19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Ég tel mig verða að svara nokkrum orðum þeim miklu samherjum. hv. þm. A-Húnv. og hv. þm. S-Þ.

Hv. þm. A-Húnv. sagði í upphafi ræðu sinnar, að það væri sýnilegt. að ég bæri minna traust til bænda en fyrirrennari minn í þessu sæti, þar sem ég sýnilega treysti þeim ekki til að fara með þessi mál, þvert á móti því, sem hann hefði gert. Ég veit, að þegar hann talaði um fyrrv. landbrh., þá meinti hann sjálfan sig. því að hann telur sjálfan sig hafa verið mótor í því, sem gert hefur verið í landbúnaðarmálum í tíð fyrrv. stjórnar. Ég skal þá reyna að gera samanburð á mér og honum. Sá er munurinn á mér og hv. þm. A-Húnv., að ég treysti bændum til að kjósa sjálfum þá fulltrúa, sem eiga að fara með þessi mál, í staðinn fyrir það, að honum þótti vissara að sía þá í gegnum hendur fyrrv. landbrh., láta hann ráða því, hverjir færu með þessi mál fyrir hönd bænda, í staðinn fyrir það, að ég vil láta þá sjálfa velja þá, ákveða sjálfa, hvaða menn þeir velja til að fara með þessi mál.

Hv. þm. talaði síðan um það, að hér væri verið að koma upp eins konar gerðardómi og það væri hér verið að taka valdið af bændum til þess að ráða verðlagi á vörum sínum, þvert á móti því, sem hefði verið áður. Ég vil nú minna hv. þm. á. að í gildandi l. um búnaðarráð, þá er það svo, að þeir, sem fara með verðlagsvaldið, eru allir skipaðir af ríkisstj., en samkvæmt þessu frv. fara með verðlagsvaldið aðilar, sem eru kosnir af bændum landsins, á móti þeim aðilum frá neytendum, sem eiga að semja um þetta, á sama hátt og fulltrúar verkamanna og fulltrúar atvinnurekenda semja um kaupgjald verkamanna. Hitt er rétt, að það er ákveðið, að meðan landbúnaðarvörur eru greiddar niður á innlendum markaði og greiddar útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir, þá fer gerðardómur með þessi mál. Ef þeir aðilar, sem tilkvaddir voru frá verkamönnum og bændum, ekki koma sér saman, þá er settur gerðardómur til að skera úr deiluatriðunum. En höfuðatriðið í þessum l. er það, sem hv. þm. gekk alveg fram hjá, að það er fyrirskipað í þessum l., að það eigi að greiða bændum fyrir sína vöru það verð, að þeir beri úr býtum hliðstætt því, sem aðrar stéttir í þjóðfélaginu gera. Þetta er aðalatriði málsins, sem ekki er hægt að komast í kringum, og það var þetta. sem var undirstaða sex manna nefndar samkomulagsins á sínum tíma. Ég hef sagt það áður og segi það enn, að engin löggjöf um ákvörðun á íslenzkum landbúnaðarvörum hefur verið eins vinsæl og sex manna nefndar löggjöfin, af því að þar var viðurkennt af Alþ., að það bæri að greiða bændum það verð, að þeir bæru svipað úr býtum og aðrar stéttir, og á því var fengin viðurkenning af hálfu neytenda, svo að ekki þyrftu að standa um það óendanlegar deilur, hvort það verð, sem bændur bera úr býtum fyrir afurðir sínar, sé hæfilegt eða ósanngjarnt.

Þessi tvö atriði eru meginefni þessa máls, og það er það, sem bændur um allt land svo að segja undantekningarlaust hafa látið í ljósi skoðun sína um, að væri heppilegasta, réttlátasta og æskilegasta fyrirkomulagið. Það er þetta fyrirkomulag. sem hér er tekið upp á ný og á að vera grundvöllur fyrir verðlagningunni framvegis.

