14.05.1947
Neðri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég allrækilega grein fyrir minni skoðun á þessu frv., og öll aðalatriði í þeirri skoðun minni hef ég endurtekið í nál. mínu á þskj. 833. Get ég því við þessa umr. að mestu leyti vísað til þess. sem þar er sagt, nema sérstakt tilefni gefist. En ég skal taka fram, að það er ekki rétt, sem segir hér í nál. meiri hl. landbn., að ég hafi nokkurn tíma lýst yfir á nefndarfundi, að ég mundi leggja til að vísa þessu máli til ríkisstj., því að það hefur mér aldrei dottið í hug. Ég lýsti yfir, að ég mundi leggja til í mínu nál., að málinu væri vísað frá með rökst. dagskrá, sem þýðir sama og að fella það. Varðandi brtt. meiri hl. landbn. skal ég taka það fram, að eins og skiljanlegt er, hef ég ekki átt í þeim neinn hlut. Ég skal játa, að sumar þeirra — og kannske flestar — eru til bóta frá frv. og að nokkru leyti fram komnar fyrir ósk samsölustjórnar og bæjarráðs Reykjavíkur. Út í þessar till. skal ég ekki fara á þessu stigi málsins. Komi þær til atkv., býst ég við að láta sumar hlutlausar, sumar get ég að sjálfsögðu samþ. En aðalandstaða mín gegn frv. er, eins og fram er tekið í nál. mínu, af tveimur ástæðum. Annars vegar er það, að ég tel hér verið að stíga spor aftur á bak varðandi hagsmuni bændastéttarinnar frá þeim l., sem nú gilda um verðlagningu og sölu afurða, því að ég tel hagsmuni bænda og sveitamanna miklu betur tryggða með þeim l., sem samþ. voru hér í fyrra og hafa hlotið nafnið búnaðarráðslögin. Það mál er þrautrætt hér á Alþ., svo að ekki virðist mikil ástæða til að ganga langt út í þann ágreining hér. Í annan stað tel ég, að það nýja fyrirkomulag. sem nú er hér samkv. þessu frv., sett upp um verðlagningu afurða — sem alltaf hlýtur að verða aðalatriðið í kappi framleiðenda um að bæta aðstöðu sína — búi miklu verr um hnútana af þeirra hálfu en gert er með þeim l., sem nú gilda og sett voru á síðasta þingi með samkomulagi þriggja þingflokka. Í annan stað lít ég svo á, að sú endurskoðun, sem hér hefur farið fram á afurðasölulöggjöfinni, sé að ýmsu leyti ekki svo fullnægjandi. að þeirra hluta vegna sé forsvaranlegt að taka öll afurðasölulögin svo undirbúningslaust til afgreiðslu nú og þess vegna þurfi nánari rannsókn og undirbúningur og umræður að fara fram, áður en frv. um það efni verði samþ.

Þetta eru þau atriði, sem gera það að verkum, að ég legg til á þskj. 833, að málinu verði vísað frá með þeirri rökst. dagskrá, sem þar hermir. Í þeim fskj., sem ég hef látið prenta með mínu nál., sem eru umsögn búnaðarráðs, umsögn bæjarráðs Reykjavíkur, umsögn samsölustjórnar, koma fram ýmis atriði þessum skilningi til stuðnings, og sé ég ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að fara að rekja þau ummæli, sem þar eru höfð, nema sérstakt tilefni gefist til, vegna þess að ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi kynnt sér þessi skjöl. En í öllum þessum umsögnum kemur fram stuðningur við þá skoðun, sem ég held fram, að hér sé að sumu leyti gengið aftur á bak og að sumu leyti sé undirbúningur ófullnægjandi.