11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það var út af ummælum hæstv. atvmrh. bæði nú í þessari ræðu og áður um skipun þessa ráðs, sem á að taka ákvörðun um verð landbúnaðarafurða. Það er gert ráð fyrir, að þetta verði 6 menn, og eru 3 tilnefndir af stjórn stéttarsambands bænda, einn af Alþýðusambandi Íslands einn af Landssambandi iðnaðarmanna og einn af Sjómannafélagi Reykjavíkur. Ég verð nú að segja það, að þessi skipun er næsta einkennileg, og ég skil ekki, hvað fyrir ríkisstj. vakir með þessari skipun ráðsins af hendi neytenda. Ég get ekki séð neina brú í þessu, nema þarna eigi að skipa eftir flokkum, þannig að Alþýðusambandið tilnefni sósíalista, Iðnaðarsambandið sjálfstæðismann og Sjómannafélagið alþýðuflokksmann. Þetta Landssamband iðnaðarmanna er ekki stéttarfélag, heldur atvinnufélag meistara og tiltölulega fámenn samtök áhugamanna. Ef það er nú svo, að meiningin sé að skipa eftir flokkum, þá er það ákaflega misráðið. Þessi hugsun, að koma á samkomulagi milli framleiðenda og neytenda um verð á landbúnaðarvörum, verður að byggjast á því, að ekki flokkarnir, heldur stéttarsamtökin komi sér saman um það, t. d. stéttarsamband bænda og stéttarsamtök launþega. Ég býst við, að hæstv. atvmrh. hefði ekki getað fundið landssamband, þótt hann leitaði með logandi ljósi, sem vildi tilnefna alþýðuflokksmann í nefndina, og því gripið til þess í vandræðum sínum að láta félag í Reykjavík skipa manninn til að fylla upp í allt kramið, en slík ráðstöfun er áreiðanlega mjög misráðin, en öðruvísi verður þetta ekki skilið, að láta sjómannafélagið skipa þarna einn manninn.

Hæstv. ráðh. lagði áherzlu á það, að bændur vildu viðhalda kerfi 6 manna nefndar álitsins. sem alþýðusamtökin féllust á á sínum tíma og sýndu með því, að þau höfðu áhuga á öllu öðru en því að vilja eiga í deilum við bændur eða veikja kost þeirra, enda vildu þau mikið á sig leggja til samkomulags. En ef ný 6 manna nefnd á að fjalla um þessi mál, nefnd, sem ekki er skipuð á stéttarlegum grundvelli, heldur eftir flokkssjónarmiðum, þá getur hæstv. ráðh. verið viss um, að hún ber ekki tilætlaðan árangur, því að frá svona nefnd kemur ekkert það, sem launþegarnir taka mark á.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði þótt rétt, að hrein sjómannasjónarmið kæmu fram, og með því á að réttlæta þennan þátt Sjómannafélags Reykjavíkur. En Sjómannafélag Reykjavíkur er í Alþýðusambandinu, eins og öll önnur sjómannafélög á landinu, og víða eru sameiginleg félög sjómanna og verkamanna, og þessi félög eru í Alþýðusambandinu. Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri til landssamband sjómanna. Hver er meiningin með þessu? Er það kannske meiningin að ýta undir sjómannafélagið til að stofna landssamband og kljúfa með því Alþýðusambandið? Er þetta kannske byrjunin á því verki? Ef svo er, þá er það ekki í samræmi við hagsmuni bænda. Eftir þeirri reynslu, sem bændur hafa haft af 6 manna nefndinni, þá ættu þeir ekki að reyna að kljúfa alþýðusamtökin. það kemur úr hörðustu átt.

Sjómannafélag Reykjavíkur er ekkert sérstakt verkalýðsfélag, heldur er það félag, sem er innan Alþýðusambandsins. Hins vegar vita allir, hvernig er lagað með stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur. Kosningafyrirkomulagið er þar svo úrelt, að það hefur fram að þessu verið útilokað fyrir sjómennina sjálfa að taka stjórnina í sínar hendur. Það er kosin sérstök undirbúningsn. á fundi félagsins, sem stillir svo upp 3 mönnum — aðra menn er ekki hægt að kjósa — og þeir, sem ekki geta haft áhrif á þessa n., geta ekki haft áhrif á kosninguna. Síðan boðar stjórnin til fundar, þegar sjómenn eru ekki við, svo að á þessa fundi koma aðallega landmenn og gamlir sjómenn, sem ekki eru starfandi sjómenn. Á þessu byggist lýðræði þeirrar forustu, sem nú er í Sjómannafélagi Reykjavíkur. Ég held, að það sé ekki ástæða til þess að vera að fela sig á bak við nafn Sjómannafélags Reykjavíkur. Ég held, að það hefði þá verið miklu betra, að Alþfl. hefði haft einn mann í þessari n. Það hefði verið fullt svo viðkunnanlegt að taka það skýrt fram.

Ef svo er, að þarna eigi að vera að ræða um stéttarsamtök bænda og samtök með þeim og verkalýðnum, þá er þetta skökk leið. Eðlilegast væri að Alþýðusamband Íslands tilnefndi 2 menn, en samband starfsmanna ríkis og bæja 1 mann. Og það er beinlínis í samræmi við hagsmuni bænda, að fulltrúar þeirra hér á Alþ. beiti sér fyrir því, en séu ekki að koma upp stofnun til þess að ráða verðlagi og til þess að reyna að kljúfa samtök verkalýðsins í landinu. Ég vona, að bændur sjái í gegnum svona brögð hjá ríkisstj.

Þá er annað atriði, sem ég vildi gjarnan koma inn á í sambandi við 18. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að dreifing og sala mjólkur sé í höndum bænda. Ég held, að þetta sé stórfelldur misskilningur frá sjónarmiði bænda. Hvaða vit er í því fyrir bændur að vera að skapa óánægju í þeirra garð og tortryggni, sem alveg getur orðið fyrir mistök við dreifingu mjólkur? Hvers vegna vilja þeir ekki selja mjólkina til bæjanna og láta bæjarbúa sjálfa annast þessa dreifingu? Það er ekki vafi á því, að ýmis slóðaskapur og mistök, sem hafa orðið á rekstri samsölunnar í Reykjavík, sem ég ætla ekki að fara neitt út í hér, hefur orðið til þess að torvelda mikið samstarf neytenda og bænda, og svo mun verða í framtíðinni, og ef á að verða samkomulag um verð á þessum mjólkurafurðum, þá verður að hreyta þessu fyrirkomulagi. En það er náttúrlega það, sem Framsfl. telur sér alveg nauðsynlegt, að geta ráðið fyrir fyrirtæki hér í Reykjavík eins og mjólkursamsölunni. Þetta fyrirtæki er náttúrlega einstaklega vel til þess fallið að gera það að pólitísku valdatæki, ef það er notað á þann hátt. En Framsfl. hefur með því skaðað umbjóðendur sína mikið með því að leggja svona mikið upp úr þessu pólitíska tæki. En það er í alla staði betra fyrir bændur, að dreifing mjólkurinnar væri í höndum neytendanna sjálfra, svo að þeir geti ekki aðra ásakað en sjálfa sig, ef illa tekst til með dreifinguna.

Ég vil aðeins beina því til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að taka þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar. Ég álít æskilegast, að neytendur hafi þetta í sínum höndum, og það tel ég líka bezt fyrir bændur. En ef ekki næst samkomulag um þetta, þá verði það athugað, hvort ekki er hægt að skipta þessu meira á milli neytenda og bænda.