11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að bæta nokkrum orðum við það, sem ég sagði hér í gær, í tilefni af ræðu hæstv. atvmrh.

Hæstv. ráðh. byrjaði á því í sinni ræðu að neita því, að frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 589, væri nál. frá meiri hl. í n. Og út af fyrir sig er það rétt hjá hæstv. ráðh., að það kemur ekki fram sem nál. Hinu neitaði hann ekki, sem ég vildi halda hér fram í gær, að það bæri að skoða það sem nál., af því að það væri samið af þessum sömu mönnum og af því að það kæmi fram í þessu frv. álit þeirra manna á málinu og útfærsla á þessum lið í samvinnu við ríkisstj. Ég lýsti mig með öllu ófáanlegan til þess að samþykkja þennan lið að stjórnarsamningnum. Og hef ég þess vegna frá því sjónarmiði haft óbundnar hendur um það atriði. Hæstv. atvmrh. sagði, að hann hefði eiginlega bítizt við því, að ég hefði mjög breytt um skoðun á búnaðarráðsl., þegar í sæti landbrh. væri kominn svo vondur maður að mínu áliti sem hann væri. En mér skilst að þessi skoðanaskipti verði honum vonbrigði. En hvað sem því líður, þá mundi ég aldrei segja, að hæstv. atvmrh. væri vondur maður. Hitt er annað mál, að þær skoðanir og sú stefna, sem hæstv. ráðh. vinnur fyrir eða hefur staðið að, sé vond. Það er tvennt ólíkt. Og þó að ég skoði hæstv. ráðh. sem minn pólitíska andstæðing, þá treysti ég honum nú svo vel, að ég vil heldur, eins og ég lýsti hér yfir í gær, láta hann skipa ráð 25 bænda til þess að stjórna þessum málum en hlaupa svo langt aftur á bak eins og ég tel, að sé gert með þessu frv.

Hæstv. ráðh. tók það fram, að það yrði að vera svo, að bændur gætu ekki kennt neinum öðrum en sér um, ef illa færi um sölu á þeirra vörum. Það er að vísu dálítið rétt í þessu, að ef bændur hefðu varðandi sölu á sínum vörum ekki á neitt annað að treysta en markaði innan lands og utan, þá væri þetta rétt. En nú er ekki til að dreifa að svo sé, vegna þess að bændastéttin er komin í þá aðstöðu, að hún verður að mjög miklu leyti að treysta á fjárhag ríkisins til þess að tryggja sölu sinna afurða. Þess vegna og einmitt þess vegna yrði það eðlilegt, að það sé samband á milli ráðandi ríkisstj. á hverjum tíma og þeirra bændafulltrúa, sem eiga að fara með yfirstjórn þeirra mála. Það er þess vegna ekki neinum vafa undirorpið, að með þessu frv. er verið að taka valdið úr höndum bænda, að því er verðlagið snertir, og kasta því í hendur þriggja manna nefndar, því að ég sný ekki frá því, að sú sex manna n., sem sett yrði, eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv., mundi, eins og nú stendur á í okkar þjóðfélagi, ekki hafa neinar líkur til þess að fá úrlausn með því. að þar yrðu allir nm. á eitt sáttir. Og mátti heyra nokkrar líkur fyrir því á ræðu hv. þm. Siglf.

Nú var það þó svo, að í mþn. lýsti ég því yfir, að ég væri til í það, og það tilboð stendur enn, að vera með í því að setja inn í búnaðarráðsl. ákvæði um að skipa sex manna n., sem ég mundi vilja skipa með nokkuð öðrum hætti en þessi er, til þess að endurskoða sex manna nefndarálitið, og það væri ákveðið, að ef hún yrði á eitt sátt, þá gilti það og verðlagið yrði látið fara eftir því, annars yrði ekki mark á því tekið og verðlagsn. yrði að fara sínu fram.

Hæstv. ráðh. sagði, að hér væri allt öðru máli að gegna en hefði verið á þeim tímum, þegar kjöt- og mjólkurverðlagsn. störfuðu, vegna þess að þeir hefðu ekki haft neinar formúlur að fara eftir með sitt verðlag, en nú væri ákveðið samkvæmt þessu frv., að sú n., sem á að ákveða verðgrundvöll, yrði að fara eftir þeim formúlum, að bændur hefðu álíka tekjur og aðrar vinnandi stéttir í landinu. Ég hafði nú ætlað það — og það kom a. m. k. fram í umr., þó að það sé ekki greinilega tekið fram í afurðasölul. — og það hafa víst flestir ætlað, að bændum væru ekki sköpuð verri kjör en öðrum í landinu. En framkvæmd á þeim l. var slík, að bændum voru í framkvæmdinni sköpuð verri kjör en öðrum stéttum þá í landinu, og það var gert af þeim stjórnskipuðu fulltrúum, sem réðu verðinu á þeim tíma fram að 1942. En þá skipti mjög mikið um, af því að mannaskipti urðu í nefndinni.

