18.03.1947
Neðri deild: 98. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

194. mál, lögræði

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Þess er getið í upphafi grg. fyrir þessu frv., að hæstaréttardómari Þórður Eyjólfsson hafi verið beðinn að athuga þessi mál með sérstöku tilliti til sjúklinga, sem beita þarf meiri eða minni frelsisskerðingu. Þetta mun eiga rætur sínar að rekja til þess, að beiðnir lágu fyrir hjá fyrrv. hæstv. dómsmrh. frá þeim aðilum, sem helzt höfðu fjallað um málefni drykkjusjúklinga, um að láta þessa endurskoðun fara fram. Við þessari heiðni varð sá hæstv. ráðh., og hefur, eins og tekið er fram í grg. frv., viljað verða við því með því að vekja sérstaka athygli á þessu atriði, þegar hann fól hæstaréttardómaranum að semja þetta frv.

Ég vil nú alls ekki fullyrða, að hægt sé að ganga lengra en gert er í þessu frv. til móts við óskir, sem uppi hafa verið um það að gera auðveldara að koma þessum mönnum að einhverju leyti til hjálpar með aðstoð læknisfræðinnar á móti þeirra eigin vilja. Ég vil ekkert um það fullyrða. Ég viðurkenni það í fyllsta máta, að það ber að viðhafa hina mestu gætni, þegar verið er að fjalla um þann helgasta rétt hvers manns að ráða sér sjálfur. Ég vil þó mega varpa því fram og biðja þá n., sem fær málið til meðferðar, að athuga, hvort ástæða gæti þótt að leyfa einhvers konar sjúkradómstól að úrskurða slíka sjúklinga til hælisvistar eitthvert ákveðið tímabil, án þess að viðkomandi sjúklingar væru beinlínis sviptir lögræði. Mér finnst sjálfsagt, að ákvæði slík sem þessi gætu þurft að eiga heima í þessu frv. Til athugunar er þetta að minnsta kosti. Og án þess að fullyrða þetta, vildi ég alveg sérstaklega fara fram á það við þá hv. n., sem tekur við málinu, að hún vildi ræða sérstaklega um þetta spursmál við landlækni og dr. Helga Tómasson, sem báðir hafa staðið að því að óska þessarar endurskoðunar á l., svo og einhvern aðila frá Stórstúku Íslands, sem einnig hefur óskað eftir þessu. Það má vel vera, að niðurstaðan af athugun minni og annarra á þessu verði sú, að ekki verði hægt að ganga lengra en gengið er í þessu frv. í þessu efni, sem ég nú minntist á. Og sízt vildi ég stefna að því, að óvarlega sé búið um hnútana, að því er snertir vernd þessa persónuréttar manna að mega ráða sér sjálfir. Hitt má öllum vera ljóst, að um mikið vandamál er að ræða, þegar svo er ástatt um menn, að þeir eru sínum nánustu jafnvel hættulegir eða a. m. k. mjög erfiðir, en hafa ekki sjálfir skilning á því, að þeim sé fyrir beztu að hverfa frá heimilum sínum og leita sér læknisaðstoðar.