23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Mál það, er hér liggur fyrir, er fyrst og fremst samkomulagsmál núv. stjórnarflokka. Í þessu frv. er fyrst og fremst steypt saman ýmsum l., sem áður hafa gilt um þessi efni. Og þeim hefur verið breytt í það horf, sem stjórnin hefur komið sér saman um. Með þessu frv., ef að l. verður, sem treysta má, er þessum málum steypt undir eina allsherjar stjórn, sem fyrst og fremst samanstendur af bændum og af þeim kosin. Og það er kannske það atriði, sem ég persónulega legg langmest upp úr og tel langveigamest og líklegast til árangurs. Þegar bændur undanfarið hafa verið með þessi mál, þá hefur það alltaf verið þeirra aðaláhugamál að vera sjálfs sín húsbændur, hafa með sín mál að gera. Og það er fyrst og fremst það, sem þeir fá með þessu frv. Framleiðsluráði er ætlað að vera framkvæmdarnefnd allsherjar félagsskapar bænda, sem sér um sölu á landbúnaðarvörum, eins og talað er um í 1. gr. Annað ákvæði í frv., sem ég tel þýðingarmikið, er ákvæði 2. gr., sem er viðkomandi verkaskiptingu meðal bænda. En þar er lagt fyrir framleiðsluráð að vinna að því að koma á verkaskiptingu um framleiðsluna, eftir því sem staðhættir, landfræðilegir og verzlunarlegir, mæla með. En það hefur verið lítill byr fyrir þessu hér á landi til þessa. Ég ætla það vera 30 ár, síðan ég fyrst hreyfði þessu máli á fundi á Hvanneyri, sem á voru á annað hundrað bændur. Ég sagði, að til væru jarðir í landinu, sem eftir legu og staðháttum ættu eingöngu að framleiða kindakjöt og aðrar, sem ættu að framleiða mjólk og ekki kjöt nema ef til vill til heimilis. Út af þessu átti alveg að drepa mig. En síðan hafa fleiri og fleiri séð þetta. Og fyrir 3 árum sendi búnaðarþing út frv. til búnaðarsambandanna, er það hafði samið um þetta efni og hugsað sér að ýta áfram til Alþ. Þá var ætlazt til þess, að markvisst yrði að þessu unnið með því að hafa verðlagið misjafnt, eftir því á hvaða jörðum vörurnar væru framleiddar. Ég var þá um vorið á tveim fundum, þar sem þetta var rætt. Þá var hugmyndin, að orðið gæti um 10% mismunur á kjötverðinu eftir því, hvort varan var framleidd á stöðum, sem sjálfsagt var að framleiða kjöt á, eða þar, sem það taldist ekki rétt. Á þeim fundum, sem ég var á, mætti þetta nokkrum skilningi, en ekki þeim, að telja mætti, að bændur væru tilbúnir að ganga inn á, að þessi breyt. kæmist á. Hins vegar er mér kunnugt um, að þeir menn, sem stóðu að stofnun stéttarsambandsins, vilja reyna að ýta þessu áfram, og stjórnin hefur í þeim efnum miklu betri aðstöðu en allir aðrir. Þetta eru tveir höfuðávinningarnir, sem ég sé við þetta frv. Ég tel einmitt vel farið, að í framleiðsluráð skuli einmitt koma menn, sem hafa áhuga á þessu og munu þoka málinu áleiðis í áttina, sem það þarf að fara, því að það þarf miklu meiri verkaskiptingu milli bændanna í landinu en verið hefur.

II. kaflinn er um verðskráningu varanna. Þetta er hlutur, sem mikið greinir á um hér. Sú breyt., sem farið er inn á, byggist á 4. gr. Höfuðundirstaðan er sú við verðskráningu landbúnaðarvara, að þeir, sem að þeim störfum vinna, beri úr býtum gegnum afurðaverðið laun í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta í landinu. Og til þess að ná þessu marki er ætlazt til þess, að menn, valdir annars vegar af neytendum og hins vegar af bændum, komi saman og finni grundvöll, sem verðið fari eftir, til þess að ná því markmiði, sem ég nefndi áðan. Þegar búið er að afla upplýsinga, sem hagstofan á að láta í té, um afkomu annarra stétta, þá er aðeins auðvelt reikningsdæmi að finna út, hvað bændur eiga að bera úr býtum til þess að hafa laun í samræmi við aðrar stéttir. En komi fram ágreiningur, svo að ekki næst samkomulag, þá er gert ráð fyrir því, að yfirnefnd skeri úr, og í henni er hagstofustjóri oddamaður.

III. kafli er um sauðfjárafurðir. Er ekki neitt sérstakt nýtt í honum. Hann er saminn upp úr ákvæðum, sem gilt hafa síðan kjötl. urðu til. Það er nú komið svo, að þótt þau á sínum tíma vektu mikinn andróður, þá held ég, að tæpast sé hægt að finna mann í landinu, sem telur þau ekki þurfa að vera áfram í gildi.

