18.03.1947
Neðri deild: 98. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

194. mál, lögræði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er samið að tilhlutan fyrrv. hæstv. dómsmrh., Finns Jónssonar, og hefur hann í raun og veru haft allan veg og vanda af undirbúningi málsins. En hann fékk til þess að semja frv. dr. Þórð Eyjólfsson hæstaréttardómara, sem áður fyrr kenndi þá grein lögfræðinnar, sem lögræði heyrir undir, við Háskóla Íslands. Ég held því, að það megi segja, að fenginn hafi verið til að semja frv. maður, sem öllum öðrum fremur hafi verið trúandi til þess að leysa það verk vel af hendi, enda hefur hann samið hér mikla og ýtarlega grg. fyrir frv. — Vegna þess, hve grg. er ýtarleg, get ég alveg sparað mér að gera grein fyrir frv. í heild eða einstökum atriðum þess. Ég vil þó aðeins skýra frá því, að ætlunin er, að þetta frv., ef að l. verður, komi í staðinn fyrir fyrst og fremst lögræðislögin frá 1917 og einnig l. um fjárforráð ómyndugra á Íslandi frá 1847 og að með samþ. þess verði einnig numin úr gildi nokkur ákvæði í l. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, nr. 46 frá 1921, og l. um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, nr. 57 frá 1921.

Varðandi síðustu lagafyrirmælin er þess að gæta, að hér liggja fyrir þinginu fyrirmæli í öðru lagafrv., sem fjalla um það sama, og þarf að samræma þetta. Við meðferð málsins í n. þarf að athuga, hvort einhverjar breyt. þurfi að gera á því frv., sem hér liggur fyrir.

Með þessu frv. eru þannig tekin saman í einn bálk öll fyrirmæli, er þetta mál varða, um lögræðisskerðingu og lögræðissviptingu og um löggerninga ólögráða manna. Og er þetta síðast nefnda ný fyrirmæli í íslenzkum l., þannig að tilsvarandi löggjöf hefur ekki verið lögfest, þó að þetta sé talið í samræmi við það, sem hefur verið látið gilda, og er einnig í samræmi við það. sem gildir annars staðar á Norðurlöndum.

Svo er loks kafli í þessu frv. um foreldravald og lögráðendur.

Lögræðisl. frá 1917 voru til bóta á sinni tíð, en þóttu þó um sumt nokkuð gölluð, og var því þörf á, að endurskoða þau, þó að það hafi dregizt svo lengi. Þegar af þeirri ástæðu er til bóta að fá lögfest ákvæði þessa nýja frv. Þá er hér einnig rýmkuð heimildin til þess að svipta menn lögræði frá því, sem áður var, sérstaklega varðandi ýmiss konar óreglumenn og einnig varðandi þá menn. sem vista þarf á sjúkrahúsi eða heilsuhæli samkvæmt fyrirmælum heilbrigðislaga. Þá eru meiri og gleggri fyrirmæli um það en áður hefur verið, hver geri kröfu um lögræðissviptingu, þannig að fleiri en áður var geti gert slíkar kröfur. Dómsmrn. er og gefin heimild til þess að gera kröfur um lögræðissviptingu, eftir því sem ákveðið er í l.

Ég sé ekki að svo komnu ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Þó að það komi í minn hlut að leggja það fyrir hæstv. Alþ., er það samið algerlega að tilhlutan fyrrv. hæstv. dómsmrh.

Ég vonast til þess, að hv. þd. láti frv. fá greiðan framgang, vegna þess að mér sýnist það eiga það fyllilega skilið, af því að þessum málum muni vera mun betur skipað eftir þessum l., ef frv. verður samþ., heldur en áður.