23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég þarf nú að svara tveimur alllöngum ræðum, annarri frá hæstv. landbrh., en hinni frá hv. þm. N-M. Hæstv. landbrh. fór að tala um það, að það væri fleira, sem ylli dýrtíðinni, heldur en landbúnaðarafurðir, en ef hann heldur, að ég hafi nokkurn tíma haldið því fram, að dýrtíðin stafaði eingöngu af hinu háa verðlagi á þeim, þá skjátlast honum algerlega, og það, sem hann sagði í dag viðvíkjandi því, að ég vildi skipuleggja framleiðsluna, það voru, að því er mér fannst, mestu útúrsnúningar. Það er jú rétt, að ég er fylgjandi því að skipta landinu í framleiðslusvæði og greiða hærra verð fyrir mjólk í þeim héruðum, sem eiga fyrst og fremst að verða mjólkurframleiðsluhéruð, og hærra verð fyrir kjöt í þeim héruðum, sent eiga að stunda kjötframleiðslu. Ég ætla, að þessi skipting sé ekki það miklum erfiðleikum bundin, að hún sé ekki vel framkvæmanleg. Hins vegar kemur ekki til greina að taka einstakar jarðir út úr hvað þetta snertir. Þá taldi hæstv. landbrh., að það væri hart aðgöngu að ákveða með fógetavaldi, hvar eigi að framleiða kjöt og hvar mjólk. Í mínum till. er ekki gert ráð fyrir þessu, heldur aðeins ætlazt til þess, að bændur fái hvatningu og sjái sér hag í að breyta til með framleiðslu í samræmi við staðhætti og aðstæður.

Þá vék hæstv. ráðh. að II. kafla frv., um verðskráningu, og þeim breyt., sem ég vildi láta gera á honum. Ég þarf ekki að svara því mjög ýtarlega, því að hv. þm. Barð. tók þar að nokkru leyti af mér ómakið, þegar hann benti á, að til væru í landinu fjölmennari stéttasamtök, sem frekar ættu rétt á að fá menn í ráðið, og á ég þar við Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Það virðist sérstaklega einkennilegt að taka út úr öllum heildarsamtökunum eitt stéttarfélag í Reykjavík, og gefa því sérstakan rétt, en sleppa jafnfjölmennum launþegasamtökum og starfsmannabandalaginu. Þá minntist hæstv. landbrh. á ákvæðin um yfirnefndina, og taldi hann hana nauðsynlega. Ég verð að segja það, að niðurgreiðslu úr ríkissjóði á landbúnaðarvörur tel ég eðlilegri en að þessi gerðardómur verði skipaður til þess að ákveða verð á landbúnaðarafurðum. Annars kemur hér fram sjónarmið hjá hæstv. landbrh., sem stangast á við flokkshugmynd Framsfl., því að í Tímanum kemur berlega fram sú skoðun, að bændur eigi að ráða þessu sjálfir. Þá vildi hæstv. landbrh. halda því fram, að n. þessi skyldi reikna út verð á landbúnaðarafurðun á hverjum tíma. Ég hygg, að ef reikna ætti þarna eftir tölum, sem nokkuð mark væri takandi á, þá þyrftu að vera fyrir hendi búreikningar, en hvað hefur Alþ. gert til þess að efla þá? Það hefur lækkað framlagið til þeirra og þar með unnið þeim ógagn.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þessi útreikningur n. væri einnig til þess að reikna út kaup bændanna samanborið við aðrar stéttir. Þetta er misskilningur. Ef gengið er út frá, að þetta sé svo, þá ríkir það sjónarmið, að bændur séu verkamenn, en það getur ekki komið heim við það, að þeir séu framleiðendur. Annaðhvort verður að ganga út frá því, að þeir séu verkamenn eða þá framleiðendur, sem þá jafnan eiga eitthvað á hættu, eins og venjulega er um framleiðendur. Ég álít því, að ég þurfi ekki frekar að svara hæstv. landbrh. [frh.]