13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

239. mál, þjóðleikhús

Frsm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta mál til meðferðar og rætt það við ýmsa aðila, þar á meðal við menntmrh., formann rekstrarnefndar þjóðleikhússins og formann útvarpsráðs. N. varð sammála um, að nauðsynlegt væri nú á þessu þingi að setja l. um þjóðleikhúsið. Svo langt er komið byggingu þess húss, að byggingarnefnd gerir ráð fyrir, að það geti að forfallalausu tekið til starfa síðla á þessu ári eða um næstu áramót. Það eru hins vegar fjölmörg atriði í sambandi við rekstur þjóðleikhússins, sem þarfnast mikils undirbúnings, og því er nauðsynlegt að fá reglur settar um rekstur þess í framtíðinni. Þess vegna er það, að hæstv. menntmrh. hefur flutt þetta frv. og í verulegum atriðum byggt það á þeim till., sem fyrir lágu frá rekstrarnefnd þeirri, sem skipuð hefur verið til þess að undirbúa reglur um starfsemi þjóðleikhússins. Hins vegar mun það vera álit menntmn. og ráðh., að um rekstur þjóðleikhússins verði reynslan að skera úr um margt, ekki sízt varðandi fjárhagshlið málsins. Virðist mér hæstv. ráðh. hafa breytt fyrst og fremst þeim atriðum frá till. rekstrarnefndar, sem um fjárhagslega hlið málsins fjalla. Ætla ég þá ekki að hafa lengri inngang að þeim brtt., sem menntmn. hefur lagt til.

Fyrsta brtt. er við 2. gr., að orðalag verði gert nokkru skýrara. Í frv. ríkisstj. er svo komizt að orði, að þjóðleikhúsið skuli og annast flutning leikrita í útvarpið. sbr. 10. gr. Á það var bent, að skilja mætti þetta þannig, að hlutverk leikhússins væri að annast algerlega flutning leikrita í útvarpinu. Nú hefur þetta aldrei verið meiningin, hvorki hjá rekstrarnefnd né menntmrh. Menntmn. þótti því rétt að gera orðalagið ljósara og leggur til, að síðasta málsgr. gr. verði orðuð eins og segir í brtt., þar sem segir skýrt, að ekki skuli vera hlutverk leikhússins að annast þetta algerlega, heldur skuli það gert í nánu samstarfi milli ríkisútvarpsins og þjóðleikhússins, og kem ég nánar að því síðar.

2. brtt. er við 3. gr., að feila orðin í 2. málsgr. brott: „bæði fjárhag þess og efnisvali“. Nægilega skýrt þótti kveðið á um þetta í fyrri hluta setningarinnar, þar sem segir: „Hlutverk þjóðleikhúsráðs er að hafa eftirlit með starfsemi og rekstri þjóðleikhússins.“

Þá er b-liður brtt. við þessa gr., þar sem lagt er til, að niður verði felld setningin um skyldur leikara til að taka endurgjaldslaust þátt í flutningi leikrita, sem útvarpinu eru látin í té. Um þetta er greinilega tekið fram í 10. gr., þannig að það þótti eðlilegast, að þau ákvæði væru í þeirri grein einni. N. hefur því lagt til. að þessi setning verði felld niður. Í samræmi við það hefur n. fært 3. og 4. málsgr. saman í eina málsgr. og breytt nokkuð orðalagi, en efni hennar er hið sama.

Þá er brtt. n. við 5. gr. frv. Þar er lagt til, að við 5. gr. bætist ný málsgr., sem sé að efni til mjög svipuð 2. málsgr. frv. þess, sem rekstrarnefnd samdi, sem þm. hafa átt kost á að kynna. sér. Ræðir þar um að gefa fastráðnum starfsmönnum þjóðleikhússins kost á að njóta eftirlaunaréttar, en ráðh. ákveður réttindatíma hvers og eins, að fengnum upplýsingum og tillögum félags íslenzkra leikara. Í till. rekstrarnefndar er talað um, að leikendur leikhússins skuli njóta eftirlaunaréttar. N. hefur leitað upplýsinga um þetta hjá tryggingafræðingum lífeyrissjóðs ríkisins og Tryggingastofnun ríkisins og varð af þeim upplýsingum sammála um að flytja þessa brtt. Samkv. l. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eiga starfsmenn ríkisins kost á að kaupa sig inn í sjóðinn með því að greiða ákveðin iðgjöld aftur í tímann. N. taldi ekki rétt að sporna gegn því, að starfsmenn þjóðleikhússins, sem fastráðnir eru, gætu átt þess kost að öðlast þessi réttindi. Ekki er um að ræða, að ríkissjóði séu gerð nein útgjöld með þessu, eða lítil líkindi eru til þess, því að fyrst og fremst er að ræða um það, að menn öðlist rétt til þess að kaupa sig inn í sjóðinn samkv. þeim reglum, sem gilda almennt um möguleika starfsmanna ríkisins til þess, samkv. 12. gr. l. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Þá er 4. brtt. n. Þar er lagt til, að nokkuð verði breytt orðalagi frv. um samstarf milli þjóðleikhússins og ríkisútvarpsins og gert skýrara. Er tekið fram, að þjóðleikhúsið skuli láta ríkisútvarpinu leikrit í té til flutnings, eftir því sem samkomulag verður um milli þjóðleikhússtjóra og útvarpsráðs. Í frv. stjórnarinnar var gert ráð fyrir, að þjóðleikhússtjóri og formaður útvarpsráðs veldu í sameiningu leikritin. Enn fremur er tekið fram, að starfsmönnum við þjóðleikhúsið beri ekki þóknun fyrir útvarpsflutning né leiksýningar utan Reykjavíkur. Þannig eru ákvæði 3. gr. frv. um skyldur starfsmanna þjóðleikhússins teknar upp í 10. gr.

