17.05.1947
Neðri deild: 130. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

239. mál, þjóðleikhús

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki hætt við, að hæstv. menntmrh. hafi gert sinn málstað betri með síðustu ræðu sinni. Hann þykist hafa lagt mikla vinnu í undirbúning þessa máls, en hann á enga vinnu hér á bak við og sést það bezt, ef athugað er frv. sjálft og fskj. þess. Þar er ekkert orð um kostnaðarhliðina, sem væri þó auðvelt að hafa með, en þetta er eingöngu af því, að málið er svo vont, að ef lagðar væru fram sannar skýrslur fyrir þm., sem nú fylgja málinu, en nauðugir þó, þá mundu þeir alls ekki fylgja því. ef þeir þekktu hinar réttu heimildir. Og svo er hæstv. menntmrh. á móti þeirri till. hv. 2. þm. Eyf., að þjóðleikhúsið fái að standa sjálft undir sér. Hvers vegna á Reykjavíkurbær að sleppa við að leggja nokkuð fram til rekstrar þess?

Hæstv. ráðh. gerði mér þann greiða að svara hv. þm. N-Ísf., þó að ég hefði gert það nægilega. Það vildi svo til, að rógur hinna vesælu manna í leikarastétt um mig hafði náð eyrum ráðh., þó að hann segist ekki vera kunnugur þeim mönnum, og ég vil beina því til hv. þm. N-Ísf., að ástæðan til þess, að ég nefndi þetta, var það fleipur hans, að ég hefði móðgazt í veizlu hjá leikurum. Í hverju hefur það sézt? Hef ég ekki í 20 ár unnið að framgangi þjóðleikhússins? En úr því að hv. þm. N-Ísf., sögumaður hans og það tríó leggst svo lágt, þá skal ég svara þeim betur, ef hann lætur mig ekki hlutlausan. Þeir mega ljúga á mig, en ég má verja mig.

Það er óþarfi fyrir hæstv. menntmrh. að kenna í brjósti um mig í þessu sambandi. Ég hef venjulega getað klárað mína hluti sjálfur, þó að hann hafi viljað vera minn mótstöðumaður. Ég hef þá stefnu, að gott leikhús eigi að vera hér í Reykjavík, af því að ég hef gert ráð fyrir, að leiklistin nyti sín betur í betri húsakynnum. Mín synd í hans augum er nú sú, að ég álít, að leikhúsið fái betur staðizt með stuðningi Reykjavíkurbæjar. Mín synd er sú, að ég vil koma upp byggingum, sem þroski þjóðarinnar getur notið sín í. Ég var með því að koma upp sundhöllinni í Reykjavík og sundlaugum úti um land, og þeim málum var hrundið í framkvæmd af mér með stuðningi margra góðra manna. Ég er sjálfur lélegur sundmaður og lærði í moldarpolli, en það kemur ekki þessu máli við. Ég hef í þessu efni reynt að gera það, sem ég hef álitið, að þjóðinni í heild væri fyrir beztu. Og eins er það, að ég vil gott leikhús í Reykjavík, en mér er það bara ekki nóg, ég vil samkomuhús og leikhús úti um allt land. Hæstv. ráðh. sigrar mig kannske í þessu máli í dag, eins og Ásgeir Ásgeirsson sigraði 1932. Þá beið ég og tók ósigrinum. En nú er bara það, að hæstv. menntmrh. þorir ekki að ganga út í eldinn.

Hvers vegna á t. d. Akureyri að vera með sínar leiksýningar á lofti yfir skrifstofum? Þar eru ágætir leikarar. Þessir herrar segja að leiklistarfélag á Akureyri geti fengið 40% af byggingarkostnaði, ef byggt er smáskýli, en ef bærinn er með í fyrirtækinu, þá verður að meta allt upp að nýju. Nú segi ég eins og 1932: Við skulum bara bíða og sjá, hvort þetta lagar sig ekki sjálft, þegar reynslan er búin að fella sinn dóm. Leikhúsið hér hefur sömu áhrif og sundhöllin. Fólk úti um land mun neita að sitja áfram á sömu niðurbrotnu bekkjunum og það sætti sig við, á meðan Reykvíkingar höfðu ekki annað en Iðnó. Nú vill það líka eitthvað betra og það verður ekki hægt að halda við núverandi þrældómsástandi úti um land með því að veita styrk til smáhreysa, heldur munu menn þar heimta sinn hlut að tiltölu við Reykjavík. Hæstv. menntmrh. á sína forgöngumenn, Jón Magnússon frá 1924 og Ásgeir Ásgeirsson frá 1932, og þeir hafa litla frægð hlotið af sinni afstöðu, bæði lifandi og dauðir. Hæstv. ráðh. beygir sig með undirgefni fyrir áróðursmönnum úr Reykjavík, en það mun fara fyrir honum eins og þeim, er ætluðu að gera sundhöllina að bruggstöð á sínum tíma. Hann mun nú koma þessu í gegn gott og vel, en hann verður að beygja sig fyrir lífsreynslunni, þótt seinna verði, eins og með flugvellina, og það má hann vita, að vel verður tekið eftir því. sem gerist í þessum efnum.