08.04.1947
Neðri deild: 107. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

216. mál, Bernarsambandið

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Frv. þetta er flutt til þess að fá heimild fyrir ríkisstj. til að gera ráðstafanir til þess, að Ísland gangi í Bernarsambandið. Það er samband, er sett var á fót til að halda á rétti rithöfunda og annarra manna, sem semja andleg verk. Í þessu sambandi eru margar þjóðir og er svo ákveðið, að þær þjóðir, sem ganga í sambandið, undirgangist það, að ritverk og önnur andleg verk skuli þá ekki tekin til birtingar í hlutaðeigandi landi, nema fyrir komi greiðsla til þess manns, er samið hafði verkið. Hugmyndin með sambandinu er því að vernda réttindi þeirra manna, er slík verk semja. Ísland hefur skorið sig úr í þessu efni, og hafa hér verið teknar til birtingar án leyfis ritsmíðar erlendra manna. Hefur þetta valdið óánægju. Ríkisstj. þykir því rétt, að Ísland gangi inn í þetta samband, og leitar hún hér með heimildar þingsins til þess. Ríkisstj. þótti eðlilegra að fara fram á þetta í lagaformi, vegna þess að nauðsyn bar til, að breytt yrði l. um rithöfundarétt og prentrétt, til þess að Ísland gæti gengið í sambandið. Lagabreyt., sem gera þarf, er ekki flókin. Það hefur verið athugað, að nægilegt er að breyta 16. gr. rithöfundal. til samræmis við 9. gr. Bernarsáttmálans. Þetta snertir takmörkun á rétti til þess að taka upp og birta ritgerðir og annað efni, sem ekki stendur í bókum. Þessi takmörkun er þó ekki meir en það, að heimilt er að taka ritgerðir um dægurmál án leyfis eða þóknunar. Það hefur verið athugað, að þessi breyt. er nauðsynleg til þess, að Ísland geti gengið í sambandið. Það er rétt að taka það fram fyrir n. þá, sem fær mál þetta til athugunar, að ósamræmi er milli 4. gr. rithöfundalaganna, sem leyfir þýðingu á erlendu verki án leyfis höfundar þess, 10 árum eftir að verkið hefur verið birt, og 8. gr. Bernarsáttmálans, er bannar þýðingar á slíku verki jafnlengi og réttur höfundar til verksins er í gildi, þ. e. 50 ár eftir lát höfundar. Eigi verður þó talið óumflýjanlegt að breyta 4. gr. rithöfundalaganna vegna þessa ósamræmis, því að í 25. gr. Bernarsáttmálans er ríki veitt heimild til þess að gera þann fyrirvara við inngöngu sína í sambandið, að í stað þess að vera bundið við 8. gr. sáttmálans, eins og hann er, verði það bundið af 5. gr. sáttmálans, eins og hann var 1896. En í þeirri grein var einmitt gert ráð fyrir sama fresti og nú er tiltekinn í 4. gr. íslenzku laganna. Ýmis ríki hafa notað sér fyrirvara þennan, og af núverandi meðlimum sambandsins hafa eftirtalin ríki áskilið sér hann: Júgóslavía, Grikkland, Japan, Írland og Latavía. Fyrirvarinn gildir einnig varðandi verk höfunda þess lands, sem fyrirvarann gerir, þ. e. höfundar þessara landa fá ekki meiri rétt en þeir ætla öðrum. Stjórninni þótti rétt að leggja frv. fram með þeim lágmarksbrtt., sem verður að gera. En ég vildi segja hv. þm. frá þessu atriði, áður en málið yrði tekið fyrir. Ég vænti, að hv. Alþ. verði sammála um að ganga í Bernarsambandið, og legg til, að málinu sé vísað til hv. menntmn.