22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

239. mál, þjóðleikhús

Frsm. (Kristinn Guðmundsson) :

Herra forseti. Menntmn. hefur haft frv. þetta til athugunar á mörgum fundum. og hefur verið nokkuð erfitt að fá samkomulag um frv., og hefur einn nm. samþ. það með fyrirvara, eins og það er með brtt. þeim, sem gerðar hafa verið.

Eftir að þjóðleikhúsið er upp komið, þá er það skiljanlegt, að gera verði einhverja áætlun um rekstur þess. Um leiðir þær, á hvern hátt það skuli rekið, eru skiptar skoðanir. Tvær hinar helztu eru: Í fyrsta lagi, að þjóðleikhúsið skuli vera einkafyrirtæki, styrkt af ríkinu, og í öðru lagi, að ríkið reki það á eigin ábyrgð.

Í frv. um skemmtanaskatt, sem nýlega var samþ. hér, hefur þjóðleikhúsinu verið séð fyrir tekjum á þann hátt, að 40% af skemmtanaskattinum skuli renna til þess, og nemur það um það bil 700 þús. kr. yfir árið.

Menntmn. hefur gert nokkrar breyt. við frv., og miða þær aðallega að því, að menn þeir, sem sjá um rekstur leikhússins, hafi nokkurt aðhald um rekstur þess, leggi ekki í þær framkvæmdir né annað slíkt, sem hefur kostnað í för með sér. Ég vil nú leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessar brtt.

1. gr. frv. var orðuð þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Þjóðleikhúsið skal vera ríkisstofnun og lúta yfirstjórn menntmrh.“ Þessari gr. höfum við breytt á þessa leið: „Þjóðleikhúsið skal rekið í samræmi við ákvæði laga þessara.“

Í 1. málsgr. 3. gr. stóð í frv.: „Menntmrh. skipar þjóðleikhússtjóra og skrifstofustjóra.“ Þar höfum við aðeins breytt einu orði, og komi þá „ræður“ í stað „skipar“. Aftur á móti er ekki tekið fram, til hve langs tíma þeir skuli ráðnir. Breyt. sú, sem við viljum gera láta við 7. gr., er einnig aðeins það. að þar verði orðinu „skipun“ breytt í „ráðning“.

Aðalbreyt. er við 12. gr. frv. Í frv. endar hún svo: „Verði rekstrarhalli, skal hann greiddur úr rekstrarsjóði þjóðleikhússins.“ Það, sem við viljum, að bætist hér við, er á þessa leið: „Með rekstrarkostnaði leikhússins telst allur kostnaður við þjóðleikhúsbygginguna, eftir að hún er fullgerð. Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum þjóðleikhússins, og þjóðleikhúsbyggingin stendur ekki til tryggingar skuldbindingum þess.“ Það er að skilja, að viðhald og minni endurbætur skuli kostaðar af rekstrarfé hússins. — Hvað viðvíkur síðara ákvæðinu í breytingu þessari: „Ríkissjóður ber ekki ábyrgð“ o. s. frv., þá er það varnagli fyrir því að mjög ógætilega verði farið með fjármál stofnunarinnar. Ef húsið ber sig ekki, skapast nýtt vandamál, sem leysa verður á annan hátt.

Ég vil svo ekki fjölyrða þetta frekar, en vænti þess, að hv. þd. fallist á þær brtt., sem n. hefur gert við frv. þetta.