22.05.1947
Neðri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

250. mál, ríkisreikningurinn 1943

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Það er bara smáaths. Hv. þm. V-Húnv. vildi lítið úr því gera, að það væri svo mikið atriði viðvíkjandi yfirskoðun ríkisreikninganna, hvort þeir séu prentaðir eða ekki. Þetta stafar af ókunnugleika hans, því að hann, jafnreikningsglöggur maður og hann er, mundi fljótlega reka sig á þetta, ef hann ætti að hafa þessi störf með höndum. Það er að vísu hægt að ganga úr skugga um, hvernig reikningurinn stendur sig, en aðeins að litlu leyti, og það fer eftir þeim plöggum, sem fylgja. Í svokölluðum spjaldakassa getur maður alveg séð, hvað reikningnum líður, en þrátt fyrir það liggur reikningurinn ekki fyrir, heldur þarf maður að bera hann saman við skýrslur umboðsmannanna. Þegar svo reikningurinn kemur prentaður, þarf maður að vinna hann allan upp aftur, það gerir flokkunin, að þetta liggur ekki ljóst fyrir. Þetta er að nokkru leyti að vinna verkið tvisvar, og það er það, sem okkur er ekki vel við. Yfirskoðunarmennirnir eru þrír, og ef þeir eru allir við starf, geta þeir gert hver sitt verk, og það er hagfelldara. Um þetta skal ég ekki segja meira.

Um hina umboðslegu endurskoðun er það að segja, að nauðsynlegt er, að hún gangi fyrr fyrir sig en nú á sér stað. Það er eðlilegt, að ykkur þm. þyki reikningurinn koma seint, en ég bið ykkur að hafa í huga, að þessum reikningi hefur verið skilað, þótt við höfum ekki átt kost á að sjá hina umboðslegu endurskoðun nema að mjög litlu leyti. En við eigum að sjá hann umboðslega endurskoðaðan. Það þarf að byrja miklu fyrr en nú er. Þegar hinar einstöku stofnanir hafa lokið við reikninginn hjá sér, á umboðslega endurskoðunin eftir að fara yfir þessa reikninga. Ef stjórnarráðið hefði nægilega marga menn, væri hægt að endurskoða í stofnununum sjálfum og flýta fyrir sér, svo að hægt sé að vera fljótari með verkið, þegar búið er að gera upp reikninga hinna ýmsu stofnana, en þetta á þó aðeins við Reykjavík og ekki stofnanir úti um land, því að við verðum að bíða eftir, að reikningarnir berist til stjórnarráðsins, og þá er komið talsvert fram á árið næsta eftir reikningsárinu.

Ég er á sama máli um það, og hef enda látið það í ljós. að þegar svona langt er um liðið, hefur það misst marks, sem endurskoðunarmenn höfðu að athuga við reikninginn, en samt vil ég benda á það, að yfirskoðunarmennirnir hafa gert minni kröfur en þeir ættu að gera til þess að hafa „krítíska“ endurskoðun á reikningnum, vegna þess að Alþingi hefur ekkert gert, þótt yfirskoðunarmenn væru óánægðir, og hefur því nær ætið vísað frá till. yfirskoðunarmanna í því sambandi, og Alþingi hefur ekkert gert, þó að um alvarlega hluti væri að ræða, sem frá mínu sjónarmiði voru mjög aðgæzluverðir.

En þó að þetta gangi svona til, á það ekki að verða til þess, að við leggjum árar í bát.