19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Mig furðar satt að segja ekki lítið á þessum ræðuhöldum hv. borgarstjóra, og það sýnist sem hv. þm, sé mikið í mun að viðhalda æsingu í kringum mjólkurmálin hér. Hv. þm. segir, að Sigurður Pétursson gerlafræðingur hafi verið flæmdur frá störfum, en með bréfi 2. nóv. 1945 var hann settur fyrst um sinn, þar til öðruvísi yrði ákveðið. Mjólkureftirlit Sigurðar Péturssonar hefur verið sem aukastarf hans, því að hann er starfsmaður hjá atvinnudeild háskólans. En á s. l. hausti var gefin út ný mjólkurreglugerð, og skal þá upptaka mjólkursýnishorna heyra undir héraðslækna og jafnframt koma nýtt starf við mjólkureftirlit um landið allt. Þá var um það að ræða, hvort eðlilegt væri, að Sigurður Pétursson hefði þetta eftirlitsstarf með höndum sem aukastarf eða maður, sem gat sinnt því óskiptur, og var ég ekki í vafa um, að þetta bæri að gera að aðalstarfi. Hér er um svo mikið starf að ræða, að óhugsandi var, að gerlafræðingur, sem er fastur starfsmaður hjá atvinnudeild háskólans, hefði þetta með höndum. Að vísu var till. um. að honum yrði falið þetta sem aukastarf, en ég gat ekki fallizt á það. Mér þykir einkennilegt að vera ámælt fyrir þetta af mönnum, sem telja sig vilja auka mjólkureftirlitið, að ráðinn sé maður til þessa starfs, sem getur alfarið snúið sér að því að byggja upp það, sem óunnið er í þessu efni víðs vegar, bæði að lagfæra þá skipun, sem er í Reykjavík, og að koma þessu á fót annars staðar á landinu. Það er það starf, sem þessum manni er ætlað að gera. Líka er hugsað, að hann annist fyrir héraðslækna upptöku á mjólkursýnishornum. Það kann að reynast honum ofvaxið að gera þetta allt, og verður það til athugunar síðar.

Að leyfa sér að kalla, að ég hafi vikið Sigurði Péturssyni frá, er algerlega röng túlkun á því, sem hefur gerzt. Hann var settur til bráðabirgða með bréfi 2. nóv. Skipulaginu var breytt með reglugerð. Hér er um nýtt starf að ræða, eins og sést á því, að þegar ég tek við, liggja fyrir skjöl í ráðuneytinu og bollaleggingar um það, hvernig skuli komið fyrir ráðningu í þetta nýja starf. M. a. var till., að Sigurði yrði falið þetta sem aukastarf, sem ég gat ekki fallizt á. Ég skýrði frá því um daginn og endurtek það, að meðan málið var á döfinni í ráðuneytinu, kom fulltrúi frá Húsmæðrafélagi Reykjavíkur og mæltist til þess, að skipaður yrði í þetta mjólkurfræðingur, sem gæti gefið sig að því algerlega, og kom með fundarályktun um það. Og húsmæðrafélaginu var vel kunnugt um það; að Sigurður vildi ekki skipta á því starfi, sem hann hafði við atvinnudeild háskólans, og ganga alfarið í þetta starf. Ég sagði fulltrúanum frá Húsmæðrafélagi Reykjavíkur, að miðað væri að því að auka mjólkureftirlitið og fela það manni, sem gæti gefið sig að því alfarið, væri það Þórhallur Halldórsson frá Hvanneyri. Lét hún fyrir sitt leyti vel yfir því. Nú gerðist hins vegar það, að þegar átti að setja hann, baðst hann undan og vildi taka að sér annað starf.

Viðvíkjandi því, að ekki var borið undir bæjaryfirvöld Reykjavíkur, hver væri skipaður mjólkureftirlitsmaður fyrir allt landið, þá var það kannske yfirsjón. En mér hugkvæmdist það ekki, þó að ég vildi hafa alla góða samvinnu: Hitt veit ég — og hv. þm. leiðréttir mig, ef það er misskilningur —, að núverandi borgarstjóra, hv. þm. Snæf., var mjög vel kunnugt, að það stóð til að skipa Þórhall Halldórsson í þetta starf. Hefði hann haft eitthvað við þetta að athuga, hefði hann getað stutt á fóninn og haft viðtal.

Ég kann því ekki vel, að ráðizt hefur verið á mig út af Sigurði Péturssyni og sagt, að ég hafi komið óviðurkvæmilega fram gagnvart honum, því að það er ekki rétt. Ég ætla ekki að ræða, hvernig hann rækti starf sitt. Ég er ekki nógu kunnugur til að leggja á það dóm. En hann gegndi sínu starfi sem aukastarfi í Reykjavík. Og það getur alls ekki kallazt frávikning frá embætti, þó að öðrum manni sé veitt nýtt starf, sem stofnað er til.

Ég vil að lokum lýsa yfir, að ég vil gjarnan, meðan ég er við þetta starf, eiga góða samvinnu við bæjaryfirvöldin í Reykjavík um þetta mál, sem er talsvert viðkvæmt. Og ég hef lagt ríka áherzlu á það við manninn, sem tók við starfinu, að hann hafi sem bezta samvinnu við alla aðila hér og þá meðal annars bæjaryfirvöld Reykjavíkur. Hef ég svo ekki meira út af þessu að segja.