17.05.1947
Neðri deild: 130. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

239. mál, þjóðleikhús

Frsm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Menntmn. hefur á fundi í morgun tekið til athugunar brtt. hv. 2. þm. Eyf. Það varð samkomulag í n. að ganga nokkuð til móts við eina brtt., þá, sem fjallar um starfstíma leikara. Varð samkomulag um það í n. að leggja til, að í 3. málsgr. 3. gr. verði á undan orðunum „fimm ára“ bætt inn „allt að“, svo að upphaf gr. verður þá: „Þjóðleikhússtjóri ræður fasta leikara til allt að fimm ára í senn“ o. s. frv. Með þessari breyt. er því ekki endanlega slegið föstu, að allir leikarar séu ráðnir til 5 ára, heldur allt að 5 ára, svo að það er á valdi þjóðleikhússtjóra og ráðherra, hve langur ráðningartíminn er hverju sinni, þó að hin almenna regla sé 5 ár. Þá flytur hann einnig nokkrar brtt., sem varða skipulag þessa máls, sem ég vil fara nokkrum orðum um fyrir hönd n., en hún mælir eindregið gegn því, að þær verði samþ.

Fyrsta brtt. gerir ráð fyrir því, að þjóðleikhúsið sé sjálfseignarstofnun. Hv. flm. sagði, að fleiri leikhús væru rekin sem sjálfseignarstofnanir í nágrannalöndum okkar. Við þetta er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi það, að því fer fjarri, að flest þjóðleikhús séu sjálfseignarstofnanir á Norðurlöndum. Í Danmörku er Konunglega leikhúsið ríkisstofnun, í Noregi og Svíþjóð eru þau sambland af ríkisstofnun og félagsrekstri. En svo verður að gæta þess, að það er gerólíku saman að jafna milli Íslendinga og ríkra og fjölmennra þjóða. Það fer vart fram hjá hv. flm., að mikill munur er á Leikfélagi Reykjavíkur og aldagömlum samtökum úti um stórborgir heimsins. Þetta sýnir, hve það er eðlilegt, að Íslendingar eiga enga svo fjáröfluga stofnun eða samtök, sem geti tekið við þessu, enda hefur alltaf verið reiknað með því, að leikhúsið yrði rekið sem ríkisstofnun, en það, sem hér hefur verið sagt, er aðeins einhver sparnaðarandi frá mönnum, sem ekki hafa sýnt sig að vera neinir sparnaðarfrömuðir, eins og t. d. hv. þm. S-Þ., sem sýnt hefur samtökum leikara lítinn sóma. Aðrar brtt. hv. þm., sem eru afleiðing af þessari fyrstu, þarf ég ekki að ræða um, þar sem ég hef sýnt fram á, hve ólíku er þar saman að jafna hjá okkur og hinum fjölmennu þjóðum og ríku. Um aðra brtt., um tekjur stofnunarinnar, er það að segja, að þeim er engan veginn lokað, þó að leikhúsið sé ríkisstofnun. Það er hverjum manni frjálst að heita á leikhúsið eða færa því gjafir, og sé ég enga ástæðu til að taka þetta ákvæði upp.

Þá er till. um nýskipun þjóðleikhúsráðsins. Hv. flm. leggur til að í stað þess, að menntmrh. skipi 4 menn eftir tilnefningu fjögurra stærstu stjórnmálaflokkanna á Alþ., þá séu 2 kosnir af Alþ., en 2 af bæjarstjórn Reykjavíkur. Mig undrar stórlega, að þessi till. skuli hafa komið fram. Það hefur aldrei verið rætt um þjóðleikhúsið sem bæjarstofnun fyrir Reykjavík, heldur fyrst og fremst sem alþjóðlega menningarstofnun. Þess vegna er það eðlilegt, að Alþ. skipi að mestu þetta ráð, en að einstök bæjarstjórn eigi þar hlut að máli. fær vart staðizt. Þjóðleikhúsið hefur frá fyrstu tíð verið hugsað sem alþjóðarstofnun, og þess vegna á Alþ. sem fulltrúi þjóðarinnar að fjalla um stjórn þess, en ekki einstakar bæjarstjórnir. Í þessari brtt. er einnig sú brtt., sem ég minntist á áðan, varðandi ráðningarkjör leikara. Það er álitamál, til hve langs tíma það á að vera. Ég hefði fellt mig við styttri tíma, en ég held, að engin hætta felist í þessu, það er á valdi ráðh., hve margir leikarar starfa við húsið, og eftir brtt. n., sem ég gat um áðan, er ráðningartíminn einnig frjáls. En það er talið erfitt að fá leikara, ef þeir eru ráðnir til skemmri tíma. Þeir hafa allt fram að þessu stundað leiklistina sem aukastarf og eiga því erfitt með að fara úr fastri vinnu, ef þeir eru aðeins ráðnir til eins árs. Sú skoðun hefur komið fram, að hægt sé að reka þjóðleikhúsið með áhugaleikurum eingöngu. Það dreg ég mjög í efa, en æskilegt er, að ekki verði haldið uppi svo fjölmennu starfsliði, að það beri fjárhag stofnunarinnar ofurliði. Ég er sannfærður um það, að eftir því sem fleiri fastir leikarar eru ráðnir við leikhúsið, því þróttmeiri verður starfsemi þess. Ef menn geta gefið sig óskiptir að einhverri liststarfsemi, þá hafa þeir betri skilyrði til þess að fullkomna list sína og þroska en ef þeir verða að gegna margs konar störfum öðrum, sem ef til vill taka meiri hlutann af starfsþreki þeirra. Ég held þess vegna, að sú brtt., sem menntmn. flytur hér, leysi það, sem fyrir mönnum vakir í þessu efni, sem sagt, að ekki sé rétt að fastbinda það, hvað marga leikara skuli ráða til langs tíma. Ég held það leysi fullkomlega það vandkvæði, að ef búið er að ráða marga fasta leikara og svo koma ungir og efnilegir leikarar erlenda frá, og þá er ekkert rúm fyrir þá. Ég hygg, að ef þessi háttur verði hafður á, þá þurfi ekki að óttast örðugleika af þessum ástæðum. Hins vegar sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt.

Varðandi 6. brtt., um umorðun á gr. frv. um leikritanefndina, þá fæ ég ekki betur séð en að hún sé út í bláinn. Þar er sagt, að við þjóðleikhúsið skuli starfa leikritan., sem kosin sé til eins árs. Það er ekkert sagt um það, hvernig þessi n. skuli skipuð, hverjir skuli eiga sæti í henni, hvort það skuli vera þjóðleikhússtjóri, leikstjóri, „senuverðir“ eða tjaldamálarar. Það er sem sagt ekkert um það sagt, hverjir skuli vera í þessari n. Ég tel miklu skýrara kveðið á um þetta í sjálfri gr. frv. og tel ekki til bóta, að þessi brtt. verði samþ. Ég ítreka það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að menntmn. hefur haft þessar till. til gaumgæfilegrar athugunar, og niðurstaðan er sú, að hún leggur til, að allar þessar brtt. verði felldar. Aftur á móti ber n. fram þá brtt., sem ég hef lýst, og leyfi ég mér að afhenda hana hæstv. forseta og óska eftir afbrigðum fyrir hana.