17.05.1947
Neðri deild: 130. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

239. mál, þjóðleikhús

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og ég lýsti í ræðu minni í dag, hef ég borið fram brtt. í þessu máli, sem hefur verið tekið illa af hv. þm. N-Ísf. og hæstv. menntmrh. Og ég skil ekki, að hv. menntmn. og hæstv. ráðh. skuli ekki sjá það í till. mínum, er gæti orðið til bóta fyrir þetta frv. Það má sjálfsagt deila um það, hvort svona stofnun á að vera ríkisrekin eða sjálfseignarstofnun undir eftirliti ráðh. Í Danmörku er þjóðleikhúsið ríkisrekið, en ekki í Noregi og Svíþjóð, þar eru þjóðleikhúsin að nokkru leyti sjálfseignarstofnanir. En ef slík stofnun á ekki að geta staðið undir sér fjárhagslega, þar sem allt er lagt upp í hendurnar á henni, þá er það ofvaxið mínum skilningi, og yrði hún sjálfsagt að vera ríkisrekin til þess, því að ekki hefur fengizt hér svo góð reynsla af ríkisrekstri, því að viðkvæðið er jafnan, úr því að ríkið rekur þetta, hvað gerir þá til með kostnaðinn. Ef leikhúsráð og stjórn þess veit hins vegar, að hagur og gengi leikhússins á að vera komið undir því, hvernig það er rekið, hagkvæmt eða óhagkvæmt, og gjaldaáætlun þarf að miða við tekjuáætlun, þá verður afstaðan önnur, og þá á það að vera síðasta úrræðið að leita til ríkissjóðs eða fjárveitinga frá Alþ. En eins og frv. er nú er eins og ráðh. vilji gefa þessum mönnum undir fótinn, að þeir megi vænta allra fjárframlaga úr ríkissjóði. Þetta sjónarmið felli ég mig ekki við. Ég skil vel, að sósíalistar felli sig vel við þetta „principsins“ vegna, en ég tel þetta fjárhagslegt glapræði. Það á að sjá svo um, er þessi stofnun verður afhent til afnota, að hún geti staðið undir sér sjálf. Nú á ríkið þetta hús, — og hvernig hefur það gengið til með byggingu þess? Það ganga ýmsar sögur um það. Hvað kostar það nú? Fyrst voru sett lög um skemmtanaskatt til þjóðleikhússins árið 1923, og síðan hefur sá skattur runnið í þjóðleikhússjóðinn að fáum árum undanteknum, og það er orðið mjög mikið fé. Síðan ég kom að Gamla bíó, eða frá 1940 til 1946, hefur það kvikmyndahús greitt um tvær milljónir króna í skemmtanaskatt til þjóðleikhússins, og ég geri ráð fyrir, að sumir hafi greitt töluvert hærri upphæð. En sá aðili, sem fengi slíka stofnun sem þjóðleikhúsið til umráða og rekstrar með öllum nýtízku tækjum, kvikmyndavélum og fleira, hlýtur að láta hana bera sig. Ef slíkt á ekki að bera sig fjárhagslega. — hvernig verður þá stjórn fyrirtækisins? Ég skil ekki óttann við það, að stofnunin beri sig ekki. En því þá ekki að ganga þannig frá þessu, að ríkið beri ekki ábyrgð á rekstrinum, ef svo mikil hætta er á því, að það beri sig ekki? Ef miðað er við almenna, lága vexti, 3–4%, þá er það svo mikil upphæð, að það ætti að geta borið uppi rekstur þessa húss. Það er því ekki annað en „princip“-atriði, en ekki ótti um fjárhaginn. sem hér er um að ræða, og það er leitt til þess að vita, að hæstv. menntmrh. skuli ganga inn á það „princip“ sósíalista. að ríkið skuli endilega reka þjóðleikhúsið, og ég er mjög vonsvikinn yfir því, að hvorki hann né menntmn. skuli sjá, að hér er atriði, sem virkilega er athugunar vert, að stofnunin sé sjálfseignarstofnun í stað þess að vera ríkisrekin. Ég veit, að hæstv. ráðh. er svo kunnugur málefnum ríkisstofnana, að hann veit, að þeim er oftast samfara óhófseyðsla. Þess er þá ekki gætt að spara. ríkið borgar.