Nýtt í þessum l. er IV. kafli, um sölu stórgripakjöts. Hann er þó ekki nýr hvað snertir sölu nautgripakjöts. Síðan 1934 hefur verið til heimild um verðskráningu á því. En sú heimild hefur ekki verið notuð. Það, sem á hefur staðið, er það, að grundvöll hefur vantað undir að flokka kjötið. En það er á markaðinum í geysilega mismunandi ástandi. Hefur því ekki verið hægt að skrá á það neitt verð. Nú hefur verið nokkuð að því unnið, að það verði flokkað. Er því kannske hægt að hrinda því í framkvæmd, áður en langt um líður. Verðskráningin á því hefur staðið í vissu hlutfalli við verð á kindakjöti á hverjum tíma. Aftur á móti er nýmæli í 17. gr. um hrossakjötið. Það gerir ráð fyrir því, að myndaður verði félagsskapur um sölu á hrossakjöti. Sá félagsskapur skal starfa eftir vissum reglum. sem taldar eru upp í 17. gr. Með tilliti til þessa gerir gr. ráð fyrir, að framleiðsluráð skipuleggi sölu á hrossakjötinu. Á hrossasvæðunum hefur verið töluvert mikið um þetta talað, og þar finnst mönnum vera þörf á þessu, því að hrossasalan til slátrunar hefur oft gengið misjafnlega. Síðast í haust, er leið, gekk sá kappi af hólmi, sem mest hefur gert að því að kaupa hross og reka til slátrunar, með á annað hundrað hross, sem hann fékk ekki markað fyrir. En markaðurinn er nokkuð mikill, stundum milli 500–600 hross, sem slátrað er á hverju hausti til matar. Það er þörf á að skipuleggja þennan markað. Það er ætlazt til, að framleiðsluráð, sem er skipað af bændum sjálfum, reyni að koma markaðinum í lag.

V. kafli er svo um mjólkurmálin, sem hafa verið töluverður ásteytingarsteinn. Málið er hér lagt þannig fram, að reynt er að tryggja, eftir því sem hægt er, að sem bezt mjólk komi á markaðinn á hverjum tíma og eins mikil og mögulegt er, til þess að hún fullnægi eftirspurninni.

Sem nýmæli má nefna, að það er ætlazt til þess, að framleiðsluráð geri ráðstafanir til þess, þar sem um litla mjólkurframleiðslu er að ræða, að hún beinlínis verði aukin, og sömuleiðis ráðstafanir til þess að auka mjólkursölu á ýmsum stöðum á landinu. Það er stundum talað um mjólkurskort í Reykjavík, en það eru ýmsir aðrir staðir, sem vantar mjólk, og þangað kemur ekki framleiðslan, nema eitthvað sé að gert. Jafnframt er ætlazt til að snúa sér að því, að innlendir markaðir notist sem bezt. Það er ekki langt síðan farið var að selja mjólk frá landi í Vestmannaeyjum. Að þessu hefur lítið verið gert, og hef ég trú á því, að framleiðsluráð geti með sínum störfum gert mikið til þess að auka markað fyrir mjólkurafurðir innanlands. En þessa er þörf, og mikil þörf, því að mjólkurafurðir hafa ekki mikinn markað, yfirleitt seljast hæst eitthvað um 200–300 tonn í landinu af smjöri.

Þá er VI. kafli, sem er um verðmiðlun. Gert er ráð fyrir að greiða verðmiðlun á mjólk, sem geri það að verkum, að mjólk á sama svæði sé greidd bændum sama verði á sölustað, sé hún jafngóð, og til þess að koma á verðmiðlun á milli sölusvæða. Það er ætlazt til, að borgað sé fyrir mjólkina eftir því, hve góð hún er. Hitt hefur verið gert, að borga misjafnlega mikið til bænda eftir því, hvað mjólkin er misjafnlega feit. Svo er líka ætlazt til. að tekið sé verðmiðlunargjald af mjólk frá hverjum einstaklingi á sölusvæðinu til þess að verðjafna milli sölusvæða. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé eitt af þeim atriðum, sem hvað mestur ágreiningur er um. Annars má segja, að ekki sé ástæða til þess, að mjólk sé framleidd nema við beztu skilyrði. Þetta er alveg rétt, en hins vegar held ég, að út af sjálfri mjólkurdreifingunni séu ýmis svæði, sem eru þannig sett, að þau geta með nokkrum rétti að vísu misjafnlega miklum — haldið því fram, að þau eigi eins hægt með að koma mjólk á markað eins og einhver önnur svæði, og þá er ekki nema eðlilegt, að komið sé á móti þeim að einhverju leyti, og það er ætlunin með þessu verðjöfnunargjaldi að koma í veg fyrir, að eins mikil ásókn verði á aðalmarkaðinn, sem getur leitt til ýmiss konar óþæginda, og það er gert með því að láta menn hafa eitthvað hærra verð fyrir mjólkina en þeir mundu fá, ef hún færi öll í vinnslu. Það er ekki ákveðið, hve hátt þetta verðjöfnunargjald skuli vera. Það er gert ráð fyrir, að menn þreifi sig áfram með það, og það er vilji þeirra manna, sem nú ráða í stéttarsambandinu, að þetta verðjöfnunargjald verði ekki hátt í fyrstu. Það segir sig sjálft, að það veltur á miklu fyrir bændur, að í framleiðsluráðið veljist menn, sem hafa fullan skilning á þessu máli og sýna því fulla sanngirni í framkvæmdinni, og þá fyrst og fremst með því að hafa það hugfast að vinna að því, að meiri verkaskipting komist á milli bænda. Í öðru lagi með því að muna, að skilyrði til þess, að einhver vara seljist, er að hún sé góð og til hennar vandað.

Ef framleiðsluráð man þessi tvö sjónarmið og hefur þau í huga, þá er ég ekki í nokkrum vafa um, að út koma betri framkvæmdir en verið hafa, hvort sem hafizt verður handa í þessu efni síðar á þessu ári eða á næsta ári.