09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er samið og flutt í samræmi við og áframhaldi af stjórnarsamningi, sem gerður var, þegar núverandi ríkisstj. tók við, og það fjallar um afurðasölu landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun o. fl. Inn í þetta frv. hafa verið teknir þeir lagakaflar, sem um þessi mál hafa verið settir undanfarin ár, eða nánar sagt, afurðasölul. frá 1934, um mjólk og mjólkurafurðir og sláturfjárafurðir, en þó með nokkrum viðaukum, sem ég mun koma síðar að. Þau nýmæli, sem hér er um að ræða, eru í I. og XI. kafla frv. og tel ég upp þau atriði, sem sérstaklega var samið um í stjórnarsamningnum.

I. kafli frv. er um skipun og verkefni framleiðsluráðs. Þar er svo ákveðið. að við framkvæmd afurðasölulöggjafarinnar taki framleiðsluráð, sem skipað er af hálfu bændasamtakanna og félagssamtökum þeirra í landinu. Er ætlazt til þess, að framleiðsluráð sé skipað 9 mönnum, 5 mönnum skipuðum af stéttarsambandi bænda, en nú er verið að ganga frá stofnun þess formlega, og 4 mönnum frá þeim félögum bænda, sem fara með afurðasölu landbúnaðarins. Þessi mál hafa verið á nokkru tilraunastigi þau 10–12 ár, sem þessi löggjöf hefur gilt. Fyrstu ár löggjafarinnar var sérstökum n. falið að fara með framkvæmd þessara mála. n., sem skipaðar voru að nokkru leyti af hálfu bændafélaganna, verzlunarfélögum bænda, og að öðru leyti af hálfu félaga neytenda í bæjum, en oddamenn voru skipaðir af ríkisstj. Má því segja, að fyrstu ár þessarar löggjafar hafi framkvæmd þessara mála verið að nokkru leyti í höndum ríkisvaldsins. enda voru þessi mál þá ný af nálinni. Það voru pólitískir flokkar, sem stóðu fyrir því að koma þessari löggjöf á, og urðu þeir fyrstu árin að taka að sér framkvæmd hennar. En eftir því sem lengra líður, verður þróun þessara mála fastari, og breyt. á meðferð þeirra hefur orðið sú, að bændur og félög þeirra hafa tekið við meiri og meiri umráðum þessara mála og framkvæmd þeirra. Þegar búnaðarráð var löggilt og tók við þessum málum, þá hófst nýr þáttur í framkvæmd þessara mála, sem sé sá, að búnaðarráð var skipað allt af ríkisstj., en hins vegar voru ákvæði um það, að búnaðarráð væri eingöngu skipað bændum, sem starfað hefðu fyrir bændasamtökin. Má segja, að að forminu til hafi þetta verið framför frá því, sem áður var, ef sá ágalli hefði ekki verið. að búnaðarráð var allt stjórnskipað, og er óhætt að segja, að bændur um land allt undu því illa að hafa þessa yfirstjórn málanna skipaða af ríkisstj., án þess að ég ætli að fara að draga inn í þessar umr. það, sem haldið hefur verið fram með og móti búnaðarráði eða framkvæmd þess á þessum málum. Hygg ég, að óhætt sé að fullyrða, að meiri hl. bænda megi ekki hugsa til þess, að þessi skipan gildi um ókominn tíma, vegna þess að þeir líta svo á, að aðalvaldið liggi í því að mega skipa þessa menn í ráðið og setja þá frá. Og hvað sem annars má segja um vald og meðferð fyrrv. landbrh. í þessum efnum, þá er hitt víst, að ekki væri ævinlega tryggt, að með þessi mál færi sá meiri hl. ríkisvaldsins, sem bændur sættu sig við, þannig að til frambúðar gætu bændur ekki við þetta unað, enda hefur þróun þessara mála verið sú, að bændur hafa fengið meiri og ríkari ráð í stjórn þeirra og meðferð, og það er almenn krafa bændastéttarinnar, að bændur sjálfir og fulltrúar þeirra