19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

255. mál, eignakönnun

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Ég hafði nú varla búizt við, að hv. 6. þm. Reykv. mundi æskja eftir, að frekar væri á það minnzt, að þegar hann var í Alþfl., hefði hann mjög leitað eftir launuðum störfum. Hann hefur vafalaust haft þörf fyrir þau störf, enda fékk hann þau í ríkum mæli. Fyrir atbeina Alþfl. var hann skipaður endurskoðandi landsreikninganna, hann var skipaður formaður útvarpsráðs (SigfS: Var það eftir eigin ósk — ég segi nei), fyrir atbeina Alþfl. var hann kosinn í tryggingaráð, og skömmu áður en hann fer úr flokknum leitaði hann stíft eftir því að verða forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Hann sótti það mál ákaft og eindregið, en það starf fékk hann ekki, og skömmu síðar hvarf hann úr flokknum.