Hv. þm. talaði um, að hér væri gerðardómur, sem ekki þekktist um kaupákvarðanir neinna annarra stétta. Ég vil segja, að ef þetta er gerðardómur, þá var úrskurður sex manna n. líka gerðardómur og veit ég ekki betur en hv. þm. A-Húnv. væri á sínum tíma með þeim gerðardómi og hafi talið sér til gildis, að hann hafi átt þátt í að koma honum á. Þetta er sams konar gerðardómur og hann stóð að að koma á með sex manna n. En þessi gerðardómur, sem er enginn gerðardómur eftir venjulegri merkingu þess orðs, er allt annars eðlis en þeir, sem hér hafa áður verið settir til að útkljá kaupgjaldsmál, því að hér er því slegið föstu, og um það þarf ekki að deila, að bændur eigi að fá það verð á vörur sínar, að þeir beri svipað úr býtum og aðrar stéttir þjóðfélagsins. Það er sá grundvöllur, sem skylt er að byggja á. Og það, sem á að fara eftir, eru búreikningar, sem fyrir liggja og hafa verið haldnir lengi og verður haldið áfram og eru sífellt að aukast og fullkomnast. Það má að vísu alltaf um það deila, hvað sé rétta útkoman, en ég vil þó segja, að nær réttu verður ekki komizt en það að ákveða, að bændastéttin skuli bera úr býtum fjárhagslega jafnt og aðrar stéttir og um það skuli farið eftir úrskurði manna, sem eru taldir færastir til að dæma um það á hverjum tíma. Það er ekki hægt að komast nær því, og ég er sannfærður um, að bændur muni bera meira úr býtum með þessari tilhögun, þó að hún sé stundum kölluð gerðardómur, en þó að þeir hefðu farið út í baráttu við aðrar stéttir um verðlagið. Ég er sannfærður um, að slík barátta væri óæskileg og hefði ekki verið fallin til að fita bændur betur en það fyrirkomulag, sem hér á að lögfesta.

Hv. þm. var að tala um nauðsyn þeirrar brtt., sem hann ber fram, um að viðhafa hlutfallskosningu. Hann þarf ekki að bera fram neina brtt. um það, því að það er í l. stéttarsambands bænda, að það eigi að viðhafa hlutfallskosningu, ef þess er óskað innan samtakanna, svo að þetta liggur fyrir og þarf ekki að lögákveða það af Alþingi.

Þá minntist hv. þm. á. að réttara væri að endurskoða sex manna álitið fremur en að viðhafa þá skipun, sem hér er ákveðið. En það er að deila um keisarans skegg, því að sú skipun, sem hér er ákveðin, er endurskoðun á sex manna álitinu, og það er ætlazt til, að sama verði lagt til grundvallar fyrir verðlagningarákvörðunum og gert var í sex manna álitinu og tekið tillit til þeirra breyt., sem orðið hafa, síðan það álit var samið. M. ö. o., þetta er endurskoðun á grundvellinum, þó að það sé borið fram í annarri mynd, og þarf hv. þm. því ekki að bera fram brtt. um það efni.

Þetta voru aðalatriðin í því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, en ég kemst ekki hjá því að svara hv. þm. S-Þ. nokkrum orðum.