Að lokum er svo 5. brtt., sem er aðeins smáorðabreyt. Þar er lagt til, að ef afgangur verður af tekjum þjóðleikhússins, verði hann lagður í rekstrarsjóð þess, í stað þess að í frv. stj. var nefndur í því sambandi varasjóður þess. N. fannst rétt, að þar sem í frv. eru engin ákvæði um varasjóð þjóðleikhússins, rynni slíkt fé beint í rekstrarsjóð þess. Ef um varasjóð væri að ræða, yrði hann skoðaður sem nokkurs konar hluti af rekstrarsjóðnum. Er þetta því ekki ýkjamikil efnisbreyt.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim efnisbreyt., sem n. vill gera á frv. Um meginstefnu frv. vil ég annars segja það, bæði fyrir hönd menntmn. og sem mína persónulegu skoðun, að jafnan mun hafa verið um það rætt, að þjóðleikhúsið yrði ríkisstofnun, og það af þeim mönnum, sem fremstir hafa staðið í forustu fyrir byggingu þess og þar á meðal er hv. þm. S-Þ. Ég hygg það væri mjög hæpið spor nú, þegar þjóðleikhúsið er í þann veginn að rísa fullbúið til starfa, að fá það í hendur fátækum og fámennum samtökum Félags íslenzkra leikara til að halda því að öllu leyti uppi fjárhagslega. Vegur og vandi af því stóra fyrirtæki, sem ekki einungis Leikfélag Reykjavíkur og íslenzkir leikarar yfirleitt, heldur öll þjóðin, á mikið undir, að vel og myndarlega fari af stað, er svo mikill, að tryggja verður sem bezt rekstur þess frá upphafi. Ég held þess vegna að menntmn. og hæstv. ríkisstj. séu aðeins að halda áfram sömu stefnu, sem fyrir löngu hefur verið mörkuð í þessu efni, þegar lagt er til, að þjóðleikhúsið verði ríkisstofnun. Og þó að hægt sé að benda á, að í öðrum löndum, bæði Englandi og fleirum, reki einstaklingar og einkafélög þjóðleikhús, er ólíku saman að jafna við aðstöðuna í okkar höfuðborg, sem ekki hefur svo miklu úr að spila frá einstaklingum til að standa undir jafnstórfenglegu menningarfyrirtæki og þjóðleikhúsið verður að skoðast. Ég vil svo endurtaka, að það verður aðeins reynslan, sem fær úr því skorið, hvernig fjárhagshlið þessa máls verður leyst. Það eru fjölmörg atriði, sem erfitt er að fullyrða um fyrir fram. En jafnhliða því, að ég tel, að sníða verði rekstur þjóðleikhússins við fjárhagslegt bolmagn þjóðarinnar, álít ég einnig, að ekki megi um of skera við nögl það fé, sem varið er til þess að þessi stofnun verði sem myndarlegust. Til þjóðleikhússins standa miklar vonir, og á bak við liggur óeigingjarnt starf íslenzkra listamanna og leikenda. Íslenzk leiklist hefur þróazt við mjög erfiðar aðstæður og ekki orðið fjárhagslegur ágóði fyrir þá, sem að henni hafa starfað, en orðið mikils virði fyrir það fólk. sem hefur átt kost á að kynnast þeirri list.

Ég læt að lokum í ljós þá ósk menntmn., að gifta megi fylgja þessu merkilega menningarfyrirtæki og að Alþ. auðnist að afgreiða þetta mál í samræmi við það, sem á undan hefur gerzt í þessu máli, þann dugnað og áhuga, sem hefur mótað mjög lengi baráttuna fyrir þjóðleikhúsinu — þann hugsjónaeld, sem hefur brunnið mörgum forystumönnum þessa máls í brjósti.

Leyfi ég mér að óska, að málinu verði að lokinni umr. vísað til 3. umr.