17.05.1947
Neðri deild: 130. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

239. mál, þjóðleikhús

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef á þskj. 851 borið fram nokkrar brtt. við frv. til l. um þjóðleikhús og mun gera grein fyrir þeim með nokkrum orðum. — Fyrsta brtt. er við 1. gr. frv. og er a-liðurinn þess efnis, að í stað „ríkisstofnun“ komi: sjálfseignarstofnun. Í samræmi við þetta ber ég fram brtt. undir b-lið um það, að ríkisstj. skuli afhenda stofnuninni þjóðleikhúsið fullgert að innan og utan ásamt nauðsynlegum leikhúsútbúnaði og tveim kvikmyndasýningarvélum. skuldlausu og kvaðalausu, eigi síðar en í árslok 1948. Ég tel miklu eðlilegra, að þessi stofnun sé sjálfstæð, í stað þess að skella þessum rekstri yfir á ríkið og hafa ríkisrekstur á stofnuninni.

Önnur brtt. er um tekjustofna þjóðleikhússins. Ég tel heppilegast og öruggara fyrir þjóðleikhúsið, ef fjárhagurinn er markaður við það, að húsið hafi ákveðnar tekjur. Í fyrsta lagi það, sem húsið gefur af sér, þegar það er leigt út eða á annan hátt; í öðru lagi lögákveðinn hluta skemmtanaskatts og það, sem inn kemur fyrir selda aðgöngumiða; í þriðja lagi áheit, gjafir og aðrar óvissar tekjur; og loks, ef reksturinn verður í sæmilegu horfi, að veitt verði til þess með framlagi á fjárl. eða öðrum fjárveitingum. Ég hygg, að langflest slík hús sem þetta séu rekin sem sjálfseignarstofnanir, og þær eiga fullkomlega að geta þrifizt með fullu tilliti til afkomumöguleikanna. Þá geri ég ráð fyrir eftirliti ríkisvaldsins, þar sem þetta er þjóðleikhús, og það lúti þannig yfirstjórn menntmrh., og held ég, að það geti fullkomlega samrýmzt þessari tilhögun. Þetta er líka fjárhagsatriði varðandi það, hvernig húsið er rekið og rétt og eðlilegt, að það lúti menntmrh., þó að það sé sjálfseignarstofnun.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir, að þjóðleikhúsið annist flutning leikrita í ríkisútvarpið. sbr. 10. gr., og leiki utan Reykjavíkur. Ég legg til, að 3. liður og síðasta málsgr. 2. gr. falli burt. Ég dreg það mjög í efa, að rétt sé að hafa leikskóla í sambandi við þjóðleikhúsið. Það má að vísu gera ráð fyrir, að þangað veljist beztu kraftarnir á þessu sviði, en mér er kunnugt um það, að leikskólar eru ekki alltaf í sambandi við ríkisstofnanir á þessu sviði. Hér hefur verið rekinn leikskóli af prívatmanni, sem hefur gefizt mjög vel, það vel, að t. d. 2 Íslendingar hafa skarað mjög fram úr og öðrum var t. d. boðið ásamt 4 öðrum til Hollywood, sem hann þó þáði ekki. Í beinu áframhaldi af þessu er það. að ég geri ráð fyrir. að leikararnir verði ekki ráðnir nema til eins árs í senn. Þjóðleikhúsið á ekki að vera nein próventustofnun, heldur á að velja úr þá hæfileikamenn, sem skara mest fram úr á hverjum tíma. Það væri bagalegt, ef þessi ungi Íslendingur. sem átti kost á að fara til Hollywood ásamt 4 öðrum, kemur heim, þá væri búið að ráða alla leikarana til 5 ára, það væri óeðlilegt og óskynsamlegt, að hann hefði þá enga möguleika til að fá þá stöðu, sem hann vegna hæfileika sinna ætti kröfu á, í næstu 5 ár. Það er sagt, að þeir leikarar, sem standa að frv., hafi talið það nauðsynlegt, að menn væru ekki ráðnir til skemmri tíma, vegna þess að þeir vildu annars ekki