10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. nr. 589. fari til landbn., sem ég á sæti í. En samt þykir mér ástæða til við þessa umr. að segja fáein orð um þetta mál, og til þess liggja alveg sérstakar ástæður, að ég tel rétt að minnast á þetta mál nokkrum orðum nú þegar.

Í vetur, nokkru fyrir jól, skipaði fyrrv. ráðh. fimm manna nefnd þingmanna, til þess að endurskoða l. um búnaðarráð, sem samþ. voru á síðasta þingi og kunn eru orðin öllum hv. þm. — Það kom brátt í ljós, eftir að þessi n. hafði verið skipuð og fór að starfa, sem ég var formaður í, að ekki geti orðið neitt samkomulag um úrlausn málsins, þar sem sumir nm. gerðu háar kröfur um, að l. um búnaðarráð yrðu afnumin eða að þeim yrði breytt. Varð því úr, að störfum n. var með samkomulagi frestað þar til um það bil sem núverandi hæstv. ríkisstj. tók við sínu starfi. En eftir það hóf n. starf að nýju. og klofnaði þá um málið í þrjá hluta. Í meiri hl. voru hæstv. samgmrh. og núverandi hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Skagf. Í öðrum minni hlutanum var ég, sem lagði áherzlu á, að búnaðarráðsl. sem kölluð hafa verið, héldust áfram óbreytt. Í hinum minni hl. var svo hv. 8. landsk., Ásmundur Sigurðsson, sem vildi nokkra breyt, á l. en var þó ekki hægt að ná samkomulagi af hans hálfu við meiri hl. n.

Ég leyfi mér nú að líta þannig á, að þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. nr. 589. beri að skoða sem nál. meiri hl. þessarar n., sem ég gat um. Og ég fyrir mitt leyti hef beðið eftir því að fá skýrslu eða álit í einhverri mynd frá þeim hv. meiri hl. n. Ég hef þess vegna ekki skilað neinu sérstöku áliti fram að þessu og hugsa mér að geyma það, þar til þetta mál kemur til afgreiðslu í landbn. Að hinu leytinu býst ég einnig við, að hv. 8. landsk., sem hefur einnig sérafstöðu um málið samkv. því, sem ég hef tekið fram, geymi að birta sitt álit, þangað til þetta mál — ef það heldur áfram gegnum þessa hv. d., sem ætla má, að það geri í einhverri mynd — kemur til meðferðar í landbn. hv. Ed.

Að þessu sinni skal ég ekki fara mjög langt út í að ræða þetta mál, en þó vil ég víkja nokkuð að þeim aðalatriðum, sem frv. þetta hefur að geyma og frá mínu sjónarmiði eru þau grundvallaratriði, sem þetta frv. hefur í sér fólgin.

Í fyrsta lagi eru tekin upp í þetta frv. öll meginatriði mjólkur- og kjötsölul. frá 1935 með þeim breyt., sem á þeim hafa orðið, að öðru leyti en því, sem snertir yfirstjórn þessara mála, sem búið var að breyta, áður en þetta frv. kom fram. Varðandi þennan hluta frv. er það að segja, að þar er ekki um að ræða neina verulega breyt., og að hinu leytinu liggur opið með allan þann ágreining varðandi þessi mál, sem orðið hefur á undanförnum árum út af þeirri löggjöf, og skal ég á þessu stigi ekki neitt út í það mál fara. En þetta frv. felur það í sér að stofna sérstaka n. 9 manna, sem ætlazt er til, að heiti framleiðsluráð landbúnaðarins, og þessi n. á að taka við störfum verðlagsn. landbúnaðarafurða, sem nú starfar og jafnframt störfum búnaðarráðs. Þessi n. á að hafa með höndum að selja og annast yfirstjórn og sölu, verkun og dreifingu og það, sem kemur til greina með vinnslu á landbúnaðarafurðum. Í sjálfu sér er þetta ekkert annað en að skipta um hlutverk, búa til nýja n. öðruvísi skipaða en þá, sem nú er, til að annast þau hlutverk, sem þar er um að ræða. En sá böggull fylgir skammrifi að þessi nýja n. á að taka við öllum störfum verðlagsn. öðrum en því að ákveða verðlag á vörunum. Það má hún ekki gera samkvæmt þessu frv., en eins og kunnugt er, er það verðlagsn. landbúnaðarafurða, sem hefur samkvæmt búnaðarráðsl. það hlutverk að ákveða verð á öllum landbúnaðarafurðum. Þessi nýja n. á að hafa framkvæmdina að öðru leyti, og skal ég ekki hér fara út í neinar aths. né spádóma um það, hvort það sé líklegt, að þessi nýja n., eftir því sem hún á að verða skipuð, muni rækja á komandi árum þetta hlutverk betur eða verr en verðlagsn. landbúnaðarafurða hefur gert. Í báðum n., þeirri, sem ætlazt er til, að skipuð verði samkvæmt þessu frv., og hinni, sem starfar samkvæmt gildandi 1., eru bændur og bændafulltrúar eingöngu, og þó að ég treysti því fyrir mitt leyti betur að hafa þessi mál í höndum verðlagsn. landbúnaðarafurða, eins og nú er, heldur en að breyta um, þá skal ég ekki fara út í neina spádóma um það, hvort betur muni gefast.

