21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

255. mál, eignakönnun

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Herra forseti. Fjhn. hefur lesið þetta frv. yfir. Og við höfum átt tal við formann þeirrar n., sem samdi frv. um eignakönnun, sem hér liggur nú fyrir. Meiri hl. n. í það minnsta hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að frv. sé mjög vel og vandlega samið. Á þessu stigi málsins gerir fjhn. engar breyt. við frv., en þó eru einstöku atriði, sem meiri hl. n. vill ræða um við hæstv. ráðh., og kann að vera, að meiri hl. komi með brtt. um þau atriði á síðara stigi málsins.

Hvað snertir meginreglur þær, sem frv. er samið eftir, þá er frv. í samræmi við þann samning, sem gerður var milli núverandi stuðningsflokka stjórnarinnar, þegar hún var mynduð. Og um teknisk framkvæmdaratriði virðist vera mjög vel frá gengið og vandlega. En það eru kannske einstöku atriði, sem n. þykir ábótavant um, og þá einna helzt 46. gr., um birgðaskoðun. Meiri hl. n. treystir sér samt ekki til þess að gera breyt. á þessu ákvæði. Það mun vera erfitt að gera birgðakönnun hjá öllum í einu vegna skorts á mannafla.

N. vill leggja áherzlu á það, að sú heimild, sem talað er um, verði þannig framkvæmd, að mönnum verði það ljóst í upphafi, að slíkri rannsókn er hægt að beita, ef menn telja ekki rétt fram, og verður það mesta tryggingin, sem hægt er að skapa fyrir réttum framtölum á birgðum og eignum.

n., sem á að framkvæma eignakönnunina, hefur og ýmis gögn í höndunum til aðstoðar til þess að meta, hvort rétt er fram talið, því að hún getur kynnt sér, hvað menn hafa flutt inn, og eins, hvað þeir hafa selt samkv. ársreikningum. Getur hún svo að því athuguðu metið, hvort rétt sé að gera birgðakönnun hjá einstökum fyrirtækjum eða verzlunum.

Ég læt svo nægja að vísa til grg. n. og grg. hæstv. ráðh. við síðustu umr. og sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar. Það mun ekki heldur vera þörf á því að fara út í umr. um skoðun minni hl. n., vegna þess að hann gerir engar pósitívar till. um málið.