Hv. þm. S-Þ. sagði, að með þessu frv., sem hér lægi fyrir, væri ég að gera samning fyrir hönd bænda, sem ég hefði ekki umboð til og bændur mundu verða mér lítið þakklátir fyrir. Ég skal fyrst og fremst geta þess, að áður en gengið var frá þessum samningi. sem lagður var til grundvallar fyrir frv., kvaddi ég til ráðuneytis stjórn stéttarsambands bænda og það, sem hér er lagt til, er í aðalatriðunum það, sem þeir óskuðu eftir, að kæmi inn í þessa nýju löggjöf, en í stjórn sambandsins eru fulltrúar fyrir bændastéttina, kosnir af fulltrúaráðum þeirra, sem eru þannig upp byggð, að fulltrúar hvers einasta hrepps koma saman á sýslufundi og sýslufundur skipar fulltrúa á landsfund og landsfundur kýs stjórnina. Þegar var gengið frá stofnun stéttarsambandsins á Hvanneyri í haust, stóðu allir fulltrúarnir að því samkomulagi, sem þar var gert, og mynduðu samtökin eins og þau eru nú í dag. Það hafði staðið styr á undanförnum árum um tilhögun sambandsins. og hv. þm. S-Þ. þekkir það vel, því að hann tók þátt í því, en það endaði með fullu samkomulagi allra fulltrúa um öll atriði, einnig þeirra, sem á sínum tíma höfðu staðið með hv. þm. S-Þ. og óskuðu að fara aðra leið í þessu máli. Stjórn stéttarsambandsins samþykkti í öllum aðalatriðum það fyrirkomulag, sem hér liggur nú fyrir. En það var ekki nóg með það. Búnaðarþing kom saman s. l. vetur, og þótti mér rétt að leggja þetta frv. fyrir búnaðarþing, ekki af því að búnaðarþing eigi eftirleiðis að fara með þessi mál, því að það er eitt atriðið í þessu frv., að stéttarsamband bænda á algerlega að fara með þessi mál eftirleiðis, heldur vegna þess að búnaðarþing hefur áður staðið að þessum málum og að nokkru leyti lagt grundvöllinn að stéttarsamtökum bænda og sex manna l. Ég vildi því einnig láta búnaðarþing dæma um þetta frv., og það var samþ. á búnaðarþingi með öllum atkv. gegn einu, sem var á móti því, að frv. yrði að l. Og þetta eina atkvæði, sem var á móti, byggðist á því, að sá maður óskaði eftir að breyta einu ákvæði l. Ég verð því að segja, að ef nokkurt frv. hefur nokkurn tíma verið lagt fram með fullu samþykki bændastéttar landsins, þá er það þetta frv., þar sem tvö fagfélög, sem bændur skipa sér í, Búnaðarfélag Íslands og stéttarsamband bænda, hafa fyrst og fremst samþ. að fylgja þessu máli.