Nú er það svo, eins og allir vita, að það er svo breytileg aðstaða á allan hátt fyrir hina einstöku bændur landsins, að það verður alltaf meira og minna álitamál, hvernig á að finna meðaltal út úr því, hvað sé sambærilegt við aðrar vinnandi stéttir landsins. Og þó að það sé rétt, að bændastéttin hafi yfirleitt verið ánægð með þá útkomu, sem varð á sex manna nefndar álitinu, þá féllu þó l. úr gildi strax næsta haust. Þess vegna hefur verið, síðan búnaðarráðsl. voru sett, reynt að fara inn á þær leiðir og reynt að tryggja bændastéttinni svo hátt verð og öryggi fyrir sínar vörur eins og kostur hefur verið. En út í það skal ég ekki fara nánar. En frá því sný ég ekki, sem ég hélt fram hér í gær, því að það er augljóst mál, að með þessu frv. er verðlagsvaldið lagt í hendur eins embættismanns hér í Reykjavík, hagstofustjóra.

Nú veit ég ekki, hvort ríkisstj. hefur kynnt sér, hvort hagstofustjóri vill taka við þessu starfi, sem hér er um að ræða, því að þetta er eitthvert hið vandasamasta starf vegna þess, hve það hefur mikil áhrif á fjármál okkar lands. En þótt hagstofustjóri fengist til þess að taka við þessu starfi, þá vil ég ekki eiga neinn hlut í því að setja þau l., sem verða til þess að leggja þetta vald yfir svo miklum hluta af fjármálum landsins í hendur eins manns, vegna þess að líkurnar eru svo ákaflega litlar, eins og nú standa sakir, til þess að samkomulag verði með þeim mönnum, sem þarna eiga að semja.

Nú er það svo, að búnaðarráðsl. eru þannig til komin, eins og kunnugt er, að stjórnarflokkarnir sömdu um það að afgreiða á þennan hátt þetta vandasama mál. Og ég verð að segja, að þeir flokkar eða þeirra fulltrúar sýndu í því ákaflega mikið víðsýni gagnvart bændum þessa lands. Tímamenn hafa nokkuð oft kallað þessa þrjá flokka, Sjálfstfl., Sósfl. og Alþfl., bæjarflokka. Að því leyti er það rétt, að verkalýðsflokkarnir hafa sitt fylgi að mestu leyti í bæjum og kaupstöðum landsins. Og hvað Sjálfstfl. snertir, hafði hann um 26 þús. atkv. samkv. síðustu kosningum, og töluverður meiri hl. þess atkvæðamagns var úr bæjum og þorpum. Og þegar þessir þrír flokkar sýna það víðsýni að leggja verðlagið, sem hér er þýðingarmesta vandamál bændastéttarinnar, í hendur bændanna sjálfra, þá er það samningur, sem er heimskulegra en allt annað fyrir fulltrúa bændanna að rifta. Þess vegna er það svo, að hæstv. atvmrh., sem er formaður Búnaðarfélagsins, og ber því að skoða hann sem fulltrúa bændanna — hann hefur látið hlunnfara sig mjög í þessu tilfelli. Og ég held, að hann mætti vera mér og öðrum þm. þakklátur fyrir það, ef við gætum orkað því, að þetta frv. dagaði uppi hér á þingi eða yrði fellt, og sérstaklega vegna þess, að nú hefur hann í sinni hendi það æskilega vald, sem hann og hans flokkur öfunduðu fyrrv. landbrh. svo mjög af, að fá að skipa 25 bændur í búnaðarráð til þess að leysa úr þessum málum.

Í stuttu máli sagt er mín afstaða þannig, að ég mun gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir, að þetta frv. verði samþ. Og ég vona, að ég geri hæstv. atvmrh. þægt verk með því. Hitt er ég alveg viss um, að bændastétt landsins er það til ills frá því, sem nú er, að sú breyting, sem lagt er til hér, að verði gerð með þessu frv., verði samþ., því að frv. er í öllum atriðum spor aftur á bak, en ekki áfram. Í frv. er ekkert atriði, sem frá sjónarmiði bænda er til framfara frá því skipulagi, sem nú er.