14.04.1947
Neðri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

194. mál, lögræði

Frsm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Um þetta mál hefur verið fjallað í allshn., en eins og fram hefur komið við 1. umr., hefur það verið undirbúið af Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara. Fá atriði voru, sem n. fannst ástæða til að breyta, en ræddi málið á fundi, þar sem einnig voru mættir Þórður Eyjólfsson og landlæknir, sem er viðriðinn sjúklinga í sambandi við sviptingu lögræðis, og þessar tvær brtt., sem n. flytur, lúta að því, að viðkomandi sé ekki heill heilsu. Ég vil geta hér einstakra atriða frv., sem mega teljast nýmæli, áður en vikið er að brtt., og bendi ég sérstaklega á 4. gr., sem segir, að maður, ólögráður fyrir æsku sakir, verði fullráða, ef hann gengur í hjónaband, nema hann verði sviptur lögræði. En eldri ákvæði um þetta atriði áttu aðeins við um konur, sem öðluðust fullræði, ef þær giftust, en samkv. þessu á þetta við um báða aðila. Meginreglan er því sú, að hjúskaparaldur sé sá sami og lögræðisaldurinn og er eðlilegt að sá, sem gengur í hjónaband og fær undanþágu til þess, öðlist þá einnig lögræði.

Viðvíkjandi II. kafla, sem lýtur að sviptingu lögræðis og brottnámi lögræðissviptingar, þá hefur aðallega verið stuðzt við eldri ákvæði og praksis. Þó mun 4. málsliður vera nýmæli, þetta skilyrði til að svipta menn lögræði, ef þarf að vista viðkomandi án samþykkis hans á sjúkrahúsi eða á heilsuhæli vegna fyrirmæla í heilbrigðislöggjöfinni, og er þetta að sjálfsögðu nauðsynlegt ákvæði.

Þá er fyrri brtt. allshn., við 7. gr., sem lýtur að því, hverjir geti gert kröfur til lögræðissviptingar. En 6. liður b er um, að dómsmrn. geti gert það, þegar það telur réttmætt að gera kröfuna vegna tilmæla aðila sjálfs, vandamanna hans eða vina, eða vegna vitneskju um hag aðila, er það hefur fengið á annan hátt. Brtt. er á þann veg, að þarna komi viðbót og orðalagsbreyting: „Þegar það telur réttmætt að gera kröfuna vegna tilmæla aðila sjálfs, vandamanna, læknis hans eða vina eða vegna vitneskju um hag aðila, er það hefur fengið á annan hátt.“

Þá er 2. brtt. við 31. gr. 31. gr. er að vísu nýmæli, sem nauðsyn þótti að setja til að tryggja aðstöðu þeirra manna, sem til greina kæmi að vista til lengdar á sjúkrahúsl. og setur dómsmrh. í samráði við landlækni nánari fyrirmæli í reglugerð um tilhögun þessara mála. Það er gert ráð fyrir, að öryggi sé fyrir einstaklinginn, að slík frelsisskerðing sé ekki gerð nema að fyrirskipun eða samþykki dómsmrn. En n. leggur til, að hér komi sú undantekning, að þessi ákvæði séu ekki því til fyrirstöðu, að unnt sé að hefta frelsi manna til bráðabirgða, ef þess er þörf. Þetta er miðað við, að slík frelsisskerðing komi eingöngu um stundarsakir. Þá eru taldar upp farsóttir, geðveiki og ölvun, sem hefur valdið því, að hlutaðeigandi hefur verið tekinn í umsjá löggæzlumanna. Og full ástæða þykir, ef aðili er tekinn í umsjá löggæzlumanna vegna ölvunar, að hafa í l. ákvæði um að vista hann á sjúkrahæli, því að oft getur andlegt ástand manns haft betra af því og það verið þroskavænlegra fyrir hann, að hann sæti meðferð undir handleiðslu læknis á heilsuhæli, en slíkt kemur ekki til greina, ef hann er „arresteraður“ eins og nú tíðkast. Það hefur komið fram í áliti geðveikralæknisins á Kleppi, sem hefur fjallað um þetta atriði og n. styðst við, að ef maður er sviptur frelsi og fluttur á sjúkrahús, þá sé það mikilvægt, að læknir hafi hann undir höndum ekki skemur en tvo sólarhringa, vegna þess að þeir, sem til greina kæmu, væru sérstaklega unglingar, og í slíkum tilfellum gæti það haft mikilvæg áhrif, að læknir kæmi til skjalanna.

Ég held svo, að þessu fram teknu og með hliðsjón af undirbúningi frv., að ekki sé fleira, sem ég þarf að taka fram til frekari grg. fyrir hönd n.