09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í þessu frv. er steypt saman helztu gildandi ákvæðum um sölu landbúnaðarafurða, og einnig eru hér ýmis nýmæli. Meginákvæðin eru, eins og hæstv. landbrh. tók fram, í samræmi við málefnasamning núverandi hæstv. ríkisstj. Mér sýnist sérstök ástæða til að ræða nokkuð V. kafla þessa frv. Meginatriði hans eru tekin orðrétt úr núgildandi lögum, en þó eru í 3 síðustu greinunum, eins og hæstv. landbrh. tók fram, nokkur nýmæli, sem miða að því að bæta úr mjólkurskorti á hverjum stað.

Það var árið 1935, að mjólkurlögin voru sett og mjólkursamsalan stofnuð. Þessi lög eru að mestu óbreytt enn og þetta frv. gerir ráð fyrir mjög litlum breytingum. Það væri því rétt að athuga, hvaða reynsla hefur fengizt af l. þau 12 ár, sem þau hafa verið í gildi, áður en þau eru lögfest hér á ný með litlum breytingum. Þessi l. hafa eðlilega tvær hliðar, aðra, er snýr að bændum, og hina, er snýr að neytendum. Ég mun ekki ræða viðhorf bænda, og ég efa ekki að margir bændur hafa hagnazt á l., þó ekki allir, en ég vildi gera lítillega að umræðuefni þá hliðina, er snýr að neytendum. 1935 þóttust neytendur ekki fá eins góða vöru og þeir æsktu og ekki nægilega lipurð í viðskiptum við mjólkursamsöluna. Þetta var mikið deilumál og baráttan oft hörð og alltaf öðru hverju síðan hefur verið barizt fyrir því, að neytendur fengju góða vöru og lipra afgreiðslu. En á 12 ára tíma hefur ástandið sorglega lítið batnað og hjakkar allt enn í sama farið. Stjórnendur samsölunnar hafa oft talað um hótfyndni af hálfu neytenda. er þeir hafa borið fram óskir sínar um betri vöru. Þessi mál voru nokkuð rædd hér á Alþ. fyrir þremur árum. og þá var talað um ofsóknir á hendur bændum eins og svo oft fyrr og síðar. En það, sem neytendur héldu fram, hefur nú verið staðfest í meginatriðum af sérfræðingum, sem þessi mál hafa rannsakað. Sérfræðingur, sem starfaði á vegum ríkisins og bæjarstjórnar Reykjavíkur. skilaði áliti sínu til bæjarstjórnarinnar 20. marz. Þá var með atkv. allra bæjarfulltrúa, einnig fulltrúa Framsfl., samþykkt svo hljóðandi ályktun, sem ég les hér, með leyfi hæstv. forseta: „Í sambandi við skýrslu um mjólkureftirlitið í Reykjavík, sem lögð hefur verið fyrir bæjarráð og bæjarstjórn, gerir bæjarstjórnin eftirfarandi ályktun: Það hefur um margra ára skeið verið alkunna meðal bæjarbúa, og nú og oft áður staðfest af skýrslum sérfræðinga, að ástandið í mjólkurmálum höfuðstaðarins er og hefur um langt skeið verið algerlega óviðunandi og háskalegt fyrir heilbrigði fólksins. Kemur þar margt til, svo sem það, að mjólkin er oft meingölluð, þegar hún kemur til mjólkurstöðvarinnar í Reykjavík, að vélar stöðvarinnar eru alls ófullnægjandi og óskiljanlegur dráttur á útvegun nýrra véla, að flöskumjólk er lítt fáanleg, að mjólkin stórspillist í búðunum vegna lélegs aðbúnaðar, skorts á kælingu o. fl. Samkv. gildandi l. eru mjólkurmálin ekki á valdi bæjarstjórnar. En bæjarstjórnin telur það skyldu sína vegna hollustu og heilbrigðismála í bænum að skora eindregið á Alþ., ríkisstj. og stjórn mjólkursamsölunnar að bjarga mjólkurmálunum nú þegar úr því ófremdarástandi, sem er til vansæmdar fyrir alla aðila.“ Þetta var einróma samþ. í tilefni af síðustu skýrslu sérfræðingsins. Í ályktuninni er drepið á helztu ágallana, er neytendur verða fyrir. Til viðbótar má geta þess, að það er almenn ósk húsmæðra að fá möguleika til að senda mjólkina heim, en ekki er við það komandi hjá samsölunni, þótt aðrar verzlanir telji sjálfsagt að senda vörur sínar heim til neytenda. Í skýrslu sérfræðingsins segir. að sum sýnishorn hafi sýnt 4. flokks mjólk með gerlafjölda 10–100 milljónir. þegar til samsölunnar kemur. Enn fremur segir þar, að þvottur á flöskum sé ófullkominn, að mjólkin spillist í búðunum vegna skorts á kælingu o. fl. Og niðurstaðan af öllum rannsóknum sérfræðingsins er sú að ástandið í mjólkursölumálunum sé mjög bágborið og sú vara er seld er hér til neytenda, sé verulega gölluð. Margir læknar hafa látið í ljós sams konar álit. Sérstaklega hefur ritstjóri „Heilbrigðs lífs“. dr. Gunnlaugur Claessen, ár eftir ár varað við hættunni af ástandinu í mjólkurmálunum. Ég get þessa hér. þegar nú á. þrátt fyrir þessa hörmulegu reynslu. að lögfesta það sama og verið hefur. Það er aðeins um eina úrbót að ræða, og hún er að bæta úr mjólkurskortinum. Það er vissulega þarflegt, en hvað snertir gæði mjólkurinnar er allt eins og áður. Ef til vill er þetta framkvæmdaratriði, en ekki löggjafar. En þar sem framkvæmdin hefur tekizt svo illa sem raun er á, má löggjafinn ekki ganga svo frá þessum málum, að ekki sé tryggt, að neytendur fái betri vöru en verið hefur. Það er eftirtektarvert, að í mjólkurlögunum stendur, að þeim, sem selja mjólk beint til neytenda, sé skylt að hlíta þeim fyrirmælum um hreinlæti og hollustuhætti við framleiðslu og afhendingu mjólkur, sem tilskilið er í lögum á hverjum tíma. En engin slík ákvæði eru um mjólkursamsöluna. Virðist því, að samsalan eigi að hafa eftirlit með sjálfri sér, eða sé, eins og landlæknir hefur orðað það, ríki í ríkinu.

Ég hef vakið máls á þessu þegar við 1. umr., því að nú er óhjákvæmilegt að setja inn í löggjöfina ákvæði, sem tryggi betur hagsmuni neytenda varðandi heilbrigði og hollustu mjólkurinnar. Ég vænti þess, að fyrir 2. umr. geti orðið viðræður milli mín eða bæjarstjórnar og þeirrar n., sem þetta mál fær til meðferðar, og hæstv. landbrh., og ég treysti því, að um þetta náist samkomulag, áður en frv. verður afgr.