17.05.1947
Neðri deild: 130. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

239. mál, þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að ég hefði ekki tekið nóg tillit til hans tillagna um ráðningu leikara. Það er ekki rétt að skorða ráðningu leikara við eitt ár. Það er þó gert erlendis að forminu til, en raunverulega til lengri tíma. En hér er öðruvísi háttað, þar sem þetta er eina leikhúsið, sem kalla má því nafni. auk þess sem erfitt mundi reynast að fá leikara, nema gefa kost á meira en einu ári. En þetta er til bóta, og ber því að taka fullt tillit til þess.

Um valið í leikritanefnd er það að segja, að það er heppilegt að hafa þjóðleikhússtjóra með í ráðum, þar sem hann er húsbóndinn og skal sjá um fjárhaginn. Val leikrita getur haft allmikil áhrif á fjárhaginn, þannig að ekki er óeðlilegt. að hann hafi það með höndum.

Um aðalatriði till. hv. 2. þm. Eyf., að þjóðleikhúsáð verði sjálfseignarstofnun, má segja, að sjálfseignarstofnun samkv. till. hans er ríkisstofnun raunverulega, því að þar er gert ráð fyrir, að menntmrh. setji reglugerð um húsið og ákveði skemmtanaskatt. Í raun og veru er því húsið ríkisrekið eftir sem áður. Hins vegar er það misskilningur, að betur yrði stjórnað en gert er ráð fyrir með frv. Eina aðhaldið er, að það er til tekið um skemmtanaskattinn, en það mætti líka ákveða, þótt þjóðleikhúsið væri ríkisstofnun. En ég vil benda á, að slíkt ákvæði hefur ekki afgerandi þýðingu, því að hvort sem er þyrfti þingið að leysa vandann, ef húsið lenti í fjárskorti. Þá sagðist hv. 2. þm. Eyf. ekki trúa því, að húsið yrði rekið með tapi. Ekki langar mig til, að svo verði, og vil ég leggja mitt lið til, að húsið verði rekið hallalaust. því að sannarlega er nóg með peningana að gera, og hefði ég viljað setja bremsur í lögin, svo að kostnaðurinn yrði ekki spenntur upp, og get ég mjög vel fallizt á breyt. í þá átt. En ég get ekki fallizt á að breyta því, sem hv. þm. leggur til, að stjórn leikhússins sé kosin þannig, að Alþingi kjósi 2 fulltrúa, Reykjavíkurbær 2 og Leikfélag Reykjavíkur 1, en þá er Alþ. komið í minni hluta, og er það algerlega óviðunandi. Enn fremur finnst mér þýðingarlaust að vera að kalla þetta sjálfseignarstofnun, því að eftir till. hv. þm. verður stofnunin opinber, og ber það ekki á milli, heldur hvernig beri að ganga frá stofnuninni, svo að aðhaldið verði sem mest.