22.05.1947
Neðri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

250. mál, ríkisreikningurinn 1943

Skúli Guðmundsson:

Þessar ræður hv. þm. A-Húnv. og hv. 1. þm. Árn. gefa ekki mikla ástæðu til andsvara frá minni hálfu. Þeir mótmæltu því ekki, að hægt væri að endurskoða reikninginn. án þess að hann lægi prentaður fyrir. Menn skrifa náttúrlega misjafnlega skýrt og greinilega, en ég hefði haldið, að það væri ósköp auðvelt að endurskoða reikninga, ef sæmilega væri frá þeim gengið, þó að þeir væru ekki prentaðir. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að endurskoðun gæti byrjað, áður en búið væri að loka reikningunum til fulls. og vitanlega verður að loka þeim, áður en búið er að ljúka prentun þeirra, því að ég hafði haldið, að sá sem ætti að ganga frá reikningunum, væri ekki prentsmiðjan, það væri ríkisbókhaldið. Ég efast ekki um, að á hinni umboðslegu endurskoðun hafi staðið. Það er ekki á valdi yfirskoðunarmanna, heldur stjórnarinnar að breyta því. En ég veit ekki betur en að endurskoðandi ríkisins hafi það starf að sjá um þetta, og hann hefur heilan her manns í sinni þjónustu, og að réttu lagi ætti hin umboðslega endurskoðun að sjá um, að reikningar ríkisbókhaldsins væru tilbúnir í tæka tíð, á sama hátt og endurskoðendur ættu að reka eftir hinni umboðslegu endurskoðun. Það er ákaflega óviðfelldið að koma hér með ríkisreikning 4 árum eftir, að það gerðist, sem þar er reikningsfært. Mér þykir vænt um, að þm. eru báðir á sama máli um þetta höfuðatriði. Þeir mega ekki skilja mig svo, að ég sé fyrst og fremst að ásaka þá um þetta. Það er stjórnarinnar að sjá um það. En ég vil mótmæla því, að það sé miklum erfiðleikum bundið fyrir þá að byrja endurskoðun, fyrr en búið er að prenta reikninginn. Það er vafalaust rétt, að þeir hafa haft slæma aðstöðu til þess að vinna þetta verk, vegna þess að þeir hafa ekki húspláss til að vinna það í. En ég hygg, að eftir hina stóru viðbyggingu við Arnarhvol ætti að fást úr þessu bætt og betri starfsskilyrði að vera eftirleiðis. En eins og ég hef sagt, er það fyrst og fremst stjórnin, sem þarf að beita sér fyrir endurbótum á þessum málum, því að það er til skammar, hve seint þetta er.

Alþingi á náttúrlega að kjósa endurskoðunarmenn. Það á hæstv. stjórn að sjá um, og fráleitt stendur á þinginu að kjósa þessa menn.