fái meðferð þessara mála í sínar hendur. Má vel vera, að það hafi verið litið þannig á af fyrrv. stjórn, að þetta væri ekki tímabært, meðan ekki var til í landinu sú stofnun, sem talizt gat eðlilegur aðili af hendi bænda til að taka við þessum málum. En nú verður því ekki lengur við borið, vegna þess að nú hefur stéttarsamband bænda verið formlega stofnað og tekur það til allra bænda í landinu og virðist því sjálfkjörinn aðili til að fara með þessi mál. Um þetta fjallar I. kafli, en auk þess eru í I. kaflanum nokkrar breyt. frá því, sem áður hefur verið, þannig að yfirstjórn þessara mála er fengið í hendur meira vald um afurðasöluna almennt og meiri íhlutun um þau mál en áður var, sem að mestu leyti byggist á því, að bændum er orðið það ljóst, að aðalmarkaðurinn fyrir framleiðsluvörur landbúnaðarins er nú og verður á næstunni innanlands. Þess vegna er það nauðsynlegt hvort tveggja, að haga framleiðslunni þannig, að innlendum neytendum nýtist sem bezt það, sem framleitt er af íslenzkum bændum, og að íslenzkur landbúnaður nýti sem bezt alla þá markaði, sem til eru í landinu fyrir slíka framleiðslu, og það er tilgangurinn með þessu nýja frv., að þetta vald og ábyrgð, sem framleiðsluráði er fengið í hendur, hafi fyllri not en áður við stjórn þessara mála og noti markaði út í yztu æsar innanlands og fullnægi þörf þjóðarinnar fyrir íslenzkar framleiðsluvörur, eftir því sem tök eru á.

XI. kafli fjallar um verðskráningu landbúnaðarvara. Það hafa sömuleiðis verið gerðar nokkrar breyt. á þessu atriði frá því, sem var í afurðasölul., þegar þau voru samþ. Fyrst var svo ákveðið. að n. manna, skipuð af hálfu framleiðenda og neytenda; með stjórnskipaðan oddamann, skyldi ákveða verðlag á hverjum tíma. Þannig fór fram fyrstu ár þessarar löggjafar. Síðar breyttist þetta við samþykkt sex manna nefndarinnar og þá endurskoðun, sem fékkst á þeirri löggjöf. Við komu sex manna nefndarinnar breyttist þetta þannig, að verðlagsvaldið féll úr höndum hinnar stjórnskipuðu n. og í hendur sex manna n., vegna þess að svo tókst til, að allir aðilar urðu sammála um þann verðlagsgrundvöll, sem farið skyldi eftir, en það var skilyrði af hálfu löggjafans fyrir því, að sú löggjöf gæti fengið gildi. Þessi skipan hélzt um tveggja ára skeið. En með búnaðarráðsl. var þetta atriði úr gildi fellt, og þá tók búnaðarráð eða framkvæmdan. búnaðarráðs við þessum málum og tók verðlagsvaldið í sínar hendur.

Mér er óhætt að segja, að þó að ýmislegt hafi verið sagt og skrifað um verðlagningu landbúnaðarvara undanfarin ár og mikið um það deilt, að meðal íslenzkrar bændastéttar hafi engin verðlagsákvörðun verið jafnvinsæl eins og sú, sem gerð var með sex manna nefndar löggjöfinni. Það verðlagsfyrirkomulag, sem nú er tekið upp í sambandi við XI. kafla frv., er í aðalatriðum svipað því, sem var í sex manna nefndar löggjöfinni. Það er tekið fram í 4. gr., að söluverð landbúnaðarvara skuli miðast við það, að heildartekjur þeirra, er landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Þetta er grundvöllurinn undir verðlagsákvörðuninni samkvæmt frv., og þetta var grundvöllurinn undir verðlagsákvörðuninni samkvæmt sex manna nefndar álitinu, og ég get ekki séð, að hægt sé að fá eðlilegra, sjálfsagðara eða réttlátara fyrirkomulag um verðlagningu íslenzkra landbúnaðarvara en einmitt þetta.

