22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég sé mér ekki fært að taka aftur brtt. og held mjög fast við það að óska þess, að hv. dm. sjái sér fært að samþykkja hana. Ég fæ ekki annað skilið en að það sé sanngjarnt að 5% af því, sem á að renna til félagsheimilanna, verði látið renna til tónlistarstarfsemi í landinu eftir nánari reglum, er ráðh. setur. Það er rétt, að ég hef ekki gert annað en að tiltaka þetta eftir nánari ákvörðun ráðh., og það var af því, að ég bjóst við, að menntmn. sýndi þessari list þá almennu kurteisi að taka til athugunar og ræða þetta mál. En hv. frsm. n. hefur ekki talið hana þess virði að verða þeirrar kurteisi aðnjótandi.

Til forseta vil ég segja það, að fyrst verður að sjálfsögðu borin upp brtt. um lækkun til félagsheimila, og ef hún fellur, þá er hin fallin af sjálfu sér, því að ekki er hægt að greiða út 105%. (Forseti (ÞÞ) : Það hefur forseti athugað.) Hún afmarkar alveg, hvort þm. vilja leggja 5% til tónlistarstarfsemi í landinu eða ekki.