Þá kemur þriðja aðalatriðið. sem felst í þessu frv. Þar er um að ræða gerbreytingu á því, hvernig haga skuli verðlagningu landbúnaðarafurða á komandi árum. Nú væri út af fyrir sig ekkert við því að segja, þó að þessu væri breytt, ef það væri gert á heppilegan hátt, en þar liggur meginágreiningurinn, sem kom fram á síðasta þingi við meðferð búnaðarmálasjóðsl., sem kom fram í þeirri mþn., sem ég vék að áðan, og enn liggur opinn fyrir og hlýtur að verða í sambandi við afgreiðslu þessa máls hér á þingi. Samkvæmt 11. kafla frv. er til þess ætlazt, að það sé byrjað á því að skipa nýja sex manna n. til þess að reyna að finna grundvöll að verðlagningu landbúnaðarafurða, og er sú breyt. gerð frá því, sem var um sex manna n. fyrri, að nú eiga þrír fulltrúar í þessari n. að vera kosnir af stéttarsambandi bænda í stað þess, að áður var það einn fulltrúi frá Búnaðarfélagi Íslands. annar forstöðumaður búreikningaskrifstofu ríkisins og þriðji hagstofustjóri. Í öðru lagi er svo til þess ætlazt, að í þessari n. verði þrír fulltrúar neytenda, eins og það er orðað, einn tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn af Landssambandi iðnaðarmanna og einn af Sjómannafélagi Reykjavíkur.

Nú væri það út af fyrir sig gott, ef maður gæti búizt við, að það yrði fullkomið samkomulag í þessari n., en eins og sakir standa í okkar þjóðmálum, eins og nú er mikið deilt um álit sex manna n. gömlu og þær ráðstafanir, sem hún gerði, þá geri ég mér ekki neinar tyllivonir um, að það komi til greina, að í þessari nýju n. verði nokkurt samkomulag um verðlagningu fyrir allar landbúnaðarafurðir. Það má segja, að það sé nýtt í sambandi við þessa n., að hér er tekið inn í frv., að Sjómannafélag Reykjavíkur skuli tilnefna mann í staðinn fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem átti fulltrúa í n. samkvæmt hinum eldri l. Ég skal taka fram, að það er álit mitt, að það sé sízt að vantreysta í nokkru sjómannastétt landsins umfram það, sem gerist um aðrar stéttir. Þvert á móti treysti ég sjómannastéttinni betur en flestum öðrum stéttum fyrir utan mína stétt, bændastéttina. En ég verð að segja, að ég tel enga ástæðu til að treysta sjómönnum Reykjavíkur betur en öllum öðrum sjómönnum úti um allt land, en hér er það lagt undir Sjómannafélag Reykjavíkur eitt. Í öðru lagi er það, að Sjómannafélag Reykjavíkur er eitt af mörgum félögum í Alþýðusambandi Íslands, en það var ekki Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, ef ég man rétt, en þetta er út af fyrir sig aukaatriði. Í sjálfu sér hef ég ekkert út á það að setja, þó að það sé reynt að setja slíka sex manna n., eins og gert er ráð fyrir í þessum l., en þó vil ég segja, að það ætti að vera þannig, að hennar álit kæmi því aðeins til greina, að hún yrði öll sammála, eins og hér er raunar tekið fram, en að það væri enginn yfirdómstóll, sem tæki þar við. Ástæðan til þess, að gamla sex manna n. komst að sameiginlegri niðurstöðu, var sú, og það var skýrt fyrir þeim nm., að annaðhvort yrðu þeir að koma sér saman um verðlagsgrundvöll eða þá að ekkert tillit yrði tekið til þess starfs, sem þeir hefðu með höndum.