Þeir tímar eru liðnir, að hægt sé að skrá verð innlendra landbúnaðarvara eftir því, sem útlendur markaður segir til um, eins og áður var, og það er óhætt að segja það eins og það er, að aðstaða íslenzks landbúnaðar nú er sú, að hann er ekki samkeppnisfær á erlendum markaði með aðalframleiðsluvörur sínar, og er það ekki að undra. þar sem svo er komið með sjávarútveginn, sem er margfalt uppgripameiri og arðsamari og er undirstöðuatvinnuvegur okkar Íslendinga, að gera verður sérstakar ráðstafanir af ríkisins hálfu til þess að tryggja það, að hann verði arðvænlegur fyrir þá, sem hann reka. Þá er spurningin aftur: Hvernig á þá að ákveða landbúnaðinum verðlag? Eigum við að halda áfram að framleiða landbúnaðarvörur eða hætta því? Ég býst við því, þó að það hafi heyrzt einkennilegar raddir í þessum efnum undanfarin ár, að það sé svo, að allir hugsandi menn séu sammála um það, að það nái ekki neinni átt, að Íslendingar hætti að framleiða landbúnaðarvörur til innlendrar neyzlu, eftir því sem aðstaða og efni standa til. Þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að sumra tegunda landbúnaðarvara, eins og t. d. mjólkur, er ekki hægt að afla þjóðinni á annan hátt en þann að framleiða þær hér heima. Og um margar vörur, sem segja má, að ekki séu samkeppnisfærar á erlendum markaði, er það svo, að ef við ættum að flytja þær inn, þá yrðu þær litlu ódýrari í útsölu en þær eru framleiddar af íslenzkum bændum, auk þess sem það verður að teljast höfuðnauðsyn fyrir íslenzku þjóðina að hafa sem fjölþættasta framleiðslu innanlands vegna síns öryggis og vegna lífs og afkomu þjóðarinnar á öðrum sviðum, sem ég ætla ekki að orðlengja um. Ég held, að það sé óhætt að slá því föstu, að meginhluti þjóðarinnar sé sammála um það, að hér verði að framleiða landbúnaðarvörur í eins ríkum mæli og unnt er til þess að fullnægja innlendri þörf. En þá kemur spurningin: Hvernig á að tryggja, að þessar vörur séu framleiddar? Hvernig á að ákveða verðlag á þeim, sem tryggi, að menn vilji og geti framleitt þær? Ég held, að það sé ekki hægt að finna réttlátari eða sanngjarnari grundvöll en þann að segja svo fyrir um, að vörurnar skuli selja fyrir verðlag, sem miðað sé við það, að bændur fái svipaðar tekjur fyrir sín störf eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins. Það má segja, að með þessum ákvæðum séu bændur að nokkru leyti bundnir um landbúnaðarvöruverð, en ég hygg af þeirri reynslu, sem fengin var með framkvæmd sex manna nefndar löggjafarinnar, að bændur fari ekki fram á það, að þeirra kjör séu betri fjárhagslega en annarra stétta þjóðfélagsins. En hitt er jafnrétt, að ef við eigum að tryggja hér framleiðslu íslenzkra landbúnaðarvara, þá verðum við að sjá um það, að bændastéttin hafi svipuð kjör og aðrar stéttir, því að annars fást menn ekki til að framleiða þessar vörur. Og ég held, að ég verði að segja frá því í þessu sambandi, að það er svo einkennilegt, að eftir því sem ég hef kynnzt þessum málum á Norðurlöndum. t. d. í Svíþjóð, þá virðist mér, að sænska þjóðin hafi komið inn á sama feril í þessum efnum eins og við komum inn á með sex manna nefndar löggjöfinni. Ég hef lesið nál. frá n. hagfræðinga, sem skipuð var 1942 til að athuga framleiðsluaðstöðu þar í landi. Sú n. skilaði áliti á árinu 1944, og niðurstaðan hjá henni er þetta: Það er ekki líklegt, að Svíar hafi aðstöðu til þess að framleiða landbúnaðarvörur í samkeppni við aðrar landbúnaðarþjóðir nágrannalandanna, en samt sem áður er það höfuðnauðsyn, að Svíar framleiði