19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

255. mál, eignakönnun

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Það mátti ráða af líkum, að mál eins og þetta, sem hér liggur fyrir, yrði umdeilt, bæði einstakar greinar og stefnan í heild. En ég vil benda hv. þm. á það, að undanfarið hafa verið háværar raddir frá sálufélögum þm. Siglf. um eignakönnun, þó að nú, þegar frv. er komið fram, telji þeir allt til foráttu og hér sé allt of langt gengið.

Þá átelur þm. Siglf. mjög þann drátt, sem orðið hefur á þessu máli, en ég vil benda á það, að mál sem þetta þarf mikinn undirbúning og áreiðanlega ekki heppilegt að flaustra slíku af. Ríkisstj. þykist líka hafa gert sitt bezta, þar sem hún fól þremur valinkunnum mönnum að undirbúa frv., en það voru þeir Pétur Magnússon alþm., Sigtryggur Klemenzson og Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari. Þegar þess er gætt, að ríkisstj. hefur haft mörg verkefni að starfa að, — það er þm. Siglf. kunnugt, að minnsta kosti þau verkefni, sem hann sjálfur skildi eftir óunnin eða verri en óhreyfð. — Ég tel, að eignakönnunin eigi að ná til allra sviða þjóðlífsins jafnt, ekki eingöngu til verzlunarstéttarinnar, heldur líka til þeirra, sem grætt hafa óeðlilega á húsabyggingum, þó að þm. Siglf. virtist vilja hafa þá að einhverju leyti undanskilda.

Það getur vel verið, að það séu til aðrar leiðir en hér eru valdar, en ég tel það þó mjög ómaklegt og skil ekki vel þá afstöðu þm. Siglf., þegar hann heldur því fram, að frv. nái mest til þeirra, sem lítið hafa, því að það er einmitt tekinn krókur á í frv., til þess að ekki sé tekið mjög hart á sparifjáreigendum, og ég álít þann krók alls ekki að ófyrirsynju. Ég tel einmitt rétt að elta ekki smáupphæðir, enda er lítill skattur af upphæðum, sem eru undir 45 þús., og 15 þús. sleppa alveg, en þetta telur þm. Siglf. allt of litla undanþágu og lýsti því með sínum venjulega öfuguggahætti.

Það er kannske þyrnir í augum þm. Siglf., að þetta frv. er ekki fyrst og fremst miðað við að gera menn seka, heldur meira miðað við, að menn geti komið framtölum sínum í lag, svo að ríkið geti fengið sinn hlut eins og lög mæla fyrir. Það er ekki einnar stéttar, heldur allra, að fé er dregið undan lögboðnum gjöldum, og aðkallandi vandamál að lagfæra það. En það er, eins og ég hef áður sagt, höfuðtilgangur þessa frv.