22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Eins og ég sagði hér við 1. umr. þessa máls, þá er búið að leggja ákaflega mikla vinnu í það að fá sem mest samkomulag um skiptingu skemmtanaskattsins, og hefur verið genginn í því langur jafnvægisgangur, sem endaði með því, að þau hlutföll voru sett, sem í frv. eru.

Það voru ýmsir, sem töluðu við mig um aðra skiptingu skemmtanaskattsins en er í frv. Það voru tveir hv. þm., sem vildu taka til tónlistarstarfsemi, aðrir vildu hækka hlutann til kennslukvikmynda og til þess að styðja lestrarfélögin. Enn aðrir hv. þm. vildu þá nota tækifærið til þess að hækka styrkinn til menningarsjóðs. og jafnvel enn aðrir vildu fá eitthvað af þessum hundraðshluta til bókmenntastarfsemi. Það var rætt fram og aftur um þetta, þar til þm. voru orðnir sannfærðir um, að réttast væri að reyna að skipta þessum skatti aðeins á milli þeirra aðila, sem í frv. greinir, og setja ekki þar inn neina nýja liði.

Nú vildi ég óska þess, þótt ég búist ekki við því, að það þýði nokkuð, að hv. þm. Barð. taki brtt. aftur. Annars vildi ég fara fram á það við hv. dm., að þeir felli þessa brtt. Ég vildi svo athuga það í samráði við hv. flm. brtt., hvað hægt er að gera til næsta þings fyrir tónlistarstarfsemina.

Ég vil líka benda á, að ég álít, að efni brtt. hafi ekki verið nógu vel athugað, því að þar er gert ráð fyrir, að ráðh. setji þar einn reglur um. Það er dálítið vafasamt að hafa það svo, og ég álít, að þetta þyrfti meiri athugunar við.

Ég vil því skora á hv. dm. að standa að þessu frv. óbreyttu og blanda ekki þarna inn í nýjum lið. Og er það ekki vegna þess, að ég sjái ekki nauðsyn þess að styrkja ýmsar fleiri greinar en þarna eru teknar með, heldur af því, að við höfum samið um þetta svona, og ef við færum nú að bæta fleiri liðum inn í, er hætta á, að við missum þetta allt úr höndum okkar.