svo mikið af landbúnaðarvörum sem kostur er á. En hvernig eigum við að tryggja það? spyr n. Það getum við ekki öðruvísi en með því að tryggja bændum það mikið verð fyrir vörurnar, að þeir beri svipað úr býtum og aðrar stéttir, segir n. Það er sama hugsunin, sem vakti fyrir sex manna n., sem er þarna ljóslifandi í þessu sænska nál., og alveg það sama er tilgangurinn með þessu ákvæði um verðskráningu. sem hér er í XI. kafla þessa frv. Nú má segja, að það er annað að ákveða. að þetta skuli vera svona, eða geta framkvæmt það — það sé ekki vandalaust að framkvæma þann verðlagsgrundvöll, sem hér er ákveðinn, og má vel segja, að svo sé. Þetta er að vissu leyti eins og erfitt reikningsdæmi, sem vissar forsendur eru fyrir, það þarf að reikna nákvæmlega út, til að rétt niðurstaða fáist. En ég efast ekki um það, að eftir því sem þessi mál verða framkvæmd lengur á þessum grundvelli, þá takist okkur smátt og smátt að finna þá aðferð við framkvæmd á þessari verðskráningu, sem allir geti við unað, og dæmi ég það meðal annars eftir þeirri niðurstöðu, sem á sínum tíma fékkst með sex manna nefndar starfinu og sáttmálanum. Það kom mörgum á óvart, að það skyldi geta orðið fullt samkomulag milli þeirra aðila, sem þá leiddu saman hesta sína, og sú byrjun lofaði góðu um það, að þegar lögð væri meiri vinna, meiri þekking og reynsla í þessa framkvæmd, þá mætti vel rakast. Hér er gert ráð fyrir því, að lausnin á þessu dæmi verði fengin í hendur 6 mönnum, fyrst og fremst þremur skipuðum af stéttarsambandi bænda og þremur skipuðum af samtökum neytenda í bæjum, en hagstofustjóri og formaður búreikningaskrifstofu landbúnaðarins verða þessum mönnum til aðstoðar í starfi sínu. Þessir aðilar, sem þarna eru valdir til þess að hafa þessi störf með höndum, eru valdir þannig, að sem mest þekking fáist í málið af hálfu þeirra stétta, sem hér er miðað við. Verð á landbúnaðarvörum á að vera þannig, að kjör bænda verði svipuð og kjör annarra vinnandi stétta. Það er ekki eingöngu átt við verkamenn. Þarna er líka átt við iðnaðarmenn, sjómenn og aðra og þess vegna þótti ríkisstj. rétt og skylt að velja til þessa starfs aðila, sem hafa skilning og þekkingu á högum og sjónarmiðum allra þessara stétta. Og þessir menn eiga að vinna að þessum málum á þeim grundvelli, sem segir í 4. gr., með aðstoð þeirra manna, sem mesta sérþekkingu hafa á þessu sviði, hagstofustjóra annars vegar og form. búreikningaskrifstofu landbúnaðarins hins vegar. Alþýðusamband Íslands og Landssamband iðnaðarmanna eru hvort tveggja landssamtök. og það þótti eðlilegt, að þeirra sjónarmið kæmust inn í þetta starf, en þar sem engin landssamtök eru til meðal íslenzkra fiskimanna, þótti undir þessum kringumstæðum rétt að taka Sjómannafélag Reykjavíkur inn í þessi störf, til þess að það gæti lagt fram sjómannasjónarmiðin, meðan ekki eru til landssamtök fyrir íslenzka sjómannastétt. Nú er það sama ákveðið hér, sem var í löggjöfinni um sex manna n. Ef allir þessir aðilar verða sammála, þá er niðurstaðan bindandi sem verðlagsgrundvöllur næstu árin. Hins vegar er hér varatill. um það, að ef n. tekst ekki að fá sameiginlega niðurstöðu í þessu starfi sínu, þá verði skipuð yfirnefnd, þar sem einn maður sé skipaður af hálfu fulltrúa framleiðenda, en annar af hálfu neytenda, en hagstofustjóri sé sjálfkjörinn oddamaður. Það þótti nauðsynlegt, að þessi yfirnefnd gæti verið til staðar, ef ekki tækist að koma á fullkomnu samkomulagi milli hinna 6 manna, til þess að þetta fyrirkomulag gæti orðið