19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

255. mál, eignakönnun

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Þetta frv. til l. um eignakönnun er lagt fram samkvæmt samkomulagi því, er náðist, er núverandi stjórn var stofnuð með þeim flokkum, er að henni standa. En málið sjálft, hugmyndin, á sér rætur í þeim kröfum, sem frá mörgum hliðum hafa fram komið, einkum í seinni tíð, um að svo kölluð eignakönnun fari fram í landinu. Þessar kröfur gerðu vart við sig við þær tilraunir til stjórnarmyndunar, sem fram fóru, eftir að fyrrv. stjórn lét af völdum. Þá kom fram krafa um eignakönnun frá þrem flokkum, sem fengust við þær tilraunir, enda vitað, að ef tekizt hefði að endurreisa stjórnarsamstarf með þeim flokkum, er stóðu að fyrrv. ríkisstj., mundi eignakönnunin hafa orðið eitt af stefnumálum þeirrar stjórnar.

Hinar háværu kröfur um eignakönnun, sem hér hafa uppi verið, eiga sér aðallega stoð í tvennu. Þau eru tvenns konar, rökin, sem heyrzt hafa fyrir því, að rétt og nauðsynlegt sé að hafa hér eignakönnun. Fyrst, að vitnað er til nágrannalandanna og á það bent, að eignakönnun hefur verið lögfest í Danmörku og Noregi, og oft er talið í öðrum málum en þessu eina til mála koma að hafa sama hátt á og nágrannalöndin. En þó að bent hafi verið á eignakönnunina í Danmörku og Noregi til rökstuðnings eignakönnun hér á landi, þá eru þó ákaflega ólíkar ástæður hér á landi og í þessum tveim löndum, sem nefnd hafa verið. Þar þótti það nauðsyn að hafa hendur í hári þess stríðsgróða, sem óvinveitt erlent hervald hafði tekið svo að segja úr fjárhirzlum þessara þjóða sjálfra og dreift út til þeirra, sem veittu hinu erlenda herveldi aðstoð, sem var andstæð hagsmunum og sjálfstæði þessara landa. En önnur röksemd er nærtækari en þessi, enda er þetta lítil röksemd fyrir eignakönnun hér á landi. Hin stoðin er allt annars eðlis, en hún er sú, að hér á landi er svo litið á, og enda á almennings vitund, að mikið fé hafi verið dregið undan skatti um mörg ár, en það hefur aftur truflandi áhrif á eðlilega og æskilega þróun atvinnu- og fjármálalífsins.

Ýmsar skoðanir geta menn haft um það, hvað valda muni þeim undandrætti fjár í skattaframtölum, sem hér er átt við og talin eru mikil brögð að hér á landi. Mín skoðun er sú, og vil ég við þetta tækifæri láta hana uppi, að búið sé að ganga allt of langt í skattaálögum hér á landi, svo langt, að með því hafi verið alinn upp sá hugsunarháttur hjá þjóðinni, að undandráttur fjármuna við skattaframtöl sé nauðvörn. Ég tel ekki verða hjá því komizt, fyrir hvaða ábyrga ríkisstj. sem er, að taka hæfilegt tillit til þessa almenningsálits, sem til er orðið, meðan þjóðin hefur búið við gildandi skattalöggjöf, ef með þeim aðgerðum, sem stofnað er til með þessu frv., tekst að koma á fót heilbrigðara fyrirkomulagi í þessum efnum og fá fram rétt framtöl skattborgaranna, en það mark höfum við sett með þessari löggjöf. Í því sambandi vil ég upplýsa, að ríkisstj. mun freista að láta fram fara gagngerða endurskoðun á skattalöggjöfinni, svo fljótt sem því verður við komið. Þrátt fyrir það sjónarmið, sem ég hef á drepið varðandi skattalöggjöfina yfirleitt og áhrif hennar á siðferðiskennd þjóðarinnar í þessum efnum, og það, hvernig á hana er litið af skattborgurunum, er þetta frv. borið fram líka til þess að tryggja ríkinu sinn hluta at því fé, sem undan hefur verið dregið skatti. Frv. byggir á þeirri meginreglu að viðurkenna þau skattaframtöl, sem hlutaðeigandi skattayfirvöld eru búin að taka gild, en opna hins vegar leið til þess, að ríkinu sé skilað stórum hluta af undandregnu fé, með þeim hætti, að keypt verði fyrir þetta fé svo að segja vaxtalaus ríkisskuldabréf til mjög langs tíma, er greidd séu með þeim peningum eða vaxtabréfum með 4–5% vöxtum, sem menn geta ekki gert grein fyrir í skattaframtölum sínum.

Lokatilgangurinn er svo sá, eins og ég gat um, að gera mönnum kleift að telja rétt fram til skatts í samræmi við gildandi lög. En ég tel ekki nauðsyn við þessa umr. að ræða einstakar gr. frv., enda mun verða tækifæri til þess síðar, bæði í þeirri n., sem málið fer til, og eins þegar það kemur úr n. En ég hef bent á orsakir þess, að málið er fram komið, og drepið á þau höfuðatriði, sem stefnt er að með þessu frv. Ég vil svo mælast til þess, að málinu verði vísað til fjhn. og 2. umr. að lokinni þessari umr.