19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

255. mál, eignakönnun

Áki Jakobsson:

Mér finnst hæstv. fjmrh. víkja sér algerlega undan að ræða málið, og slær um sig með brögðum, vegna þess að hann treystir sér ekki til að ræða þau mál, sem ég ræddi fyrr um. Og það er úr þessari síðustu ræðu, sem ég vil taka nokkur atriði. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það, að það er ekki hægt að bera saman annars vegar ríkisskattan. og hins vegar þessa framtalsn., sem lögskipuð er með þessu frv. Þessi nefnd er miklu meir háð duttlungum fjmrh. en nokkur ríkisskattanefnd. Ég taldi mikinn aðstöðumun fyrir hæstv. fjmrh. til að hafa áhrif á störf framtalsn. samkvæmt frv. og svo hins, að hafa áhrif á störf ríkisskattanefndarinnar. Ríkisskattan. er skipuð til ákveðins árafjölda. Hefur ráðh. ekki annað að gera en að skipa ákveðna menn til að framkvæma þau skattalög, sem gilda á hverjum tíma. Það er venjulega þannig, að þegar þeir eru skipaðir í ríkisskattan., þá er óvíst, hvernig þau skattalög verða, sem þeir eiga að líta eftir um framkvæmd á. Hér gegnir öðru máli. Hér skipar fjmrh. 3 menn, sem eiga að framkvæma lög, sem í mjög verulegum atriðum eru þannig, að hæstv. fjmrh. á að ákveða, hvernig skilja beri. Þar að auki eiga þeir að framkvæma þessa einu eignakönnun, sem stendur í mjög skamman tíma. Það er ekki verið að skipa hér fasta starfsmenn til ákveðins árabils, heldur til að framkvæma ákveðið starf. Þetta sýnir, að fjmrh. hefur miklu meira vald yfir þessum mönnum en nokkurn tíma yfir ríkisskattan., eins og um hnútana er búið. Þetta finnst mér einmitt dæmi þess, að þarna hefur fjmrh. of mikið vald samkv. þessum lögum. Og ég verð að segja það, að mér finnst næstum furðulegt, að hæstv. fjmrh. skuli yfirleitt kæra sig um að taka sér slíkt vald á sínar herðar og þar með þá ábyrgð, sem því fylgir. Mér finnst eðlilegt, að þingið ákveði slíkt. Það er t. d. ráðh., sem á að ákveða ótalmörg atriði, t. d. fyrir hvern dag á að innleysa peningana, við hvaða dag eigi að miða eignakönnunina. Þetta er allt á valdi ráðh., og er furðulegt, að nokkrum mönnum skuli geta komið til hugar að leggja slíkt vald á herðar eins manns, og enn þá furðulegra, að nokkur maður vilji taka við slíku valdi. Það er í allri skattalöggjöf, að framkvæmdavaldið geti þar sem minnst raskað, að það geti notað skattalögin til að elta ólar við hina og þessa og sleppa öðrum. Það er reynt að skapa sérstakt vald, sem reynt er að hafa sem tryggingu gegn því, að hægt sé að fara út í slíka hlutdrægni, eins og oft má reikna með, að framkvæmdavaldið geri og þessi stjórn hefur sérstaklega sýnt tilhneigingu í þá átt að gera. Og það er sérstaklega tilfinnanlegt, þegar hér eru gerðar ráðstafanir, sem ekki hafa áður verið gerðar hér á landi, í sambandi við rannsókn á eignum manna. Hæstv. fjmrh. sagði, að ekki væri hægt að segja, hverjir helzt færu illa í eignakönnuninni og hverjir ekki. Það er eðlilegt, vegna þess að þessi þriggja manna nefnd má ákveða, hverja hún ætlar að rannsaka og hverjum að sleppa, og það er því þannig fullkomið happdrætti og óvissa.

Ég vil sem sagt undirstrika það, sem ég sagði áðan og hæstv. fjmrh. treysti sér ekki til að hrekja, og það er, að með þessari eignakönnun er verið að halda áfram á sömu braut og átt hefur sér stað í skattalöggjöfinni. Annars vegar eru menn, sem hafa fastar tekjur og tekjur, sem eru þannig gefnar upp, að þeir verða að borga skatt af öllum sínum tekjum og greiða fullan skattstiga. Hins vegar eru þeir, sem hafa alls konar „forretningar“ og geta falið fjármuni og tekjur með erlendum innistæðum, vörubirgðum, fasteignum og vélum með of lágu verði, og það eru einmitt þeir menn, sem hafa haft aðstöðu til að koma sér undan skatti á þann hátt, sem hæstv. fjmrh. lýsti í ræðu sinni, og því nauðsynlegt að leggja út í þessa eignakönnun. Nú á með þessari eignakönnun ekki að gera neitt nýtt annað en innkalla fé, skattleggja verðbréf og skattleggja innistæður manna í bönkum. En þetta verður vitanlega að gagni þeim mönnum, sem rík fyrirtæki hafa. Þeir hafa alltaf næg tækifæri til þess að skjóta sínum eignum undan. Þeir geta stöðugt forsvarað, að þannig standi á með þeirra vörueignir, að þeir eigi ekki peninga. Þeir smærri hafa enga slíka möguleika. Þannig er hér ekki um að ræða annað en framhald á sama ástandi, sem hér hefur átt sér stað með skattalög, að þeir, sem fyrirtæki reka, hafa sérstöðu til að bregða sínum eignum undan framtali.

Það er aðeins þetta, sem ég vildi segja, áður en ég lýk máli mínu, og hæstv. fjmrh. er órólegur yfir, að ég tel, að slík almenn eignakönnun, eins og hér er farið fram á samtímis því, að það er ákveðið, að verzlunarmenn eða innflutningsaðilarnir og ýmsir þeir, sem mest hafa getað grætt á stríðinu, án þess að tryggt sé, að þeir séu skyldugir til að gera grein fyrir sínum eignum og tekjum undanfarin ár, sé gersamlega út í bláinn og fullkomlega ranglátt að ganga eins harkalega og gert er ráð fyrir í þessu frv. að hinum smærri, þar sem hinir stærri fá tækifæri til að bregða sinum eignum undan.