virkt, því að ef það hefði strandað, þá hefði ekkert verið til að taka við og þá voru þessi mál algerlega í lausu lofti — það varð að fá niðurstöðu um þau atriði. sem á milli bar. Ég hef orðið var þeirrar aths., sérstaklega af hálfu ýmissa bænda. að þeim þykir með þessari yfirnefnd hallað á sig, þar sem lokadómurinn í þessu máli verður framkvæmdur af einum framleiðanda en tveimur neytendum, og tala þeir þar um hagstofustjóra sem neytanda. Ég held, að þetta sé á nokkrum misskilningi byggt. Menn verða að athuga það að starfsemi þessarar n., verðákvörðunin, er ekki nákvæmlega það sama eins og þegar samdir eru venjulegir kaupsamningar milli verkamanna og atvinnurekenda, þar sem hver reynir að komast sem lengst fyrir hagsmuni sinnar stéttar, heldur er þetta, eins og ég sagði áðan, n. til þess að leysa að vísu nokkuð flókið reikningsdæmi eftir forsendum, sem fyrir fram eru gefnar og ef rétt er reiknað, þá á niðurstaðan að verða sú sem l. tilgreina. Það er aðeins farið fram á það, að bændur fái sama kaup og aðrar stéttir, þessi n. á ekkert að gera annað en að leysa þetta flókna dæmi. Starf þessarar yfirnefndar yrði fyrst og fremst vísindalegt. Það er flókið og vandasamt og krefst sérþekkingar. Því er eðlilegt, að oddamaðurinn sé sá vísindamaður, sem mesta þekkingu hefur á þessum málum, þ. e. hagstofustjóri. Ákvæðin um þessa yfirnefnd falla þó niður, ef hætt er að greiða niður með ríkisfé verð landbúnaðarafurða og ef ekki eru greiddar útflutningsuppbætur á þær. Ætlazt er til, að þeim verðgrundvelli, er fundinn verður, megi breyta, ef óskir um það koma frá öðrum hvorum aðila, framleiðendum eða neytendum. Með fenginni reynslu í framkvæmdinni er því tryggt, að bændur fái það verð, sem þeim ber. Gert er ráð fyrir, að bændur standi yfirleitt straum af þeim málum, sem frv. fjallar um, en rétt þótti, að kostnaður við verðskráninguna yrði greiddur úr ríkissjóði, því að verðskráningin er ekki gerð í þágu einnar stéttar, heldur allrar þjóðarinnar.

Þá kem ég að III. kafla, sem er um sauðfjárafurðir, og er hann nálega samhljóða núgildandi l. frá 1934 um sláturfjárafurðir.

IV. kafli er hins vegar nýmæli. Þar er gert ráð fyrir, að gerðar séu tilraunir um betra fyrirkomulag um sölu stórgripakjöts, en sala nauta- og hrossakjöts er nú utan verðlagsskipulagsins. Það er mjög nauðsynlegt að skipuleggja þessa sölu, einkum sölu hrossakjöts, því að sú sala grípur mjög inn í framleiðslu og sölu annars kjöts í landinu. Núverandi ástand getur skapað mikla erfiðleika, en eðlilegast, að sá aðili, er skipuleggur sölu kindakjöts, hafi einnig með höndum sölu annars kjöts, sem framleitt er hér á hverjum tíma.

V. kafli fjallar um sölu mjólkur og mjólkurafurða, og er hann í samræmi við það, sem núgildandi lög kveða á um þessi efni. Þó eru í 3 síðustu greinunum nokkur nýmæli, þar sem framleiðsluráði er gefið vald og skylda til að hafa meiri íhlutun um þessi efni en verið hefur. Þótt framleiðsla mjólkur og mjólkurafurða hafi stóraukizt undanfarin ár, þá hefur ætíð verið skortur á mjólk sums staðar á landinu, en offramleiðsla annars staðar. Slíkt ástand er ekki viðhlítandi, og landbúnaðinum er nauðsynlegt að nýta sem bezt alla markaði fyrir vörur sínar. Það verður því að beina framleiðslunni þangað, sem skortur er, enda jöfnum höndum til hagsbóta fyrir neytendur og framleiðendur. Í þessu frv. er því framleiðsluráði gert heimilt og skylt að taka þessi mál ákveðnari tökum og vinna að því að koma markaðsmálum mjólkurframleiðenda í sem allra bezt horf.

