19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Finnur Jónsson:

Ég ætla aðeins að ræða um heilbrigðismálahliðina á þessu frv. og óska, að heilbrmrh. verði við.

Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur kaupstaðabúana, sem margir hverjir höfum búið í sveit og viljum, að kjör manna þar séu góð, að heyra, að hér á Alþ. eru svona margir ágætir fulltrúar bændastéttarinnar, sem verja lífi sínu og kröftum til þess að sjá hennar heill borgið, og ég held, að bændastéttin sé ekki í neinni hættu fyrir því að verða undir neinu skriðufalli, meðan þingbekkirnir eru skipaðir jafnágætum bændavinum, sem tala máli bænda, þegar áhugamál þeirra eru á dagskrá. Að öðru leyti hafði ég ekki hugsað mér að blanda mér í þær deilur, sem hér hafa farið fram, en vildi rekja einn þátt þessa frv., sem frá sjónarmiði okkar bæjarbúanna er nokkuð merkilegur. — Með mjólkurl., sem nú er verið að afnema með þessu frv., var eftirlit með mjólkinni sett í hendur mjólkursölun., en störf mjólkursölun. voru síðar sett undir störf mjólkursamsölunnar, og þá féll um leið eftirlitsskyldan, sem hvíldi á n., sem var nokkuð óháð stjórn mjólkursamsölunnar, í hendur stjórnar mjólkursamsölunnar sjálfrar. Þeir, sem áttu að stjórna mjólkursamsölunni hér í bænum, áttu að sumu leyti að hafa eftirlit með gæðum þeirra vara, sem selja átti hér í kaupstaðnum. Þetta reyndist mjög óheppilegt í framkvæmd, og skal ég ekki rifja upp þá reynslu, en hún hefur orðið mjög til viðvörunar. Ég vil ekki segja, að það hafi að öllu leyti verið stjórn samsölunnar að kenna, hve lengi það dróst að fá vélar í mjólkurstöðina. Að sumu leyti var það vegna stríðsins og að sumu leyti vegna þess, að ekki fengust nógu skjótar ákvarðanir um það, hvernig úr þessu ætti að bæta. En niðurstaðan af þessu eigin eftirliti varð sú, að mjólkurgæðin fóru stöðugt versnandi. Mjólkursamsölustjórnin hafði valið í sína þjónustu Sigurð Pétursson á sínum tíma, en hann fékk engu um þokað, sem hann vildi gera til úrbóta á mjólkinni, og sagði því starfinu lausu. Ég var þá heilbrmrh. og átti þess kost að kynna mér skýrslur Sigurðar Péturssonar, og þær sannfærðu mig um það, að ástandið um eftirlit með mjólkursölumálunum og mjólkurframleiðslunni var algerlega ófullnægjandi. Það var orðað svo af einum fyndnum þm., að skýrslur þessar sýndu að í einum kúbiksentimetra af mjólk væru fleiri gerlar en í Eyrarsundi, þar sem Dönum væri bannað að baða sig sér til heilsubótar, og er þetta því ekki ofmælt. Hér er ekki verið að kasta steini að neinum sérstökum, og má vera, að orsakirnar, sem liggja til þessa, séu að sumu leyti óviðráðanlegar, en ég hygg þó, að höfuðorsakanna sé að leita í mistökum hjá þeim, sem áttu að hafa þessi mál með höndum.

Um síðustu áramót var svo gefin út reglugerð, sem tók eftirlitið úr höndum þeirra, sem framleiða og selja mjólk, og lagði það í hendur þess aðila, sem eðlilegast er, að hafi það eftirlit með höndum, heilbrigðismálastjórnarinnar. Reglugerð um þetta gekk í gildi um síðustu áramót, en þrátt fyrir þá reglugerðarútgáfu voru þó enn í gildi ákvæði mjólkurl. um það, að stjórn mjólkursamsölunnar, sem líka fari með störf mjólkursölunefndar, skyldi hafa eftirlit með mjólkinni. Með þessu lagafrv., sem hér liggur fyrir, og þeim breyt., sem landbn. hefur gengið inn á, er að öllu leyti viðurkennd sú leið, sem farin var með þeirri reglugerð, sem ég gaf út, áður en ég fór úr ríkisstj., að eftirlitið skuli vera í höndum heilbrigðismálastjórnar. Ég er hv. landbn. þakklátur fyrir það, að hún hefur tekið upp þessa lagabreyt., því að ég hygg, að það hljóti að verða bæði neytendum og framleiðendum til góðs að koma eftirlitinu í hendur óvilhalls aðila. Nú eru ýmsir aðilar, sem að þessu eiga að vinna, sérstaklega við mjólkurbúin og við eftirlit og framleiðslu mjólkurinnar, úti á landi, svo sem dýralæknar, sýslumenn o. s. frv., þegar svo stendur á, en aðalatriðið er það, að tekið er upp nýtt form um sölu mjólkur og eftirlit með heilbrigði mjólkurinnar. sem væntanlega gefst betur í framkvæmd fyrir neytendur og seljendur. Nú hefur Sigurður Pétursson með sínum athugunum unnið mjög mikið að þessum breyt., og ég hafði þess vegna ætlazt til, að hann hefði eftirlitið hér í Reykjavík og á Suðurlandsundirlendinu, eftir því sem því yrði við komið, en settur yrði annar maður til þess að hafa eftirlit úti á landi og koma í kerfi því eftirliti, sem dýralæknum, sýslumönnum og heilbrn. er ætlað að hafa þar.

Nú vil ég á engan hátt vekja upp neinar deilur um þetta mál, en vildi mjög skjóta því til hæstv. heilbrmrh., að hann legði sig verulega fram um það að koma mjólkurframleiðslunni og mjólkursölunni úr því ófremdarástandi, sem hún hefur verið í, í það horf, að að gagni mætti koma bæði fyrir neytendur og framleiðendur, en tel, að það mesta gagn, sem hægt sé að vinna, sé að koma gæðum vörunnar á annan grundvöll en verið hefur og eins öllu heilbrigðiseftirliti. Mjólkurframleiðslan hér á landi borgar sig vissulega mjög vel og er sú framleiðsla, sem okkur er nauðsynleg vegna hollustu þjóðarinnar, og heilbrmrh. gerði þess vegna vel í því að reyna að koma þessum málum þannig fyrir sem allra fyrst, að sú skipulagsbreyt., sem ég hef lagt grundvöll að, komi hið allra fyrsta til verklegra framkvæmda á þann hátt, sem ég hér hef lýst.