19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) Við 2. umr. kom það í ljós, að meiri hl. n. er fylgjandi því að afnema l. um búnaðarráð, og einnig kom það fram, að hæstv. núv. landbrh. ber minna traust til bænda en fyrrv. hæstv. landbrh., því að hann virðist ekki treysta sér til að finna 25 bændur til að verðleggja landbúnaðarvörur. Ég hef leyft mér að bera fram tvær brtt. við þetta frv.. og eru þær prentaðar á þskj. 875. Þessar brtt. fjalla eingöngu um þær gr., sem eru aðalbreytingar í því frá gildandi l. og eru 1. og 5. gr. frv. — I. gr. frv. er um stofnun framleiðsluráðs, sem skipað sé 9 mönnum, en í minni brtt. legg ég til, að það sé skipað 12 mönnum og þeir séu þannig valdir, að stéttarsamband bænda kjósi með hlutfallskosningu á fulltrúafundi sínum 6 meðlimi eða helming ráðsmanna, S. Í. S. kjósi á sama hátt 4 menn á aðalfundi sínum og mjólkursamsalan í Reykjavík og Sláturfélag Suðurlands leggi til sinn manninn hvort. Með þessari brtt. ætlast ég til, að fleiri sjónarmið komi fram en ella. Og varðandi aðalbreyt., að S. Í. S. kjósi 4 af meðlimum ráðsins, þá er grundvöllurinn sá, að innan S. Í. S. eru nú flest þau félög, sem hafa með sölu landbúnaðarvara að gera. Ég legg áherzlu á, að stéttarsamband bænda og S. Í. S. viðhafi hlutfallskosningu á fulltrúafundi sínum. þegar kosið er til ráðsins, svo að ekki nái kosningu pólitískt einlitt lið. Ég vil taka það fram, sem ég vék að við 2. umr. málsins, að ef ákvæði 5. gr., eins og þau eru, standa þar, þá hefur þetta framleiðsluráð ekkert vald til að kveða á um verð og þá er ekki beinlínis ástæða til að blanda stéttarsambandinu þar inn í og væri þá eðlilegt, að sölufélag hefði framkvæmdina með höndum.

Hin síðari brtt. mín er um orðalag á 5. gr., sem er kjarninn að því er snertir breyt. frá fyrri lögum. Undirstöðuatriðið í þeirri grein, eins og hún er, er að úrskurðarvaldið sé hjá gerðardómi, þar sem bændur eigi einn fulltrúa, neytendur einn og hagstofustjóri sá oddamaður þessarar yfirnefndar. Þetta er það sama og að úrskurða með gerðardómi, þegar ágreiningur verður um kaup og kjör milli verkamanna og atvinnurekenda. og höfum við fengið reynslu frá árinu 1942, hvernig fór með gerðardómslög, sem byggðust á þeim grundvelli. En ég vil ekki segja um, hvort heppilegt sé, að deiluatriði um kaup og kjör séu útkljáð með gerðardómi eða ekki, en hinu mótmæli ég að bændastéttin sé tekin út úr, eins og hér er gert með 5. gr. Þess vegna legg ég til í síðari brtt. minni, að sex manna nefnd sé skipuð til að endurskoða sex manna nefndar sáttmálann frá árinu 1943. En samkv. greininni er ekkert annað en að þessi n. eigi að búa til nýjan verðgrundvöll án tillits til samkomulags. Auk þess er gert ráð fyrir í brtt. minni, að þeir þrír fulltrúar, sem kosnir eru af stéttarsambandi bænda, að þeir séu ekki í framleiðsluráði, því að það er alger ófæra. Enn fremur legg ég til, að breytt sé um einn aðilann, sem leggur til fulltrúa í framleiðsluráð, því að samkv. frv. er lagt til, að einn fulltrúi sé frá Sjómannafélagi Reykjavíkur. Það er út af fyrir sig gott félag, en er ein deild í Alþýðusambandi Íslands, og landbn. barst bréf frá farm. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, þar sem hann mótmælir, að Sjómannafélagið sé tekið fram yfir það, enda er eðlilegra, að Farmanna- og fiskimannasambandið. sem nær um allt land, hafi fulltrúa í ráðinu. Þá er lokaákvæðið í síðari brtt. minni, og er kannske höfuðatriðið, að ef ekki verður samkomulag hjá sex manna nefndinni, þá skal verðið vera ákveðið af framleiðsluráði, og er ég þá á sömu götu og í fyrra, þegar deila stóð yfir um búnaðarráð. Með tilliti til þessa ákvæðis legg ég til, að fjölgað sé í framleiðsluráði og það sé kosið á annan hátt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, og varðandi önnur atriði þessa frv., þá skal ég ekki fara út í það. En ef mínar till. verða ekki samþ., þá mun ég greiða atkv. gegn þessu frv.