sleppa sinni atvinnu. Þetta er skiljanlegt sjónarmið, en það hefur verið svo, að allt eru það áhugamenn, sem iðkað hafa leiklist hér, sem talin er standa öllum vonum framar þrátt fyrir erfiða aðstöðu og aðbúð. Atvinnuleikarar hafa ekki verið hér, — og því er ekki hugsanlegt, að það séu áhugamenn í sambandi við þjóðleikhúsið? Ég fæ ekki skilið, að það þurfi fasta leikara til svo langs tíma. Það mun áfram verða mest áhugalið, sem leiklist stundar, en ekki menn, sem hafi þær tekjur af því, sem þeir geti lifað af. Því hef ég borið fram þá brtt., að leikararnir séu ekki ráðnir nema til eins árs í senn, og þeir séu ekki ráðnir af þjóðleikhússtjóra, heldur af þjóðleikhúsráði, sem ég geri ráð fyrir, að sé kosið hlutfallskosningu, 2 af Alþ., 2 af bæjarstjórn Reykjavíkur og einn af Leikfélagi Reykjavíkur, allir til tveggja ára í senn og skipi menntmrh. form. Ég tel eðlilegra, að þessir opinberu aðilar kjósi 4 menn, en þeir séu ekki skipaðir af menntmrh. og einnig, að þetta ráð ráði leikarana. Í sambandi við síðustu málsgr. 2. gr., um ríkisútvarpið, álít ég, að þetta eigi ekki að vera í l. Það getur vel verið, að reynslan verði sú, að þessir leikarar flytji leikrit í útvarpið, en það á ekki að vera í l., heldur er þetta ráðningaratriði. Ráðið setur sín skilyrði í ráðningarkjörin og þar á þetta að koma. Það er alls ekki víst, að aðstæður séu þannig eitt árið eða lengri tíma, að ráðið óski eftir, að þessir menn flytji leikrit í útvarpið, en þá á það að koma fram í ráðningarkjörunum, en á ekki heima í l. Þetta kemur til athugunar, þegar ráðið ræður leikarana, en á ekki að lögbindast. Sem afleiðing af till. um. að menn séu ekki ráðnir nema til eins árs, legg ég til, að 5. gr. falli niður. Ég legg enn fremur til, að 6. gr. verði breytt, og geri ég það að till. minni, að leikritan. verði kosin af þjóðleikhúsráði. Mér finnst það eðlilegt að ráðið, sem fylgist með öllum rekstri hússins, skipi þessa n. Það má vel vera, að það verði sama og 6. gr. er nú, en það þarf ekki að vera bezt að hafa það lögbundið. Þá er heldur ekki víst, að þjóðleikhússtjóri sé vel til þess fallinn að vera í leikritanefnd. Hann getur verið prýðilega fallinn til að vera framkvæmdastjóri fyrir þjóðleikhúsinu, en þarf ekki að hafa þá hæfileika, sem þarf til að eiga sæti í þessari n. Hann þarf ekki að vera vel að sér í leikbókmenntum, þó að hann væri duglegur framkvæmdastjóri, sem hlýtur að vera fyrsta krafa, sem gerð er til hans. Þess vegna legg ég til, að n. verði kosin af þjóðleikhúsráði, og er það þá opið, hvort þjóðleikhússtjóri á þar sæti eða ekki.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim brtt., sem ég hef flutt, og eru það aðallega tvö meginatriði, sem í þeim felast. Í fyrsta lagi að þjóðleikhúsið sé sjálfseignarstofnun, og að það hafi möguleika til að starfa sem slíkt, eftir að hafa fengið húsið skuld- og kvaðalaust og með öllum leikútbúnaði, og þá býst ég við að starfsemi þess verði það vel rekin, að það geti staðið undir sér fjárhagslega og í öðru lagi að hafa ekki eins fast samband milli leikaranna, svo að það sé tryggt, að þjóðleikhúsráðið geti alltaf skipt um leikara, þegar því sýnist, að það hafi betri tækifæri til að fá það, sem bezt er fáanlegt á hverjum tíma.