Þá talaði hv. þm. S-Þ. mikið um, hvernig komið væri málum íslenzkra bænda, þar sem þeirra aðstaða væri eins og nú væri orðið, að þeir fengju engu að ráða um verðlag á vörum sínum, en aðrar stéttir væru svo að segja einráðar, hvaða verð þær settu á sína vinnu. Nú er þetta í raun og veru ekki þannig. Það er ekki rétt, að verkamenn séu einráðir um, hvaða kaup þeir fái. Samkvæmt l. hafa þeir aðeins rétt til að semja við vinnuveitendur, en enginn taxti er löglegur, ef hann er ekki samþ. af verkamönnum, og ekki heldur nema hann sé samþ. af atvinnurekendum. Þess vegna er það svo, að þá fyrst, er þeir hafa komið sér saman, er um löglegt kaup að ræða. Nú hélt hv. þm. fram, að þetta væri aðeins bókstafur, því að í raun og veru réðu verkalýðssamtökin ein öllu í þessu efni og réðu því sjálf, hvaða kaup væri á hverjum tíma. Það má segja, að undanfarið hefur þetta verið þannig, að það hefur verið lítil mótspyrna frá hálfu atvinnurekenda gegn verkamönnum í kaupgjaldsmálum, því að hin mikla atvinna og hinir miklu peningar, sem hafa verið í gangi, hafa valdið því, að verkamenn hafa verið sterkari til að koma sínum málum fram. Þetta er alveg rétt. En hvers geta bændur krafizt frekar en að fá að fylgja í slóðina? Þeim er tryggt af löggjafanum, að þeir fái alveg sama og þessir verkamenn. Hann talaði um, hvað kaupið væri hátt, kolamokarar hefðu haft 70 þús. og aðrar verkamannastéttir gífurleg laun. Hvað er verið að gera með þessum 1.? Það er verið að lögfesta, tryggja eins og mögulegt er, að bændur fái hliðstæð laun og verkamenn, ekkert annað en það. Ég held, að það sé ekki hægt fyrir bændur að komast frekar í slóð þessara manna en með því að fá aðstöðu til að tryggja sér sama kaup og hliðstæðan grundvöll. Ég er hræddur um, að þótt stéttarsambandið væri máttugt og þó að þeir væru djarfir, þá yrðu þeir aftarlega, ef þeir ættu að sækja rétt sinn með stéttabaráttu, ef þeim væri ekki liðsinnt á annan hátt, því að það er alveg gefið, og ég er alveg samdóma hv. þm. S-Þ., að það verða miklir erfiðleikar fram undan, þegar verður farið að semja um kaup og kjör og verðlag á vörum og bændur yrðu ef til vill að horfast í augu við að verða að færa niður — ég er hræddur um, að í þeim átökum, sem þá yrðu um kaup annars vegar og verðlag hins vegar, þá mundu bændur verða nokkuð aftarlega í þeirri baráttu, ef þeir ættu aðeins að treysta á mátt og megin stéttarsamtaka sinna. Mér sýnist því, að sú leið, sem hér á að fara, sé miklu vissari en sú, sem hann virðist vilja fara, því að við verðum að viðurkenna það, að verkalýðsfélögin hafa miklu sterkari aðstöðu. Þeirra samtakamáttur er í þéttbýlinu, en bændur eru dreifðir út um allt land. Ég er því hræddur um, að þeir mættu sín lítils í þeim átökum, sem við getum búizt við, að fram undan séu um kaup og kjör verkamanna og verð á framleiðslu bænda. Og hversu mikil trygging er þá ekki í því fyrir bændur, ef búið er að lögfesta hér og reynt að tryggja, eftir því sem hægt er, að þeir skuli á hverjum tíma bera sama úr býtum og aðrar stéttir? Ég veit ekki, hvers er frekar hægt að krefjast fyrir hönd bænda. Ég hygg, að þeir geti ekki gert hærri kröfur en það, að þeir skuli bera svipað úr býtum og aðrar stéttir, en það er það, sem þeim er tryggt með þessari löggjöf. Ég vil halda fram, að í þeim átökum, sem hv. þm. S-Þ. var að spá, að fram undan væru, þá séu bændur betur settir með þessa löggjöf og framkvæmd hennar en ef Pétur yrði að deila við Pál í þeim átökum, sem hann spáði og kannske eiga eftir að koma og hann telur æskilegt, að bændur taki þátt í.

Þá kyrjaði hv. þm. enn sinn gamla söng um þau ógurlegu svik, sem bændur hefðu orðið fyrir á sínum tíma af hálfu búnaðarþings, þegar það ákvað að gera samning við ríkisvaldið um að hækka ekki verðlag á sínum vörum, þó að þeir hefðu til þess lagalegan rétt samkvæmt samkomulagi sex manna n. Það verð gátu þeir fengið á tvennan hátt, þeir gátu það með því, að ríkisvaldið borgaði þeim uppbætur á útfluttar afurðir. Ef ríkisvaldið hefði ekki borgað þær uppbætur, höfðu þeir rétt til að hækka verðið innanlands til að fá uppbætur á útflutningsvöruna með því innlenda verði.

