19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég er meðflm. að till. á þskj. 867. Við þær till. hefur meiri hl. landbn. gert brtt. á þskj. 893. Nú hefur 1. flm., hv. þm. Snæf., lýst yfir, að hann fyrir sitt leyti geti fallizt á brtt. meiri hl. landbn. Þessu er á annan veg farið að því er mig snertir, mjög fjarri því, að ég geti fallizt á hana. Eins og hv. þm. Snæf. lýsti, er efni okkar till. takmarkað í fyrsta lagi við það, að búreksturinn sé í lögsagnarumdæminu. Í öðru lagi, að framleidd sé aðeins barnamjólk. Og loks, að ef sá möguleiki er fyrir hendi, að eitthvert bæjarfélag framleiddi aðeins barnamjólk, öðlaðist það undanþágu, svo sem lagt er til í okkar till. Ég vil ekki lengja umr. með því að rekja þetta nánar. En ég get sannast að segja ekki séð, hvers vegna bæjarfélag, sem rekur mjólkurbú til að framleiða fyrir sína eigin neytendur, eigi að vera þeim ákvæðum háð að verða að borga verðjöfnunargjald til að halda uppi því mjög svo óhæfa skipulagi á verðjöfnun mjólkur, sem kannske er ástæðan fyrir ófremdarástandinu í mjólkurmálunum.