Frsm. n. telur þjóðráð, að menntmrh. skuli skipa þjóðleikhúsráð. Ég fæ nú ekki skilið, a. m. k. ef um ríkisrekstur á að vera að ræða, hví Alþ. má ekki hafa íhlutun um stjórn leikhússins. Og hví má bæjarstjórn Reykjavíkur ekki eiga þar fulltrúa? Hún hefur þó og mun styrkja leikstarfsemina. Ég kem ekki auga á hagkvæmari aðila í þessu efni, og loks sé einn fulltrúi frá Leikfélagi Reykjavíkur í ráðinu. Mér finnst engin goðgá að stinga upp á, að þjóðleikhúsráð verði þannig kosið.

N. hefur í einu tilliti gengið á móti till. mínum, sóma síns vegna væntanlega, þar sem hún leggur til, að í stað þess, að fastir leikarar séu ráðnir til fimm ára í senn, verði þeir ráðnir allt að fimm árum í senn. Þeir skulu ráðnir til eins eða tveggja ára og allt að fimm árum í senn. Það er ekki hægt að ganga fram hjá því, að starfshæfni þessara manna kemur allt öðruvísi fram en almennt gerist. Venjulegir starfsmenn sanna hæfni sína á allt annan hátt. Og ég vil í þessu sambandi minnast á íslenzka leikarann í Bretlandi, sem ég minntist á í dag. Hver vissi það fyrir ári síðan, að hann mundi skara svo fram úr í leiklistinni, að hann yrði einn af fimm útvöldum í hinum brezka leikskóla? Og svo ætti að vera búið að ráða alla fasta leikara til fimm ára, er hann kemur heim. Það er bót að þessari brtt. n., og ég mun greiða henni atkv., að minni till. fallinni, en ég teldi betra, að lögfest væri, að fastir leikarar yrðu ráðnir til eins árs í senn.

Ég hygg t. d., að Paul Reumert og frú Reumert séu ekki ráðin nema til eins árs í senn, en ég veit það þó ekki vel, og væri gaman að vita, hvort hæstv. menntmrh. hefur athugað þetta.

Þá sagði hv. frsm., að ekkert væri í mínum till. um það, hvernig leikritanefnd skyldi kosin. Ég tel það kost við mínar till., að það skuli ekki vera fyrir fram ákveðið, hvernig ráðh. gengur frá þessu, en í frv. er því slegið föstu, að þjóðleikhússtjóri og fulltrúar frá leikhúsráði og fastráðnum leikurum skuli eiga sæti í þessari n. En það er alveg út í bláinn t. d. að slá þessu föstu með þjóðleikhússtjórann. Hann þarf ekki að hafa meira vit á leiklist en ég, aðeins ef hann er góður og dugandi framkvæmdastjóri. En í leikritanefnd þurfa að vera menn, sem hafa þekkingu á leikritum og fylgjast vel með höfundum á hverjum tíma. Og mér skilst, að þótt menntmn. telji þessa menn sjálfkjörna í leikritanefnd í dag, þá gildi það ekki lengi. Því má þjóðleikhúsráð ekki einfaldlega kjósa þessa nefnd frá ári til árs? Ég er viss um, að ef menntmn. og ráðh. vildu athuga þetta án þess að vera fyrir fram á móti minni till., þá hljóti þessir aðilar að fallast á það, að það er ekki fyrir fram hægt að ákveða, hverjir eru hæfastir í leikritanefnd, og þá allra sízt, að þjóðleikhússtjóri skuli eiga þar sæti.

Að síðustu skal ég taka fram, eins og ég gerði raunar í dag, að það er rétt að taka ekki fram í frv. um verksvið leikaranna í sambandi við útvarpsleiki, sem getið er um í 10. gr., það atriði kemur inn í ráðningarsamninga þeirra. Ætti frekar að setja það í reglugerð en að það sé í ramma laganna, sem væri hreinn „lapsus“.