Þá kem ég að því höfuðágreiningsefni, sem er í sambandi við þetta mál, en það er það, að ef þessi sex manna n. nær ekki samkomulagi, og ég reikna ekki með, að það verði, eins og nú standa sakir, þá á að koma þriggja manna yfirdómur, sem skertur þessu mikla vandamáli, sem eins og sakir standa, er eitt allra mesta vandamál okkar þjóðfélags, eins og nú er komið, og hefur verið það, og þessi dómstóli á að skera úr um verðið. Í honum er ætlazt til, að verði einn maður frá bændastéttinni, annar frá neytendum, ótiltekið, hvernig hann skuli kosinn, og þriðji hagstofustjóri. Nú má reikna með, að ekki verði samkomulag í þessari sex manna n., og eins geri ég ráð fyrir, að ekki verði frekar samkomulag milli þeirra sérstöku fulltrúa, sem kosnir eru annar frá neytendum, en hinn frá framleiðendum í þennan gerðardómstól. Og þá verður endirinn sá, að verðlagsmál landbúnaðarins verða í hendi eins embættismanns, hagstofustjórans í Reykjavík. Að vísu er núverandi hagstofustjóri alkunnur heiðursmaður og ekki nema gott um það að segja, að sú persóna hafi þetta vald. En hluturinn er sá, að ég fyrir mitt leyti vil ekki leggja þetta vald í hendur eins manns. Hér er í rauninni verið að snúa inn á þá leið, sem farin var á því tímabili, sem kjötverðlagsn. og mjólkurverðlagsn. voru starfandi, en það var að skipa menn frá samtökum neytenda og frá framleiðendum og einn oddamann, sem var skipaður af þáverandi ríkisstj., og það var sá oddamaður, sem hafði valdið yfir því, hvaða verðlag bændur landsins fengu fyrir sínar vörur. Á þeim tíma gekk það svo, að þeim atvinnuvegi var haldið í kreppuástandi.

Það má kannske segja, að það séu mjög breyttar ástæður, sem mætti kannske ætla, að hefðu breytt afstöðu minni hvað búnaðarráð snertir, vegna þeirrar breyt., sem orðið hefur á ríkisstj., síðan þau l. voru sett. Ég skal ekki leyna því, að ég treysti hæstv. fyrrv. landbrh. betur en þeim hæstv. ráðh., sem nú skipar það sæti, og það hefur farið nokkurt orð af því, að ég treysti henni ekki og bæri ekki meira traust til framsóknarmanna en góðu hófi gegnir. En þó er það svo, að ég ber svo mikið traust til hæstv. núverandi landbrh., að ég vil heldur eiga það undir honum að skipa 25 bændur og bændafulltrúa í búnaðarráð, þegar það á að skipa næst, heldur en að gerbreyta því fyrirkomulagi, sem hér er um að ræða, og leggja þetta mikla vald í hendur eins embættismanns í Reykjavík, eins og auðsjáanlega er gert með þessum l. Og það verð ég að segja, að þeir hv. þm. úr Framsfl., sem mest hömuðust hér í fyrra gegn búnaðarráðsl. og höfðu það helzt út á þau að setja, að valdið yfir þessum málum væri ekki í höndum bænda, hafa nú tekið nokkuð mikið skref aftur á bak, því að með þessu frv. hér er valdið tekið úr höndum bænda og sett í hendur eins einasta manns, sem á að hafa yfirstjórn og úrslitavald um það, hvaða verðlag á komandi árum á að vera á afurðum bænda landsins.

Þetta eru þau aðalatriði, sem mér virðist þetta mál hafa að geyma, og ég sé ekki á þessu stigi ástæðu til að fara mörgum orðum um ýmislegt af því, sem hæstv. landbrh. flutti í sinni ræðu hér í gær, enda þótt ég hafi ýmislegt við það að athuga, sem þar kom fram. En í þessum orðum, sem ég hef hér flutt, er markaður sá ágreiningur, sem er milli mín og annarra aðila, sem standa að þessu frv., og í sambandi við þetta mál. Síðar mun ég svo gera nánari grein fyrir því, þegar það kemur til afgreiðslu í landbn., hvaða nánari og fleiri orsakir liggja til þess, að ég get ekki með nokkru móti léð þessu frv. mitt fylgi í þeirri mynd, sem það hefur nú.