirra.

N. er sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. með þessum formsbreytingum, og tel ég ekki ástæðu til þess að fara um það fleiri orðum.