VI. kafli er um verðmiðlun og er hann að sumu leyti nýmæli. Samkv. núgildandi l. er þannig verðmiðlun á kjöti, að allir bændur fá sama verð á sölustað. Mismunur á hagnaði einstakra bænda er þá einungis undir því kominn, hve mikill kostnaður verður af flutningum. Þetta er ekki eins fyllilega útfært hvað snertir mjólkursölu. Hér er því lagt til að leggja nýtt gjald á alla mjólk, er seld er, til þess að verðmiðla milli mjólkursvæða, enda hafa undanfarið verið ýmsir erfiðleikar á að samræma verðið á hinum ýmsu mjólkurverðlagssvæðum. Það er því nauðsynlegt að koma á meiri teygju, meiri samvinnu milli verðlagssvæðanna. Rétt samkv. núgildandi l. hafa þeir einir, sem geta daglega flutt nýja og óskemmda mjólk á sölustað. Þetta ákvæði er mjög teygjanlegt, og er oft erfitt að segja, hverjir fullnægi þessum skilyrðum, hvort bóndinn hérna megin við ána eða við lækinn hafi þennan rétt, en bóndinn hinum megin ekki. Það sýnir sig og, að mjólkurverðlagssvæði Reykjavíkur hefur alltaf verið togað lengra og lengra út og nær nú austur í Skaftafellssýslu og vestur í Dalasýslu, og getur maður búizt við, að næstu sýslur bætist við hver af annarri. Úr þessu geta orðið árekstrar og örðugleikar, ef ekki er reynt að hliðra til með verðmiðlun milli verðlagssvæðanna. Það getur orðið hagkvæmasta leiðin að skipta landinu í ákveðin framleiðslusvæði. En þá getur staðið svo á, að ekki verði stætt á því gagnvart einstökum héruðum að segja: Þú skalt vinna úr mjólkinni eða þú skalt framleiða mjólk til sölu, nema ákvæðið um verðmiðlun sé fyrir hendi, og þetta ákvæði í VI. kafla, b-lið 28. gr., stefnir að því að koma á þeirri teygju milli mjólkurverðlagssvæðanna, sem nauðsynleg er. Verðlagsráð skipar samstjórn fyrir öll verðlagssvæðin, og b-liður 28. gr. miðar til að byrja með að því að jafna metin milli svæðanna og að afstýra því ranglæti, sem sum verðlagssvæði hafa orðið fyrir. Framleiðsluráði er í frv. falið að ákveða verðmiðlunargjaldið á hverjum tíma. Það getur orðið erfitt og vandasamt verk. Þeir, sem standa að þessu frv., töldu réttast að bændur sjálfir hefðu það með höndum, og afskipti löggjafarvaldsins kæmi ekki til, fyrr en annað væri útilokað. Bændum var fengið þetta verkefni í hendur, af því að þeim var bezt treyst til að leysa það vel af hendi.

VII. kafli þessa frv. er um iðnað úr landbúnaðarvörum og er hann nýmæli. Ákvæði um iðnað úr landbúnaðarvörum eiga fyllilega heima í lagabálki sem þessum, svo nátengdur er slíkur iðnaður framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða. Mjólkurlögin hafa að vísu náð yfir nokkurn iðnað, svo sem vinnslu mjólkurbúanna, en hér er bætt við öðrum iðnaði, sem framleiðsluráði er gert skylt að vaka yfir og afla markaðar fyrir, og enn fremur að beita sér fyrir því, að þær vörur verði framleiddar, sem markaður er fyrir.

Ég hef nú drepið á öll meginatriði þessa frv., að minnsta kosti öll helztu nýmæli, og álít ekki þörf að fara um frv. fleiri orðum á þessu stigi, en óska þess, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.