Þegar hin margumtalaða eftirgjöf var ákveðin af búnaðarþinginu, lá fyrir, að ekki var neinn þingmeirihl. fyrir því að borga útflutningsuppbætur, og var þá um ekkert annað að gera fyrir bændur til þess að ná rétti sínum en hækka að sama skapi verð á innlendum vörum. En það var fleira, sem komið gat til greina — og kom til greina, að í stað þess að greiða útflutningsuppbætur lofaði ríkisstj. öðrum fríðindum á móti, sem miðuðu til hækkunar hjá bændum, ríkisstj. lofaði að greiða uppbætur á ull og lofaði um leið að greiða þá hækkun, sem yrði á framleiðslukostnaði fram á næsta haust. Og bændur á búnaðarþingi völdu þann kostinn að semja við ríkisvaldið um nokkur fríðindi á móti upp á það að hækka ekki vörur á innlendum markaði. — Það var mikið deilt um þetta og miklir spádómar um það af hv. þm. S-Þ. og fleirum, að hér væri verið að kasta milljónaverðmætum frá bændastéttinni til neytenda í stað þess að halda sínu striki og ákveða verðhækkun með l., eins og bændur hefðu rétt til. Það var deilt um þetta þá, en nú þarf ekki að deila um það, því að það er sannað með tölum fyrir þm., þó að hann hafi ekkert lært, sannað með tölum, að þau fríðindi, sem bændur báru úr býtum fyrir þessa samninga og skilmála, sem búnaðarþing setti á sínum tíma, voru fullt eins mikil og útflutningsuppbæturnar hefðu numið, þannig að fyrir liggur, að það, sem búnaðarþing gerði fyrir hönd bændanna á þessum tíma, var búhnykkur, og þarf ekki að rökræða það lengur. Það er sannað mál, sem allir viðurkenna, sem skilja tölur.

Þm. talaði um það, að ég bæri ábyrgð á því, sem gerzt hefði á búnaðarþinginu, mín væri sökin og ég bæri ábyrgð á því allra manna mest, því að ég hefði verið forseti. Eftir þessu að dæma eiga forsetar þingsins einir að bera höfuðábyrgðina á því, sem samþ. er á þingi á hverjum tíma, jafnvel þótt þeir greiði atkv. móti því. Mér er ekki grunlaust um, að ýmislegt hafi verið samþ. og afgr. í fjárl., sem hv. þm. A-Húnv., forseti sameinaðs þings, hafi ekki verið ánægður með og jafnvel greitt atkv. á móti. En samkv. hinni nýju kenningu ber hann ábyrgðina á því öllu saman. Það er þess vegna einkennilegt að halda því fram, að ég beri sökina, þar sem ég hafði ekki þarna svo mikið sem kosningarrétt. En hér er ekki um sök að ræða, og ég vil segja, að ég hefði verið upp með mér af því að taka á mig þessa ábyrgð, hefði fyrst og fremst verið mér að þakka sá búhnykkur, sem búnaðarþing stóð að að ákveða á haustþinginu 1944. En ég get það ekki, því að ég var aðeins fundarstjóri og bar upp till. sem forseti.

Ég held, að það sé ekki fleira en þetta, sem ég tel ástæðu til að svara hv. þm. S-Þ. Ég vil aðeins undirstrika það, sem ég er búinn að segja, að það er örðugt að tryggja framtíðina, bæði fyrir einstakar stéttir og þjóðfélagið í heild. En ég verð að segja, að ef nokkur leið er til að tryggja það, að komið verði í veg fyrir, að íslenzka bændastéttin verði bókstaflega mulin undir þeirri skriðu verðfalls, sem hv. þm. S-Þ. er að spá, er það sú löggjöf, sem hér liggur fyrir, og það ákvæði hennar, að skylt sé að tryggja íslenzkum bændum sambærileg kjör við aðrar stéttir þjóðfélagsins. Það kann að mega deila um ýmis ákvæði þessarar löggjafar, en um hitt verður ekki deilt, að íslenzkir bændur geta ekki á annan hátt betur tryggt sig en með þeirri löggjöf og framkvæmd hennar gegn því, að byrðarnar af verðfallinu, þegar þar að kemur, leggist þyngra á herðar þeirra en annarra stétta þjóðfélagsins.